05.08.2014 13:44

Grænt bókhald


Umhverfisstofnun vill vera til fyrirmyndar í umhverfismálum í allri starfsemi sinni. Umhverfisstjórnunarkerfi (ISO 14001) var innleitt árið 2010. Þar með voru lagðir grunnstoðir starfsins en áherslur breytast svo milli ára. Á árinu erum við sérstaklega ánægð með árangur okkar í úrgangsmálum, aukningu hjólareiðasamninga og innleiðingu á nýrri prentþjónustu með umhverfisvænni vaxprenthylkjum. 

Töluverður árangur varð í úrgangsmálum stofnunarinnar á árinu þar sem heildarmagn úrgangs frá Suðurlandsbraut 24 dróst saman um 1247 kg samanborið við árið á undan þrátt fyrir fjölgun ársverka úr 55 upp í 57. Magn úrgangs á hvert ársverk lækkar því milli ára úr 118 kg niður í 93 sem er 19 % samdráttur. Jákvæð teikn eru á lofti og þar sem einnig náðist sett markmið um hlutfall óflokkaðs úrgangs og umsýsla vegna losunar hefur verið bætt. 

Starfsmönnum býðst að gera hjólreiðasamning við stofnunin, sem er hluti af átaki um að auka notkun umhverfisvænni samgöngumáta. Mun fleiri starfsmenn voru á slíkum samningum á árinu, eða alls 13 starfsmenn samanborið við fjóra starfsmenn árið á undan. Tilkoma nýrra prentara vegna innleiðingar nýrrar prentþjónustu er meginástæða góðs árangurs í samdrætti í innkaupum á prenthylkjum, frá 0,6 prenthylki á stöðugildi 2012 niður í 0,3 hylki á stöðugildi milli ára. Nýja prentlausnin leyfir okkur að fylgjast betur með útprentun sem og möguleika á betri stýringu. 

Aðrar niðurstöður sem má nefna er að skráning græns bókhalds gefur okkur góða mynd af orkunotkun. Til að mynda getum við séð hversu stór hluti snjóbræðslan er af heildarnotkun. Mikil rafmagnsnotkun á 5. hæðinni endurspeglar þá staðreynd að mötuneyti stofnunarinnar er staðsett á þeirri hæð með tilheyrandi orkufrekum tækjabúnaði. Að lokum má nefna að að þrátt fyrir að Umhverfisstofnun reki starfsemi út um allt land og að ferðalög séu nauðsynlegur hluti af vinnu fjölmargra starfsmanna að þá fækkaði flugferðum milli ára; meðaltalstími ferða innanlands og erlendis hefur lækkað frá árinu 2012 úr 12 klst í tæpar tíu árið 2013. Heildarlosun CO2 árið 2013 var 6,95 á hvert stöðugildi. Mikil áhersla er lögð á fjarfundi þegar því er við komið. Bílar stofnunarinnar eru að hluta til reknir á umhverfisvænu eldsneyti og umhverfisvænir leigubílar eru pantaðir til stofnunarinnar.

Pistill úr ársskýrslu Umhverfisstofnunar 2013

Til baka
Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira