05.08.2014 13:28

Hreint haf og vatn


Þann 22. mars 2013, á alþjóðlegum degi vatnsins, var haldin vísindaráðstefna um vatn og vatnsgæði á vegum Umhverfisstofnunar og umhverfis- og auðlindaráðuneytis. Markmiðið með ráðstefnunni var að veita yfirsýn yfir nýlegar rannsóknir á gæðum vatns á Íslandi með áherslu á áhrif vatnsnýtingar, landnýtingar og mengunar í vatni og sjó. Að ráðstefnunni komu fimm stofnanir, auk Umhverfisstofnunar: Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur, Orkuveita Reykjavíkur, Háskóli Íslands og umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Sýndi ráðstefnan glögglega hversu margir aðilar koma að málefnum vatnsins hér á landi og mikilvægi góðs samstarfs og samráðs milli þessara aðila. 

Súrnun hafsins er mikið vandamál eins fram kom á ráðstefnu í Bergen í Noregi í. Á ráðstefnunni voru kynntar niðurstöður matskýrslu AMAP (Arctic Monitoring and Assessment Program) vinnuhóps um súrnun í Norðurhöfum. Af niðurstöðum frá ráðstefnunni má nefna að súrnun í Norðurhöfum gerist mun hraðar en búist var við, en upplýsingar og vöktunarmælingar um súrnun eru þó af skornum skammti. Það er mismunandi eftir svæðum hversu mikil súrnunin er en afrennsli og eyðing stranda hafa áhrif á súrnunarferilinn.

Þann 27. júní barst Umhverfisstofnun tilkynning frá Landhelgisgæslu Íslands um skipsstrand við Skoreyjar á Breiðafirði. Vegna mögulegrar hættu á olíumengun frá skipinu virkjaði Umhverfisstofnun viðbragðsáætlun stofnunarinnar og sendi stofnunin bráðamengunarbúnað og starfsfólk á staðinn. Umrætt skip, Þórsnes II, sat á þurru landi er fjaraði undan því en engar verulegar skemmdir voru á skipsskrokknum. Skipið losnaði af strandsstað um kvöldið og er það var dregið á flot voru engin ummerki um að gat hefði komið á olíutanka og ekki gætti olíusmits frá skipinu. 

Umhverfisstofnun barst tilkynning frá Landhelgisgæslu Íslands þann 30. október um að eldur logaði í flutningaskipinu Fernanda og var skipið þá statt suður af Vestmannaeyjum. Vegna mögulegrar hættu á mengun fylgdist stofnunin vel með þróun málsins í samstarfi við Landhelgisgæslu Íslands. Fernanda var dregin til Hafnarfjarðarhafnar en vegna mikils reyks frá skipinu var skipið dregið á haf út og þaðan til Grundartangahafnar þar sem lokið var við slökkvistörfin og afgangsolía fjarlægð úr skipinu. Fernanda var á endanum dregin til niðurrifs í Helguvíkurhöfn enda skipið talið ónýtt. 

Þróun

Einn af umhverfisvísum Umhverfisstofnunar sem segir til um ástand hafsins er magn PCB í þorsklifur. PCB er samnefni fyrir efnisflokk sem inniheldur á um annað hundrað efna sem notuð voru í iðnaði, t.a.m. sem mýkingarefni í plast. Hætt var framleiðslu efnanna undir lok sjöunda áratugarins og hefur framleiðsla þeirra verið bönnuð. PCB teljast til þrávirkra efna sem brotna hægt niður í náttúrunni og safnast upp í fæðukeðjunni. Niðurstöður rannsókna benda til þess að styrkur PCB fari minnkandi í náttúrunni þ.á.m. eru tölur um styrk PCB í þorsklifur sem er nú innan allra viðmiða um heilnæmi.

Annar umhverfisvísir á ástand hafsins er styrkur kadmín í þorsklifur. Kadmín (Cd) er frumefni, málmur sem telst til þungmálma og er t.a.m. notaður í tengslum við framleiðslu tilbúins áburðar. Kadmín getur verið skaðlegt þó í litlu magni sé og haft áhrif á heilastarfsemi í fóstrum og ungviði. Kadmín safnast fyrir í lífverum, t.d. í lifur og nýrum. Mælingar á magni kadmíns í þorsklifur gefa til kynna að styrkur þess hafi aukist frá árinu 1991 þó svo að styrkur þess hafi hlutfallslega lækkað í mælingum frá árinu 2006. Styrkurinn telst enn hár en síðustu mælingar gefa til kynna að styrkur kadmíns sé um 210 míkrógrömm í hverju kílói af þorsklifur sem er með því hæsta sem mælist. 

Umhverfisstofnun vill að allt vatn á Íslandi uppfylli gæðamarkmið um hreinleika og lífvænleika. Árangursvísar sem stofnunin notast við eru fjöldi vatna undir álagi annars vegar og hins vegar vistfræðilegt og efnafræðilegt ástand vatns. Í lok ársins lauk Umhverfisstofnun við gerð stöðuskýrslu um vatn sem er fyrsta skrefið í gerð heildstæðrar vatnaáætlunar. Í stöðuskýrslunni er fjallað um skiptingu vatns í vatnshlot og vatnsgerðir, þætti sem geta valdið álagi á vatn og hvort hætta sé á að vatnshlot standist ekki umhverfismarkmið um gott ástand. Þar sem vinnan við gerð vatnaáætlunar er enn í gangi liggja ekki fyrir tölur um álagsgreiningu, en álagsgreinigin gerir grein fyrir hvaða vatnshlot eru í hættu vegna álags, að óvissa ríki um ástandið og að vatnshlot séu ekki í hættu. Annar umhverfisvísir er vistfræðilegt og efnafræðilegt ástand vatns. Vistfræðilegt ástand miðast við lífríki vatnsins, þ.e. tiltekna líffræðilega gæðaþætti, vatnsformfræðilegra gæðaþætti sem styðja líffræðilegu þættina og að síðustu eðlis- og efnafræðilega þætti sem styðja líffræðilegu þættina. Efnafræðilegt ástand miðast við styrk tiltekinna mengunarefna, þungmálma og svokallaðra forgangsefna. Þegar gögnum hefur verið safnað saman um álag og vistfræðilegt og efnafræðilegt ástand vatns ætti að verða til gott yfirlit yfir ástand vatns á Íslandi.

Pistill úr ársskýrslu Umhverfisstofnunar 2013

Til baka
Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira