25.03.2011 12:30

Hvítabjörn í Þistilfirði


Miðvikudaginn 27. janúar 2010 kl.13:14 barst neyðarlínu tilkynning um að hvítabjörn væri genginn á land í Þistilfirði og staðfesti lögregla á staðnum það skömmu síðar. Þá voru þrjár skyttur úr sveitinni kallaðar til, allt menn með mikla reynslu af dýraveiðum. Yfirlögregluþjónn á Húsavík gerði Umhverfisstofnun viðvart um björninn og var þegar hafist handa við að undirbúa aðgerðir og meta aðstæður. Haft var samband við umhverfisráðuneyti, Náttúrufræðistofnun, Náttúrustofu Norðvesturlands, Náttúrustofu Norðausturlands og héraðsdýralækni auk yfirlögregluþjóns á Sauðárkróki vegna reynslu hans af komu hvítabjarna snemmsumars 2008. Veður var rysjótt í Þistilfirði þennan dag og höfðu lögregla og skyttur misst sjónar af birninum í éljagangi. Stofnunin fór yfir aðstæður og tók undir mat lögreglunnar að nauðsynlegt væri að fella björninn við fyrsta tækifæri vegna veðurs og nálægðar við byggð. Um það bil tveimur og hálfum tíma eftir tilkynningu um björninn, eða kl 15:40, barst svo tilkynning um að bóndi í firðinum hefði fellt björninn. Talið er að dýrið hafi ferðast allt að 8 km frá þeim stað þar sem til þess sást fyrst. Starfsmenn Umhverfisstofnunar komu á staðinn um kl 18:00, fjarlægðu hræið og færðu Náttúrustofu Norðvesturlands en starfsmenn þar höfðu einnig fengið hræ þeirra bjarna er gengu á land 2008. Eftir að hafa flegið dýrið sendu þeir hræið áfram á Tilraunastöðina á Keldum þar sem það var krufið. Dýrið reyndist vera birna, 173 cm löng og 138 kg í góðu ásigkomulagi, áætlaður aldur um fjögurra ára.

Umhverfisstofnun starfaði í samræmi við niðurstöðu starfshóps um viðbrögð við landgöngu hvítabjarna sem skipuð var í kjölfar landgöngu tveggja hvítabjarna árið 2008. Niðurstaða starfshópsins var að fella beri hvítabirni sem ganga á land. Fyrir því eru þrenn meginrök, í fyrsta lagi öryggissjónarmið, í öðru lagi stofnstærðarrök og í þriðja lagi kostnaður við björgunaraðgerðir. Til þess að reyna björgun þurfa að vera ákjósanlegar aðstæður, s.s. að fólki stafi ekki hætta af, skyggni sé gott og tryggt að dýrið sleppi ekki út í vatn eða sjó. Aðstæður í Þistilfirði voru ekki ákjósanlegar til þess að reyna björgun.

Úr ársskýrslu Umhverfisstofnunar 2010

Til baka
Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira