05.08.2014 13:54

Mannauðsmál


Árið 2013 einkenndist að miklu leyti af breytingum í kjölfar stefnumótunar og nýs skipurits, sem tók gildi frá 1. mars. Sviðum fækkaði um eitt og skipað var í hlutverk 12 teymisstjóra nýrra þverfaglegra teyma. 

Við árslok voru starfsmenn Umhverfisstofnunar 80, 45 konur og 35 karlar, í 77,1 stöðugildi. 59 starfsmenn höfðu starfsaðstöðu í Reykjavík, 10 á Akureyri og 11 á öðrum starfsstöðvum á landinu. 26 sumarstarfsmenn voru ráðnir til starfa, 24 landverðir (14 konur og 10 karlar), fimm starfsmenn (4 konur og 1 karl) voru ráðnir í sumarstörf, þar af fjórir skv. vinnumarkaðsúrræði ríkisstjórnarinnar og Vinnumálastofnunar. Tíu störf voru auglýst á árinu og var óskað eftir rökstuðningi vegna ráðningar í sjö þeirra. Starfsmannavelta var 11%.

Eitt af markmiðum varðandi símenntun starfsfólks er að allir starfsmenn sæki sér símenntun af einhverju tagi a.m.k. annað hvort ár. Á árunum 2012 og 2013 sóttu 83% starfsmanna sér símenntun í formi námskeiða. Á árinu 2013 sóttu starfsmenn símenntun í samtals 553 klukkustundir eða tæplega 7 stundir að meðaltali, sem er heldur lægri tala en 2012. Líkt og áður sóttu konur heldur meiri símenntun en karlar eða 8 stundir að meðaltali en karlar 6,91 stund. 

Starfsmannasamtöl voru haldin að venju á árinu. Vegna skipulagsbreytinga á árinu teygðist úr þeim fram eftir ári. Markmið ársins var að 90% samtala væri lokið 1. maí. Það markmið náðist ekki en á þeim tíma höfðu 66% starfsmanna farið í samtöl.

Veikindi á árinu voru að meðaltali 7,41 dagur á mann en miðgildið var 5,6 dagar. Veikindi kvenna eru heldur meiri en karla en þær voru veikar að meðaltali í 8,84 daga á árinu en karlar 5,58 daga. 

Tveimur verkefnum á ársáætlun, tengdum starfsmannamálum, var lokið. Annars vegar var útbúið yfirlit yfir núverandi þekkingu starfsfólks, þ.e. hvaða prófgráðum fólk hefur lokið og eru þær upplýsingar tengdar við yfirlit yfir starfsfólk á ytri vef stofnunar. Hins vegar var tekin saman fræðsla fyrir starfsfólk um vistvænar áherslur í daglegum störfum. Var hún tvískipt, þ.e. fyrir heilsársstarfsfólk og landverði. Allt nýtt starfsfólk fær upplýsingarnar við upphaf starfs. 

Til umbótaverkefna á árinu má telja að útbúið var 270° mat við val á teymisstjórum hjá stofnuninni, og unnið að grunni fyrir starfsgreiningu auk þess sem ÍSTARFflokkun starfa var gerð í samvinnu við Hagstofu Íslands.

Pistill úr ársskýrslu Umhverfisstofnunar 2013

Til baka
Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira