Hlið í Garðabæ

Fólkvangurinn Hlið í Garðabæ

 

Áform um breytingar á mörkum fólkvangsins Hliðs í Garðabæ

Umhverfisstofnun, ásamt Garðabæ, kynnir hér með áform um breytingu á mörkum fólkvangsins Hliðs í Garðabæ, í samræmi við lög nr. 60/2013 um náttúruvernd. 

Hlið var friðlýst sem fólkvangur árið 2002. Markmið friðlýsingarinnar er að tryggja landsvæði til útivistar og almenningsnota. Fjaran og aðliggjandi sjávarsvæði eru sérstaklega áhugaverð til náttúruskoðunar svo sem fugla- og fjöruskoðunar. Aðgengi að svæðinu er gott og því ákjósanlegt til útikennslu. Margæs, æðarfugl, rauðbrystingur, sendlingur og tildra eru ábyrgðartegundir sem finnast innan fólkvangsins. Tegundirnar eru í Bernarviðaukum II og III. 

Garðabær hefur óskað eftir því við Umhverfisstofnun að mörkum fólkvangsins Hliðs verði breytt á þann hátt að lóðir innan fólkvangsins verði stækkaðar og að landsvæði þar sem áður var gert ráð fyrir byggingarlóðum verði fellt innan marka fólkvangsins. Fer málsmeðferð skv. ákvæði 39. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. 

Tillaga að breytingu á friðlýsingarmörkum miðast við hnitsett mörk skv. hnitaskrá og eru birt á korti.

Hlið - kort af breytingu á mörkum

Hlið - hnitaskrá

Áform um friðlýsingu eru kynnt í samræmi við 38. gr. náttúruverndarlaga, en gert er ráð fyrir að svæði sem eru ekki á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár skulu kynnt sérstaklega. Að kynningartíma loknum tekur Umhverfisstofnun saman umsögn um framkomnar athugasemdir um áformin og skilar til umhverfis- og auðlindaráðherra. Að þeim tíma liðnum mun skipaður samstarfshópur um undirbúning friðlýsingarinnar vinna drög að friðlýsingarskilmálum og leggja fyrir rétthafa lands og aðra sem hagsmuna eiga að gæta. Að því loknu mun stofnunin auglýsa fyrirhugaða friðlýsingu í þrjá mánuði þar sem öllum gefst kostur á að gera athugasemdir við framlagða tillögu. 

Í auglýsingu um friðlýsingu er heimilt að kveða á um aðgerðir sem nauðsynlegar eru til að varðveita verndargildi svæðisins. Þá er heimilt að kveða á um takmarkanir s.s. á umferðarrétti, notkun veiðiréttar og framkvæmdum og að afla skuli leyfis Umhverfisstofnunar til athafna og framkvæmda sem áhrif geta haft á verndargildi svæðisins. Setja má mismunandi reglur fyrir einstaka hluta svæðis.

Frestur til að skila athugasemdum við áform Umhverfisstofnunar og Garðabæjar er til og með 23. ágúst 2019. Athugasemdum má skila á hér að neðan, með tölvupósti á netfangið ust@ust.is eða senda með pósti til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík.

Frekari upplýsingar veita Ingibjörg Marta Bjarnadóttir (ingibjorgb@ust.is) og René Biasone (rene@ust.is) eða í síma 591-2000.

Upplýsingar

Skrár