Látrabjarg

Í fyrstu náttúruverndaráætlun Alþingis (2004-2008) var samþykkt ályktun um að Látrabjarg og nágrenni yrði friðlýst sem búsvæði fugla. Frá árinu 2011 hefur Umhverfisstofnun unnið að undirbúningi friðlýsingar með samtali við landeigendur, sveitarfélag og fleiri. Samkvæmt 39. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd annast Umhverfisstofnun undirbúning friðlýsingar. Skv. 2. mgr. fyrrnefndrar greinar skal Umhverfisstofnun gera drög að friðlýsingarskilmálum og leggja fyrir landeigendur og aðra rétthafa lands, viðkomandi sveitarfélög og aðra sem hagsmuna eiga að gæta. Frestur til að gera athugasemdir við fyrirhugaða friðlýsingu skal vera þrír mánuðir og skal stofnunin í kjölfarið vísa málinu til ráðherra með tillögum að friðlýsingarskilmálum og gera grein fyrir því hvort að náðst hafi samkomulag um friðlýsinguna við hlutaðeigandi aðila.

  Sú tillaga að friðlýsingarskilmálum sem Umhverfisstofnun leggur hér fram byggir á því samtali sem hefur átt sér stað á vettvangi samstarfshóps og þeim athugasemdum sem bárust frá fulltrúum landeigenda við áður framlagða tillögu Umhverfisstofnunar að friðlýsingarskilmálum fyrir svæðið.

 Umhverfisstofnun leggur hér með fram tillögu að friðlýsingarskilmálum fyrir friðland að Látrabjargi ásamt tillögu að mörkum svæðisins. Frestur til að gera athugasemdir við tillöguna er til og með 18. júlí 2019. Athugasemdum má skila á heimasíðu Umhverfisstofnunar, með tölvupósti á netfangið ust@ust.is eða senda með pósti til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík. Umhverfisstofnun vekur athygli á því að innsendar athugasemdir eru hluti af stjórnsýslumáli og kunna að verða afhentar þriðja aðila sé óskað eftir í samræmi við upplýsingalög nr. 140/2012.  


   Frekari upplýsingar veita Edda Kristín Eiríksdóttir (eddak@ust.is) og Hildur Vésteinsdóttir (hildurv@ust.is) með tölvupósti eða í síma 591-2000.  

Upplýsingar

Skrár