05.08.2014 13:22

Heilnæmt umhverfi


Umhverfisstofnun vill skapa heilnæmt umhverfi fyrir alla og lágmarka áhrif skaðlegra efna á heilsu fólks og umhverfi. Á árinu tóku gildi ný efnalög, sem m.a. fólu í sér breytt hlutverk stofnunarinnar hvað varðar eftirlit með efnavörum á markaði, og hefur í kjölfarið verið unnin eftirlitsáætlun til þriggja ára. Farið hefur fram gagnger endurskoðun á framkvæmd þessa málaflokks hjá stofnuninni, reglugerðir endurskoðaðar, upplýsingagjöf til almennings og birgja aukin, samskipti við hagsmunaaðila bætt og margt fleira. Mikilvægt er að neytendur hafi góðar upplýsingar um efnainnihald varnings á markaði, og að þeim sé ráðlegt hvernig lágmarka megi snertingu við óæskileg efni í vörum. Í þessu sambandi má benda á neytendasíðu Umhverfisstofnunar

Stofnunin fékk heimsókn frá Efnastofnun Evrópu um mitt árið og af því tilefni var haldinn kynningarfundur með hagsmunaaðilum þar sem fjallað var um skyldur þeirra sem markaðssetja efni, efnablöndur og hluti sem innihalda efni. Einnig voru á árinu haldnir almennir kynningarfundir fyrir birgja. Stofnunin hefur haft samráð við Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu um þessa kynningarfundi.

Mikilvægt er garðeigendur láti meta þörf fyrir garðaúðun áður en til hennar kemur svo hægt sé að halda notkun varnarefna í lágmarki. Skordýraeitur drepur öll skordýr, bæði þau sem gera gagn jafnt sem hin sem valda skaða. Skordýr eru liður í fæðukeðjunni t.d. fyrir fugla, og þannig getur úðun skordýraeiturs haft skaðleg áhrif á umhverfið. 

Stofnunin hefur lagt áherslu á kynningu varðandi raka og myglu og haldið kynningar um málefnið. Einnig var gefin út öryggishandbók um sund- og baðstaði, sem snýr að stjórnendum og starfsfólki sund- og baðstaða og í nóvember var haldið námskeið um gerð áhættumats fyrir sund- og baðstaði, sem er ný krafa, og á áhættumatinu á ljúka á árinu 2014. 

Kortlagning hávaða hefur staðið yfir síðustu ár en á árinu hófust Vegagerðin og sveitarstjórnir þær er málið varðar handa við að útbúa aðgerðaráætlanir í samræmi við kortlagningu hávaða. Fyrsta áfanga kortlagningarinnar lauk árið 2012 og tekur hún til vega með meiri umferð en sem svarar 6 milljónum ökutækja á ári. Öðrum áfanga lauk árið 2013, og náði hann til vega með umferð frá þremur til sex milljónum ökutækja á ári. Einnig hefur stofnunin lagt áherslu á hávaða í umhverfi barna. 

Þróun

Umhverfisstofnun veitir heimild til tolláritunar fyrir ýmis leyfisskyld efni. Innflutningur á efnum til iðnaðarnota og ýmsum eiturefnum dróst saman eftir hrun en virðist vera að aukast á ný. 

Innflutningur á kvikasilfri og kadmíum er lítill en getur sveiflast mikið á milli ára því notendur eru fáir. Auk þess eru fluttar inn stórar sendingar í hvert sinn sem endast í langan tíma. Kvikasilfur og kadmíum eru eitraðir þungmálmar og er notkun þeirra háð ströngum takmörkunum. Á síðasta ári samþykktu ríki heims að draga úr notkun kvikasilfurs með alþjóðlegum samningi sem kenndur er við japönsku borgina Minamata þar sem alvarlegt mengunarslys átti sér stað á 6. áratug 20. aldar. Kadmíum er til staðar í umhverfinu af náttúrulegum orsökum og reynt er að sporna gegn viðbótarálagi af mannavöldum með því að banna notkun þess í raf- og rafeindatækjum og rafhlöðum, svo eitthvað sé nefnt, og takmarka styrkleika þess í áburði.

Innflutningur á blýi hefur dregist saman undanfarin ár. Blý er þungmálmur sem er skaðlegur umhverfinu auk þess sem efnasambönd blýs eru eitruð og geta safnast upp í lífverum. Búið er að banna notkun blýs í raftækjum og ökutækjum að undanskildum rafgeymum. Blý er víða að finna í nánasta umhverfi okkar í ódýrum málmhlutum eins og skartgripum, hnöppum og sylgjum. Notkun blýs er enn gríðarlega mikil og verður væntanlega svo enn um sinn.  

Þó að notkun ýmissa eiturefna sé að dragast saman á það ekki við um öll eiturefni. Notkun eiturefna eins og metanóls og ammoníaks sem notuð eru í miklu magni í iðnaði hefur aukist þó að það sjáist ekki í tölum um innflutning síðustu þriggja ára. Metanól er eiturefni sem er flutt inn í miklu magni. Innflutningur þess hefur þó dregist saman sem skýrist að einhverju leyti af því að nýlega hófst framleiðsla á því hérlendis. Metanól er mest notað sem leysir í efnaiðnaði, sem eldsneyti og við framleiðslu á eldsneyti (lífdísil).


Pistill úr ársskýrslu Umhverfisstofnunar 2013

Til baka
Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira