Umhverfistofnun - Logo

Látraströnd - Náttfaravíkur

Umhverfisstofnun, í samstarfi við sveitarfélögin Grýtubakkahrepp og Þingeyjarsveit og landeigendur, vinnur að undirbúningi friðlýsingar svæðisins Látraströnd-Náttfaravíkur á skaganum milli Eyjafjarðar og Skjálfanda. Meginmarkmið friðlýsingarinnar er að vernda búsvæði fjöldamargra sjaldgæfra plöntutegunda, en svæðið býr yfir afar sérstæðu og óvenju fjölskrúðugu gróðurfari sem hefur verið vel rannsakað og hefur því allnokkuð vísindalegt gildi. Með því að tryggja búsvæðavernd tegundanna er stuðlað að viðhaldi líffræðilegrar fjölbreytni, sbr. markmið Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni og evrópska stefnumótun um plöntuvernd. Tillaga að friðlýsingu svæðisins er hluti af átaki í friðlýsingum sem kveðið er á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Á væntanlegu verndarsvæði Látraströnd – Náttfaravíkur er að finna 30 tegundir háplantna sem eru sjaldgæfar og þarfnast 12 þeirra verndar. Af þeim eru fimm á válista og fjórar friðlýstar. Á svæðinu eru einnig allmargar aðrar sjaldgæfar plöntutegundir. Gróðurfar er gróskumikið og landslag fjölbreytt. Gömul megineldstöð er á svæðinu með rhýólítmyndunum og tilheyrandi jarðhitaummyndun. Brotabelti er um norðanvert svæðið sem talið er vera þverbrotabelti tengt landreki og er einstakt á landinu. Svæðið hefur notið vaxandi vinsælda sem útivistarsvæði með mikilfenglegu landslagi og menningarminjum.

Samstarfshópur sem skipaður er fulltrúum Umhverfisstofnunar, sveitarfélaganna Grýtubakkahrepps og Þingeyjarsveitar og fulltrúar landeigenda munu vinna drög að friðlýsingarskilmálum og leggja fyrir rétthafa lands og aðra sem hagsmuna eiga að gæta. Að því loknu mun stofnunin auglýsa fyrirhugaða friðlýsingu í þrjá mánuði þar sem öllum gefst kostur á gera athugasemdir við framlagða tillögu.