Líffræðilegur fjölbreytileiki

Líffræðileg fjölbreytni felur í sér alla fjölbreytni plantna, dýra og örvera, sem og fjölbreytni vistkerfa og erfðafræðilega fjölbreytni innan tegunda. Útdauði tegunda í heiminum á sér stað með ógnvænlegum hraða og er tap á líffræðilegri fjölbreytni að mestu leyti af mannavöldum.  

Úttekt SÞ á vistkerfum (Millennium Ecosystem Assessment) frá árinu 2005 gaf til kynna að athafnir manna á síðastliðnum 50 árum hefðu breytt vistkerfum heimsins meira en á nokkru öðru skeiði í sögu mannkynsins. Þýðingarmestu þættirnir á bak við þessar tilhneigingar eru m.a. eyðing búsvæða, ágengar framandi tegundir, ósjálfbær nýting náttúruauðlinda, loftslagsbreytingar og mengun. 

Dregið hefur hratt úr líffræðilegum fjölbreytileika á Norðurlöndum frá 1990. Aðgerða er þörf og áherslubreytinga í náttúruvernd ef takast á að snúa þróuninni við. Jafnframt er talið  nauðsynlegt að samræma vöktun líffræðilegs fjölbreytileika en í dag er mikill munur á því hvernig það er gert í norrænu ríkjunum sem gerir allan samanburð erfiðan.

Samningur SÞ um líffræðilega fjölbreytni (Convention on Biological Diversity, CBD) tók gildi í Rio de Janeiro árið 1992. Á leiðtogafundinum um sjálfbæra þróun í Jóhannesarborg 2002 staðfestu leiðtogar meira en 150 ríkja að samningurinn væri mikilvægasta verkfærið til að varðveita líffræðilega fjölbreytni jarðarinnar. Til þessa hafa 190 ríki gerst aðilar að samningnum um líffræðilega fjölbreytni, þ.m.t. öll Norðurlöndin.