Umhverfistofnun - Logo

Garðahraun í Garðabæ

Áform um stækkun og endurskoðun friðlýsingar Garðahrauns efra í Garðabæ

Umhverfisstofnun, í samstarfi við Garðabæ og Styrktar- og líknarsjóði Oddfellowa, kynnir hér með áform um stækkun og endurskoðun friðlýsingar fólkvangsins í Garðahrauni efra í Garðabæ, í samræmi við 52. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.

Garðahraun efra var friðlýst sem fólkvangur í apríl 2014, ásamt Garðahrauni neðra, Vífilsstaðahrauni og Maríuhellum í Garðabæ. Garðahraun efra er hluti af Búrfellshrauni sem rann snemma á nútíma fyrir um 8100 árum og eru talin eiga uppruna sinn í Búrfellseldstöðinni. 
Umrædd stækkun fólkvangsins nær annars vegar til þess hluta hraunsins í Garðahrauni efra sem ekki er friðlýstur nú þegar, að lóðamörkum lóða við Hraunhóla. Hins vegar er um að ræða votlendið Vatnsmýri norðaustan Vífilsstaðahrauns. Jaðar Garðahrauns efra við Hraunhóla er helluhraun, en innar á hrauninu tekur við klumpahraun. Með því að fella umrætt svæði innan marka fólkvangsins í Garðahrauni efra næst fram skipulegri heildarmynd af jarðfræðilegum feli hraunsins sem talið er vera sérstætt á landsvísu. Votlendið við Vífilsstaðahraun er lítt raskað votlendi.

Staðsetning svæðisins innan þéttbýlis gefur svæðinu mikið fræðslu- og útivistargildi. Jafnframt er að finna innan fólkvangsins blátoppu sem er sjaldgæf grastegund á válista.

Friðlýsingin er hluti af átaki í friðlýsingum sem kveðið er á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Tillaga að stækkun fólkvangsins miðast við hnitsett mörk skv. hnitaskrá og eru birt á korti.


Kort af svæðinu

Garðahraun - hnitaskrá

Áform um friðlýsingu eru kynnt í samræmi við 2. mgr. 38. gr. náttúruverndarlaga en gert er ráð fyrir að svæði sem ekki er á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár skuli kynnt sérstaklega. Í kjölfar kynningartímans munu fulltrúar Umhverfisstofnunar, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, landeigenda og Garðabæjar vinna drög að friðlýsingarskilmálum og leggja fyrir rétthafa lands og aðra sem hagsmuna eiga að gæta. Fyrirhuguð stækkun fólkvangsins og friðlýsingaskilmálar verða að lokum verða auglýst opinberlega í þrjá mánuði og öllum gefinn kostur á gera athugasemdir við framlagða tillögu.

Markmið friðlýsingarinnar er að stækka fólkvanginn í Garðahrauni sem svæði til útivistar og almenningsnota og að ná fram skipulegri heildarmynd hraunsins sem talið er sérstætt á landsvísu. Staðsetning svæðisins innan þéttbýlis gefur hrauninu mikið fræðslu- og útivistargildi. Í auglýsingu um friðlýsingu er heimilt að kveða nánar á um takmarkanir sem leiða af friðlýsingunni, m.a. á umferðarrétti, notkun veiðiréttar og framkvæmdum. Þá er jafnframt heimilt að kveða á um að afla skuli leyfis Umhverfisstofnunar til athafna og framkvæmda sem áhrif geta haft á verndargildi viðkomandi svæðis.

Frestur til að skila athugasemdum við áformin er til og með 25. mars 2021. Athugasemdum má skila á hér að neðan, með tölvupósti á netfangið ust@ust.is eða senda með pósti til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík.

Umhverfisstofnun vekur athygli á því að innsendar athugasemdir eru hluti af stjórnsýslumáli og kunna að verða afhentar þriðja aðila, sé þess óskað, í samræmi við upplýsingalög nr. 140/2012.

Frekari upplýsingar veita Ingibjörg Marta Bjarnadóttir (ingibjorgb@ust.is) og René Biasone (rene@ust.is) eða í síma 591-2000. 

Senda ábendingu

Upplýsingar

Skrár