Umhverfistofnun - Logo

Litluborgir

Undanfarið hefur samstarfshópur unnið að gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir náttúruvættið Litluborgir í landi Hafnarfjarðar. Tillaga að áætluninni hefur nú verið lögð fram til kynningar á heimasíðu Umhverfisstofnunar, sjá hér:

Stjórnunar- og verndaráætlun, tillaga
Aðgerðaáætlun til þriggja ára

Litluborgir voru friðlýstar sem náttúruvætti árið 2009 með auglýsingu nr. 395/2009. Stærð svæðis er 10,6 ha. Litluborgir eru hraunborgir og gervigígar sem myndast hafa við það að hraun hefur runnið yfir stöðuvatn. Hellar og skútar eru í hrauninu og eru þeir viðkvæmir fyrir ágangi. Markmiðið með friðlýsingu Litluborga er að vernda sérstæðar jarðmyndanir í landi Hafnarfjarðar. Jafnframt er það markmið með friðlýsingunni að varðveita jarðmyndanir svæðisins vegna mikils fræðslugildis.

Stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Litluborgir er ætlað að vera stefnumótandi skjal, unnið í samvinnu við fulltrúa sveitarfélags og hagsmunaaðila og er hugsað sem stjórntæki til að móta framtíðarsýn svæðisins. Markmiðið með gerð hennar er að leggja fram stefnu um verndun náttúruvættisins og hvernig viðhalda skuli verndargildi svæðisins þannig að sem mest sátt ríki um. Í áætluninni er lögð fram stefnumótun ásamt aðgerðaáætlun til þriggja ára.

Eins og áður segir liggja drög að áætluninni nú frammi til kynningar og er öllum frjálst að koma á framfæri athugasemdum og ábendingum vegna hennar. Frestur til að skila inn ábendingum og athugasemdum varðandi tillöguna er til og með 20. október 2022.

Hægt er að skila inn ábendingum og athugasemdum hér að neðan eða senda póst til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík.

Nánari upplýsingar veita Guðbjörg Gunnarsdóttir gudbjorg@umhverfisstofnun.is og René Biasone rene.biasone@umhverfisstofnun.is eða í síma 591-2000.