Umhverfistofnun - Logo

Reykjatorfan

Sjá þrívíddarkort af svæðinu.

Áform um friðlýsingu Reykjatorfunnar

Umhverfisstofnun, ásamt sveitarfélaginu Ölfusi, Hveragerðisbæ og umráðendum ríkisjarða, kynnir hér með áform um friðlýsingu Reykjatorfunnar í Ölfusi.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um átak í friðlýsingum en skipaður var samstarfshópur umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og Umhverfisstofnunar vegna þess. Meðal verkefna hópsins er að friðlýsa m.a. svæði í verndarflokki rammaáætlunar sem og svæði sem eru undir ágangi ferðamanna. Reykjatorfan liggur upp af Hveragerði innan marka sveitarfélagsins Ölfus. Landslag svæðisins einkennist af jarðhita og er þar fjöldi hvera og lauga, bergganga, brota og framhlaupa. Svæðið er mikilvægt þegar það kemur að rannsóknum og hefur hátt fræðslugildi auk þess sem verndargildi lífríkis og jarðminja er mikið. Innan marka þess svæðis sem fyrirhugað er að friðlýsa eru tveir dalir, Reykjadalur og Grænsdalur. Mikill fjöldi ferðamanna heimsækir Reykjadal á hverju ári en svæðið er með vinsælustu útivistarsvæða í Ölfusi og er undir miklu álagi. Umhverfisstofnun lokaði svæðinu sl. vor vegna ágangs ferðamanna og hættu á gróðurskemmdum. Grænsdalur liggur samsíða Reykjadal. Hann er vel gróinn og þar er að finna gróskumikið votlendi og jarðhitasvæði. Er þar m.a. að finna mýrarhveravist, móahveravist og hveraleirsvist auk jarðhitalækja. Svæðið er að mestu óraskað og ekkert stígakerfi er til staðar til að stýra umferð gesta frá viðkvæmum svæðum og svæðum sem beinlínis hættulegt er að fara um vegna jarðhita. Umferð ferðamanna hefur aukist um svæðið á undanförnum árum og svæðinu því viðkvæmar fyrir raski en vistgerðirnar sem þar er að finna þola illa ágang. Svæðið er nr. 752 á náttúruminjaskrá.Tillaga að friðlýsingarmörkum miðast hnitsett mörk sbr. meðfylgjandi kort.

- Reykjatorfan – kort af svæðinu
- Reykjatorfan - hnitaskrá

Áform um friðlýsingu eru kynnt í samræmi við 2. mgr. 38. gr. náttúruverndarlaga en gert er ráð fyrir að svæði sem ekki eru á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár skulu kynnt sérstaklega. Að kynningartíma loknum tekur Umhverfisstofnun saman umsögn um framkomnar athugasemdir við áformin og skilar til umhverfis- og auðlindaráðherra. Að þeim tíma liðnum munu Umhverfisstofnun, sveitarfélagið Ölfus, Hveragerðisbær og fulltrúar landeigenda vinna drög að friðlýsingarskilmálum og leggja fyrir rétthafa lands og aðra sem hagsmuna eiga að gæta. Að því loknu mun stofnunin auglýsa fyrirhugaða friðlýsingu í þrjá mánuði þar sem öllum gefst kostur á gera athugasemdir við framlagða tillögu.Frestur til að skila athugasemdum við áformin er til og með 18. febrúar 2019. Athugasemdum má skila á heimasíðu Umhverfisstofnunar, með tölvupósti á netfangið ust@ust.is eða senda með pósti til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík.
Frekari upplýsingar veitir Svava Pétursdóttir (svava.petursdottir@ust.is) og Þórdís Vilhelmína Bragadóttir (thordis.bragadottir@ust.is) með tölvupósti eða í síma 591-2000.