Stök frétt

Víða um heim hefur mengun minnkað verulega í kjölfar minni umsvifa í samfélögum vegna kórónaveirunnar. Þetta sést best á svæðum þar sem eru ekki miklar breytingar á veðri frá degi til dags. Þannig var greinilegt að mengun minnkaði í Kína í kjölfar kórónaveirunar og einnig í norðurhluta Ítalíu en venjulega er Pó sléttan mengaðasta svæði Ítalíu, því þar er fólksfjöldi mestur og mikill iðnaður. Þar hefur mengun minnkað mikið.

 

Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur í loftgæðum hjá Umhverfisstofnun, segir aðspurður hvort veiran hafi minnkað loftmengun hér á landi, að á Íslandi séu oft mjög miklar sveiflur á veðri milli daga og því erfitt að segja með vissu út frá mælingum á stuttu tímabili hvort styrkur loftmenguanrefna í lofti hafi minnkað beinlínis út af kórónaveirunni þótt degið hafi mikið úr umferð, sjá nánar hér.

 

„Það eru ýmsir þættir sem ráða því hversu mikill styrkur loftmengunarefna er í andrúmslofti. Það fyrsta sem maður horfir á er hversu mikil losunin er, t.d umferðarmagn. Ef umferð hefur minnkað er viðbúið að losun mengunarefna sem kemur frá púströrum, t.d. niturdíoxíð (NO2) hafi minnkað í takt við minni umferð,“ segir Þorsteinn. En vegna þessu hversu ráðandi þáttur veðurlag er þá er ekki víst að tímabundin minnkun í umferð hafi strax sjáanleg áhrif á mengunarmælingar.

 

Spurður sérstaklega um svifryk segir Þorsteinn að  vegryk sé mjög stór þáttur hér. „Svifrykið er líka háð umferðarmagni og þar gildir það sama, meiri umferð þýðir meira vegryk, ef aðrir umhverfisþættir eru óbreyttir. En varðandi vegrykið skiptir líka máli hvort vegyfirborð sé þurrt eða blautt/rakt. Þannig að lítil umferð á þurrum vegi getur skapað mikið vegryk meðan mikil umferð á blautum/snævi þöktum vegi skapar lítið vegryk. Þannig að það er enn erfiðara að sjá hvort breyting hefur orðið á svifryksmengun út af kórónaveirunni heldur en öðrum mengunarefnum.“

 

Samkomubann var sett á hér á landi mánudaginn 16. mars. Í kvöld verða enn frekari kvaðir lagðar á samskipti fólks. Marktækt minni umferð hefur orðið um vegi landsins og því er ljóst að einhver jákvæð umhverfisáhrif verða af áhrifum veirunnar ef svo má að orði komast.

 

Losun frá annarri starfsemi eins og t.d. stóriðju og jarðvarmavirkjunum er væntanlega óbreytt að sögn Þorsteins, því reynt hefur verið að halda þeirri starfsemi óbreyttri.