Búrfell, Búrfellsgjá og Selgjá í Garðabæ

Áform um friðlýsingu

Umhverfisstofnun, ásamt Garðabæ og landeigendum, kynnir hér með áform um friðlýsingar Búrfells, Búrfellsgjár og Selgjár í Garðabæ samræmi við VII. kafla laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.

Búrfell er eldstöð frá nútíma, hlaðin úr gjalli og hraunkleprum, með fallegri og heillegri hrauntröð, Búrfellsgjá og Selgjá, sem er um 3,5 km löng. Frá Búrfelli hefur runnið mikið hraun og er með elstu hraunum sem vitað er um á Heiðmerkursvæðinu. Búrfellsgjá og Selgjá eru yfir 200m breiðar þar sem þær eru breiðastar og eru veggir þeirra um 5-10m háir. Innan svæðisins er nokkuð um fornminjar, svo sem Gjáarétt sem er í vesturenda Búrfellsgjár, fyrirhleðslur, Réttargerði og vatnsbólið Vatnsgjá. Menningarminjar þessar voru friðlýstar samkvæmt þjóðminjalögum árið 1964. Svæðið er kjörið til útivistar, umhverfisfræðslu og rannsókna, en Búrfell og nágrenni er vinsælt útivistarsvæði. Hefur svæðið einnig verið vinsæll viðkomustaður ferðamanna og er helsta aðdráttaraflið einstök náttúra og jarðmyndanir.

Tillaga að mörkum svæðisins miðast við hnitsett mörk skv. hnitaskrá og eru birt á korti.

Áform um friðlýsingar eru kynnt í samræmi við 2. mgr. 38. gr. náttúruverndarlaga en gert er ráð fyrir að svæði sem ekki er á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár skuli kynnt sérstaklega. Í kjölfar kynningartímans munu fulltrúar Umhverfisstofnunar, Garðabæjar, landeigenda og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, vinna drög að friðlýsingarskilmálum og leggja fyrir rétthafa lands og aðra sem hagsmuna eiga að gæta. Fyrirhuguð friðlýsing mun að lokum verða auglýst opinberlega í þrjá mánuði og öllum gefinn kostur á gera athugasemdir við framlagða tillögu.

Friðlýsingarnar miða að því að varðveita einkenni og sérstöðu svæðanna bæði hvað varðar lífríki og jarðminjar. Í auglýsingum um friðlýsingar er heimilt að kveða nánar á um takmarkanir sem leiða af friðlýsingunni, m.a. á umferðarrétti og framkvæmdum. Þá er jafnframt heimilt að kveða á um að afla skuli leyfis Umhverfisstofnunar til athafna og framkvæmda sem áhrif geta haft á verndargildi viðkomandi svæðis.

Frestur til að skila athugasemdum við áformin er til og með 23. ágúst 2019. Athugasemdum má skila á hér, með tölvupósti á netfangið ust@ust.is eða senda með pósti til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík.

Frekari upplýsingar veita Ingibjörg Marta Bjarnadóttir (ingibjorgb@ust.is) og René Biasone (rene@ust.is) með tölvupósti eða í síma 591-2000.

 

 

Upplýsingar

Skrár