Andakíl

Árið 2002 var Hvanneyrarjörðin friðuð sem búsvæði fyrir blesgæsir. Árið 2011 var svæðið stækkað og nær svæðið nú yfir 14 jarðir í Andakíl og er 3.086 ha að stærð og fékk nafnið Andakíl. Árið 2013 var svæðið samþykkt sem Ramsarsvæði og er eitt af sex landsvæðum á Íslandi.

 Andakíl hefur hátt verndargildi, bæði á íslenskum og aðlþjóðlegum mælikvarða, þar sem svæðið er mikilvægt bú- og fæðusvæði fyrir fjölda fuglategunda.


 Á verndarsvæðinu er að finna fjölbreytt votlendi; tjarnir, hallamýrar, flóar, flæðiengjar og leirur sem gegna mikilvægu hlutverki fyrir fjölmargar fuglategundir s.s sem búsvæði og til fæðuöflunar. Vistkerfaþjónusta verndarsvæðisins er af ýmsum toga. Þar sem má t.d nefna frjóvgun villtra plöntutegunda og viðhald á líffræðilegum og erfðafræðilegum breytileika. Við ósa Andakílsár og Hvítár eru afar gróskumiklar flæðiengjar og leirur. Á verndarsvæðinu hafa fundist yfir 130 tegundir háplantna, þar af um 20 – 25 starategundir. Einnig hafa verið greindar um 50 tegundir af mosa og 25 tegundir af fléttum. Gulstör er ríkjandi tegund á flæðiengjunum en í Evrópu finnst gulstör eingöngu á Íslandi. Áætlað er að innan verndarsvæðisins verpi um 40 tegundir fugla, en rannsóknir og talningar sumarið 2017 benda til að þær geti verið fleiri. Alls voru 63 tegundir taldar sumarið 2017 á svæðinu. Svæðið er friðlýst sem búsvæði fugla og er t.d mikilvægasti áningarstaður grænlenska blesgæsastofnsins á Íslandi bæði vor og haust. Talið er að meira en 10% af heildarstofni gæsanna hafi viðkomu í Andakíl. Er það ein af meginástæðu þess að verndarsvæðið var skráð á lista Ramsar yfir alþjóðlega mikilvæg votlendissvæði. Nokkrar fuglategundir sem eru á válista NÍ halda sig í eða við svæðið, en það eru haförn, gargönd, brandugla og svartbakur.