05.08.2014 13:16

Sjálfbær nýting auðlinda

Sorphrúga - myndin tengist ekki efni fréttarinnar


Sorphrúga - myndin tengist ekki efni fréttarinnar
Umhverfisstofnun vill stuðla að sjálfbærri og skilvirkri nýtingu auðlinda. Markmið með veiðistjórnun er að veiðar séu sjálfbærar þannig að komandi kynslóðir geti notið þessara gæða í framtíðinni. Hvað lítur að veiðistjórnun á rjúpu hefur fyrst og fremst verið lögð áhersla á þrjár leiðir, þ.e. fækkun sóknardaga, sölubann á rjúpu og rjúpuafurðum og biðlað hefur verið til veiðimanna að sýna hófsemi. Á árinu var fyrirkomulag rjúpnaveiða ákveðið til ársins 2015, 12 veiðidagar á ári, og er nú meiri fyrirsjáanleiki varðandi veiðarnar, komi ekkert óvænt í ljós í árlegri mælingu og rannsóknum á rjúpnastofninum.

Stofnunin sér um stjórn hreindýraveiða og var kvóti ársins 1229 dýr (623 kýr og 626 tarfar). Alls bárust 3610 umsóknir og var dregið úr innsendum umsóknum. Felld voru 1191 dýr, 600 tarfar og 591 kýr en erfiðlega gekk að koma út innskiluðum veiðileyfum undir lok tímabilsins. Framkvæmd kröfu frá árinu 2012 um að hreindýraveiðimenn standist skotpróf, áður en þeir fara til hreindýraveiða, gekk betur á árinu og var fallhlutfall á skotprófi 20% í stað 30% árið 2012. Einnig tóku veiðimenn betur við sér og fóru fyrr í prófið og voru því betur undirbúnir. Á árinu voru heimilaðar nóvemberveiðar á kúm á svæðum átta og níu. Allar kýr á svæði níu vour veiddar í nóvember en 22 á svæði átta.

Á árinu var haldin ráðstefna um rannsóknir og veiðistjórnun með aðkomu stofnunarinnar, þar sem megintilgangur var að skilgreina hugakið: stjórnun dýrastofna. Ráðstefnan var ætluð bæði lærðum og leikmönnum.

Á árinu gaf umhverfis- og auðlindaráðuneytið út Landsáætlun um úrgang 2013- 2024. Í henni koma m.a. fram markmið varðandi aukna endurnýtingu og flokkun. Ein leið að þeim markmiðum er að umbúðir neytendavara séu rétt merktar og gerði stofnunin könnun á árinu um merkingar plastumbúða, en allar plastumbúðir eiga að bera merki sem tilgreinir plasttegund sem er nauðsynlegt fyrir skilvirka flokkun. Könnunin náði til 108 vara í sex vöruflokkum og niðurstaðan var að 78% umbúða voru merktar, en jafnframt að erlendar vörur voru oftar merktar (94%) en þær íslensku (64%). Einnig gerði stofnunin könnun á vilja sveitarfélaga og rekstraraðila sem starfa í úrgangsgeiranum til að koma á samræmdri flokkun heimilisúrgangs á landsvísu. 70% svarenda lýstu yfir vilja til að koma á samræmdri flokkun af einhverju tagi, en 30% ekki.

Á árinu var reglum er varðar tollafgreiðslu raf- og rafeindatækjaúrgang breytt, og háð aðild að skilkerfi, þó skylduaðild að skilakerfi hafi verið á síðan 2009. Þetta er gert til að tryggja að ekki sé mögulegt að flytja inn raf- og rafeindatækja í atvinnuskyni nema fyrir liggi ábyrgð viðkomandi framleiðanda eða innflytjanda. Breytingin hefur óveruleg áhrif á innflutning eindaaðila. Í þessu sambandi stóð stofnunin m.a. fyrir kynningarfundi um breytt fyrirkomulag við tollafgreiðslu.

Þróun

Eitt af markmiðum stjórnvalda varðandi úrgang og meðhöndlun hans er að draga úr myndun úrgangs. Á árunum fram til 2008, jókst magn úrgangs, en samfara hruni íslenska efnahagskerfisins, dróst verulega úr myndun úrgangs frá árinu 2009. Frá árinu 2011 hefur þróunin aftur snúist við og lítilsháttar aukning orðið í myndun úrgangs hér á landi. Þekkt er áhrif hagvaxtar á aukningu úrgangs. Ein helsta áskorun hins vestræna heims er að aftengja samspilið þar á milli. Frá árinu 2005 hefur dregið nokkuð jafnt og þétt úr urðun úrgangs hér á landi, á sama tíma og endurnýting úrgangs hefur aukist. Það er jákvæð þróun og stuðlar að minni hráefnanotkun.

Í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um meðhöndlun úrgangs, sem liggur fyrir Alþingi og áætlað er að verði samþykkt á árinu 2014, er lagt til að umhverfis- og auðlindaráðherra gefi út almenna stefnu um úrgagnsforvarnir til tólf ára, byggða á tillögu Umhverfisstofnunar. Umhverfisstofnun skal við gerð tillögunnar hafa víðtækt samráð við hagsmunaaðila. Ljóst er að á næstu árum og áratugum verður aukin áhersla lögð á að dragar úr myndun úrgangs. Mikil gerjun á sér stað í þessum málaflokki og sem dæmi má nefna aukna umræðu undanförnum árum um að draga úr óþarflega mikilli notkun umbúða og búast má við löggjöf á næstu árum, sem lýtur að því að takmarka notkun á einnota plastpokum, til dæmis með banni við notkun þeirra, takmörkunum eða skattlagningu.

Pistill úr ársskýrslu Umhverfisstofnunar 2013

Til baka
Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira