Umhverfistofnun - Logo

Forgangsröðun stjórnunar- og verndaráætlana

Friðlýst svæði

  • Ríflega 130 friðlýst svæði
  • Náttúruminjar undir álagi
  • Umhverfisstofnun ákveður fjóra forgangsflokka
  • 1. flokkur hefur mestan forgang, 4. minnstan
  • Forgangsröðunin uppfærð reglulega

Umhverfisstofnun hefur umsjón með ríflega 130 friðlýstum svæðum á Íslandi. Samkvæmt 81. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd er eitt af hlutverkum stofnunarinnar að annast gerð stjórnunar- og verndaráætlana fyrir friðlýst svæði. Í lögunum er kveðið á um að tillaga að áætlun skal liggja fyrir innan árs frá gildistöku friðlýsingar. Í bráðabirgðaákvæði í lögunum kemur fram að gerð stjórnunar- og verndaráætlana fyrir svæði sem friðlýst hafa verið samkvæmt eldri lögum skuli lokið eigi síðar en tíu árum eftir gildistöku laga nr. 60/2013. Umhverfisstofnun hefur því unnið að forgangsröðun fyrir gerð stjórnunar- og verndaráætlana fyrir svæði sem þegar eru friðlýst.

Náttúruminjar eru margar hverjar undir miklu álagi, m.a. vegna aukins straums ferðamanna til landsins. Með þessari þróun hefur þörfin á innviðauppbyggingu og stjórnun aukist á fjölmörgum friðlýstum svæðum. Umhverfisstofnun gefur út árlega ástandsmatsskýrslu  um ástand náttúruverndarsvæða í umsjón stofnunarinnar. Er þar fjallað um ástand svæðanna og þau flokkuð eftir því hvort þau eru í góðu ásigkomulagi eða eigi verulega á hættu að tapa verndargildi sínu eða hafa tapað því að hluta. Tækifæri þeirra svæða felast m.a. í gerð stjórnunar- og verndaráætlana.

Stjórnunar- og verndaráætlunum er þó ekki einungis ætlað að sporna við áhrifum ferðamennsku á Íslandi enda eru ekki öll friðlýst svæði ferðamannastaðir. Markmiðið með stjórnunar- og verndaráætlunum er að marka stefnu fyrir svæðin um hvernig viðhalda skuli verndargildi þeirra. Í stuttu máli er með gerð stjórnunar- og verndaráætlun unnið að stefnumótun sem tekur mið af sérstöðu hvers svæðis fyrir sig. Þessi stefnumótun er ávallt unnin í nánu samstarfi við sveitafélög, landeigendur og aðra hlutaðeigandi aðila. Þá er unnin aðgerðaráætlun samhliða, þar sem nauðsynlegar aðgerðir til að viðhalda verndargildi svæðisins eru skilgreindar og tímasettar.

Forgangsröðunin er unnin út frá svokallaðri matrixugreiningu. Aðferðin felur í sér að skilgreindir eru 27 áhrifaþættir sem hafa áhrif á forgangsröðun stjórnunar- og verndaráætlana. 

 Áhrifaþættirnir eru meðal annars:

  • Niðurstaða ástandsmats
  • Hvort þörf sé á að endurskoða friðlýsingarskilmála svæðisins
  • Er votlendi innan hins friðlýsta svæðis
  • Er svæðið Ramsarsvæði
  • Hvort sérstaklega friðaðar dýrategundir eða válistategundir eiga búsvæði innan svæðisins
  • Hvort svæðið sé á heimsminjaskrá UNESCO
  • Hvort þörf sé á rannsóknum innan svæðisins
  • Hvort þörf sé á að gera eða endurnýja umsjónarsamninga fyrir svæðið


Hverjum áhrifaþætti er gefið vægi og hverju svæði er síðan gefin einkunn frá 1-10 fyrir hvern þessara áhrifaþátta. Einkunnin er margfölduð með væginu og þannig fæst stigagjöf fyrir hvern áhrifaþátt. Stigin eru lögð saman hjá hverju friðlýstu svæði fyrir sig og svæðunum síðan raðað upp eftir stigagjöf. Er þeim síðan raðað í fjóra flokka:

  Fyrsti forgangur, svæði sem fá meira en 800 stig
  Annar forgangur, svæði sem fá 600-800 stig
  Þriðji forgangur, svæði sem fá 300-600 stig
  Fjórði forgangur, svæði sem fá minna en 300 stig

Svæðunum er raðað upp í stafrófsröð í hverjum flokki. Verkáætlanir friðlýsingateymisins fyrir árin 2021-2022 mun taka mið af þessari forgangsröðun og mun teymið, í samstarfi við náttúrusvæðateymi, vinna við gerð stjórnunar- og verndaráætlananna.
Hér að neðan má sjá forgangsflokka fyrir gerð stjórnunar- og verndaráætlana ásamt lista yfir þau svæði sem friðlýst hafa verið frá því ný náttúruverndarlög tóku gildi og vinna ekki hafin við gerð stjórnunar- og verndaráætlun. Forgangsröðunin er uppfærð á tveggja ára fresti.

1. Forgangsflokkur

 

2. Forgangsflokkur

3. Forgangsflokkur

4. Forgangsflokkur

Nýfriðlýsingar þar sem vinna við gerð stjórnunar- og verndaráætlana er ekki hafin