05.08.2014 13:37

Hreint loft og takmörkun gróðurhúsaáhrifa


Árið 2013 einkenndist að mörgu leyti að stórum uppgjörum tengdum loftslagsmálum. Í apríl skilaði Umhverfisstofnun skýrslu til loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna um losun gróðurhúsalofttegunda og þróun þeirrar losunar frá árinu 1990-2011. Helsta niðurstaða þeirrar skýrslu var að losun CO2 jókst um 26% á tímabilinu. Frá árinu 2008 hefur losun þó dregist saman um 13%. Má þessa minnkun einkum rekja til minni losunar frá stóriðju, að stórum hluta vegna betri framleiðslustýringar, en einnig vegna minni eldsneytisnotkunar við byggingarstarfsemi, við fiskveiðar og í samgöngum.

Samstarfshópur um aðgerðaáætlun í loftslagsmálum skilaði um mitt árið úttekt á framkvæmd áætlunarinnar til umhverfis- og auðlindaráðherra. Losun hefur dregist saman eða staðið í stað í flestum geirum á tímabilinu en á móti kemur að binding kolefnis úr andrúmslofti varð minni en gert var ráð fyrir. Í skýrslunni segir að athygli veki samfelldur samdráttur í losun frá samgöngum frá 2007, en losun þar hafi aukist verulega árin þar á undan. Verulegur samdráttur varð einnig í losun frá byggingarstarfsemi og skyldri starfsemi. Þótt efnahagsástandið skýri marga þætti í þróun losunar og kolefnisbindingar eru þó teikn á lofti um að loftslagsvæn tækni og lausnir séu að ryðja sér til rúms á sumum sviðum og má þar nefna rafvæðingu fiskimjölsverksmiðja og þróun í samgöngum. Fjöldi hjólandi vegfarenda á höfuðborgarsvæðinu hefur rúmlega tvöfaldast frá 2009 og farþegum í almenningssamgöngum hefur fjölgað. Metanbílum hefur fjölgað, en hlutfall bifreiða sem nýta aðra orkugjafa en jarðefnaeldsneyti er þó mjög lágt, eða undir 1%.

 

Útstreymi díoxíns hefur dregist saman um 90% frá árinu 1990. Losunin hefur verið nokkuð stöðug frá 2004 en losunin árið 2011 var sú minnsta frá 1990. Umrædda minnkun má rekja til þess að opnum brennslum fyrir úrgang hefur verið lokað. Útstreymi PAH (fjölhringa arómatískra kolvetna) jókst um 56% frá árinu 1990 þó svo að hún hafi dregist saman frá 2008. Um helming losunarinnar má rekja til iðnaðarferla og vegur málmframleiðsla, s.s. ál og járnblendi, þyngst. Aukning í slíkri framleiðslu á tímabilinu er helsta orsök aukningar á losun PAH. Sama má segja um aukna losun frá bifreiðum þar sem bílafloti landsins hefur stækkað um 143% frá 1990.

Þróun

Aukinn iðnaður, nýjar mengunaruppsprettur og vaxandi umferð valda aukinni losun mengandi efna út í andrúmsloftið. Jafnframt aukast áhrif efnanna á heilsu fólks samfara meiri búsetu í þéttbýli. Einn af árangursvísum um gæði lofts er styrkur svifryks (PM 10) en hinir vísarnir eru magn köfnunarefnisdíoxíðs (NO2) og kolmónoxíðs (CO) í andrúmsloftinu. 

Svifryk er gjarnan í umræðunni og á umferðin þar stóran hluta að máli þó svo að náttúrulegir þættir eins og eldgos og sandfok hafi sitt að segja. Ársmeðaltal svifryks (PM 10) á Grensásvegi í Reykjavík hefur farið lækkandi frá 1994 þó svo að ársmeðaltalið hafi ekki farið undir heilsuverndarmörk (20 míkrógrömm á rúmmetra) fyrr en í fyrsta skipti árið 2011 en þá var ársmeðaltalið um 15 míkrógrömm á rúmmetra. Köfnunarefnisdíoxíð er eitruð lofttegund sem myndast m.a. vegna bruna eldsneytis í vélum bifreiða. Lofttegundin myndar gul mengunarský þegar hún blandast öðrum lofttegundum. 

Ásamt svifryki er köfnunarefnisdíoxíð það efni sem skerðir loftgæði hvað mest í höfuðborginni. Styrkur köfnunarefnisdíoxíðs (NO2) á Grensásvegi hefur farið lækkandi frá 1995 en þá var styrkur ársmeðaltals efnisins yfir heilsuverndarmörkum. Árið 2000 fór styrkurinn í fyrsta skipti undir leyfilegt ársmeðaltal, sem eru 30 míkrógrömm í rúmmetra og árið 2012 var ársmeðaltal komið niður í 19 míkrógrömm í rúmmetra. 

Kolmónoxíð myndast við ófullkominn bruna eldsneytis. Undanfarin ár hefur styrkur kolmónoxíðs í andrúmslofti við helstu umferðaræðar farið minnkandi. Síðustu 10 ár hefur hæsta 8 klst. meðaltal kolmónoxíðs ekki farið yfir 3 mg í rúmmetra en heilsuverndarmörk eru 10 mg í rúmmetra. Ef heldur áfram sem horfir eru ekki líkur á að kolmónoxíð muni hafa veruleg áhrif á heilsu íbúa höfuðborgarinnar. 

Ástæða þess að styrkur köfnunarefnisdíoxíðs og kolmónoxíðs hefur farið lækkandi frá 1995, þrátt fyrir aukin fjölda bíla, eru auknar kröfur um mengunarvarnarbúnað í bílum. Í mörg ár hafa nýir bensínbílar verið með hvarfakút og eldri bílar sem ekki hafa þennan búnað eru smám saman að hverfa af götunum. 

Umhverfisstofnun fylgist með losun gróðurhúsalofttegunda og er það einmitt einn af árangursvísum stofnunarinnar. Stofnunin skilar árlega skýrslum þar um til Skrifstofu Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem og um bindingu kolefnis. Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda hefur á síðustu 24 árum aukist og munar mestu um aukningu í losun frá samgöngum og iðnaði. Aðrir þættir eins og losun frá úrgangi, landbúnaði og sjávarútvegi hafa að mestu staðið í stað þó svo að losun frá sjávarútvegi hafi hlutfallslega lækkað. Ef ná á árangri í losun gróðurhúsalofttegunda þarf því sérstaklega að horfa til samgöngutækja og að draga úr losun frá iðnaði.

Pistill úr ársskýrslu Umhverfisstofnunar 2013

Til baka
Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira