Svæði í Þjórsárdal

Umhverfisstofnun hefur lagt til við ráðherra að svæði í Þjórsárdal verði friðlýst sem landslagsverndarsvæði og náttúruvætti. Verndargildi svæðisins felst fyrst og fremst í jarðfræðilegri sérstöðu, fágætu, sérstöku og fögru landslagi ásamt sérstökum náttúrufyrirbærum sem þar er að finna, þ.e. Gjánni, Háafossi, Granna og Hjálparfossi, ásamt þykkum gjóskulögum og þyrpingum gervigíga. Dalurinn er nokkuð sléttlendur og vikurborinn eftir endurtekin eldgos í Heklu. Á svæðinu eru einnig mikil tækifæri til útivistar og sjálfbærrar ferðamennsku. Sérstaða svæðisins felst einkum í einstakri náttúru, sérstökum jarðmyndunum og menningarminjum sem vitna til um mannvistir á svæðinu á fyrri tímum, t.a.m. eru rústir bæjarins að Stöng innan svæðisins. Þá er einnig að finna í dalnum merka sögu varðandi endurheimt birkiskóga og uppgræðslu vikra sem unnið hefur verið að síðan árið 1938 með það að markmiði að endurheimta birkiskóga til að gera landsvæðið betur í stakk búið til að standast áföll, s.s. vegna öskufalls úr eldgosum. 

Samstarfshópur skipaður fulltrúum frá Skeiða- og Gnúpverjahreppi, Umhverfisstofnun, umhverfis- og auðlindaráðuneyti, forsætisráðuneyti, Minjastofnun Íslands og Skógræktinn vann að undirbúningi friðlýsingar svæðis í Þjórsárdal á grundvelli náttúruverndarlaga nr. 60/2013. 
Áform um friðlýsingu svæðis í Þjórsárdal voru auglýst þann 21. desember 2018. Alls bárust 10 athugasemdir við áformin. Umsögn Umhverfisstofnunar um athugasemdirnar og viðbrögð við þeim má finna hér: 

Í kjölfar auglýsingar um áform um friðlýsingu svæðisins vann samstarfshópur tillögu að friðlýsingu svæðisins og mörkum þess. Tillagan var auglýst opinberlega í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laga um náttúruvernd nr. 60/2013 þann 13. júní 2019. Frestur til að gera athugasemdir var til 16. september 2019. Alls bárust athugasemdir frá 7 aðilum. Gerð er grein fyrir athugasemdum og viðbrögðum við þeim í greinargerð Umhverfisstofnunar sem er að finna hér: 

Þann 18. desember 2019 vísaði Umhverfisstofnun máli varðandi friðlýsingu svæðis í Þjórsárdal til umhverfis- og auðlindaráðherra með vísan til 39. gr. laga um náttúruvernd nr. 60/2013 þar sem lagt var til að 58 km2 svæði í Þjórsárdal verði friðlýst í samræmi við framlögð gögn: