05.08.2014 13:31

Verndun náttúru og líffræðilegrar fjölbreytni


Á árinu voru þrjú ný svæði friðlýst auk þess sem breytingar voru gerðar á friðlýsingu Teigarhorns. Um er að ræða tvo fossa í Mosfellsbæ, Tungufoss og Álafoss og hins vegar fólkvang í kringum náttúruvættið Teigarhorn. Í apríl undirritaði ráðherra friðlýsingu jarðarinnar Teigarhorns sem fólkvangs. Við sama tækifæri undirritaði ráðherra endurskoðaða friðlýsingu náttúruvættisins Teigarhorns. Fyrr á árinu festi íslenska ríkið kaup á jörðinni en staðurinn er einn þekkasti fundarstaður geislasteina í heiminum. Þann 7. maí staðfesti ráðherra friðlýsingar Álafoss og Tungufoss og nánasta umhverfi þeirra í Mosfellsbæ. Markmið með friðlýsingunum er að treysta útivistar- og fræðslugildi svæðanna enda eru þau fjölsótt bæði af bæjarbúum og öðrum gestum . Sveitarfélagið Mosfellsbær fer með umsjón umræddra svæða. 

Nýr starfsmaður var ráðinn til starfa á Suðurlandi, með starfsaðstöðu í stjórnsýsluhúsinu Miðjunni á Hellu. Helsta verkefni starfsmannsins er að sinna Friðlandi að Fjallabaki en einnig öðrum friðlýstum svæðum á Suðurlandi. Með ráðningu starfsmannsins er langþráðu takmarki náð með því að tryggja Friðlandi að Fjallabaki umsjón allt árið um kring. 

Í apríl endurmat Umhverfisstofnun svokallaðan rauða lista stofnunarinnar um friðlýst svæði sem eiga á hættu að missa verndargildi sitt vegna mikils ágangs ferðamanna. Þau svæði sem stofnunin metur í mikilli hættu eru: 

  • Friðland að Fjallabaki 
  • Geysir 
  • Helgustaðanáma 
  • Reykjanesfólkvangur 
  • Laugarás 
  • Verndarsvæði Mývatns og Laxár 

Þrjú svæði komu ný inn á listann sem stofnunin hefur nokkrar áhyggjur af (appelsínugul svæði) en þau eru Skútustaðagígar, Skógafoss og Háubakkar. Ljóst er að nauðsynlegt er að fara í töluverða uppbyggingu á innviðum umræddra svæða til að svæðin geti haldið áfram að standa undir þeim fjölda ferðamanna sem nú sækir þangað. 

Í maí uppgötvuðust skemmdarverk í Hverfjalli/Hverfelli. Hafði verið málað ofan í gíginn orðið „CRATER“ með olíumálningu. Sambærileg skemmdarverk höfðu verið unnin á nálægum svæðum við Mývatn. Málið var kært til lögreglu og er það enn til rannsóknar. Skemmdarverkin voru þó afmáð eins og hægt var. Á árinu var lokið við gerð verndaráætlunar fyrir Hverfjall/Hverfell. Var áætlunin unnin í samráði við landeigendur og sveitarfélag. 

Á árinu 2013 voru 50 ár liðin frá upphafi Surtseyjarelda. Af því tilefni var útbúinn skjöldur um skráningu svæðisins sem einstaks staðar náttúruminja í Heimsminjaskrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO). Var skjöldurinn afhjúpaður við hátíðlega athöfn þann 5. júní en þá voru liðin 46 ár frá því að Surtseyjareldum lauk. 

Sjálfboðaliðar á vegum Umhverfisstofnunar unnu sem fyrr við stígagerð og önnur störf tengd náttúruvernd á friðlýstum svæðum sumarið 2013 og eru störf þeirra orðin fyrir margt löngu nauðsynlegur hluti af uppbyggingu og viðhaldi innviða á verndarsvæðum.

Þróun

Eitt af hlutverkum Umhverfisstofnunar er að undirbúa friðlýsingu svæða. Flest svæði eru friðlýst annað hvort að beiðni sveitarfélaga eða landeigenda eða í samræmi við náttúruverndaráætlun. Náttúruverndaráætlun 2009-2013 rann sitt skeið í lok árs, en á árinu voru þrjú ný svæði friðlýst, þ.e. fólkvangurinn Teigarhorn og tveir fossar í Mosfellbæ, Álafoss og Tungufoss. Árið 2013 var einnig það síðasta sem unnið var að friðlýsingu samkvæmt náttúruverndaráætlun 2009-2013. Samkvæmt henni átti að vinna að friðlýsingu tólf svæða auk þeirra frá fyrri áætlun sem ekki var lokið við. Af þessum tólf tókst að ljúka friðlýsingu fimm svæða á tímabilinu. Fjöldi friðlýsinga var sá sami og á árinu 2012 en 2011 voru sex svæði friðlýst. Í dag eru fjöldi friðlýstra svæða komin í 109. Á árinu 2014 fyrirhugar Umhverfisstofnun friðlýsingu á einu svæði enda hefur verulega dregið úr framlagi ríkisins til málaflokksins. 

Fjöldi sumarstarfsmanna í landvörslu jókst mikið á milli ára og árið 2013 var metár í fjölda landvarða. Landvarslan er mæld í vikum en árið 2013 var fjöldi landvarðavikna 232 vikur sem var um 13% aukning milli áranna 2012 og 2013. Vegna niðurskurðar hjá Umhverfisstofnun fækkar landvarðavikum hjá stofnuninni á árinu 2014 niður í 167 vikur sem er sambærilegur fjöldi vikna og var árið 2011. Þó ber að hafa í huga að árið 2013 var ráðinn heilsársstarfsmaður til að sinna landvörslu á verndarsvæðum á Suðurlandi, en heilsársstarfsemenn eru ekki taldir með í fjölda landvarðavikna. 

Að mati Umhverfisstofnunar er mikilvægt að tryggja aukna heilsárslandvörslu enda er fjölgun ferðamanna allt árið um kring og tilkoma nýrra verndarsvæða eykur umsjónarskyldur Umhverfisstofnunar. Stofnunin telur að þrátt fyrir niðurskurð í málaflokknum á árinu 2014 hafi orðið töluverð framþróun á síðastliðnum árum. Fjölda svæða hefur verið friðlýst og aukið fjármagn hefur verið sett í landvörslu. Ljóst er að til að tryggja verndun og viðhald friðlýstra svæða þarf að koma til meira fjármagn til friðlýsinga og umsjónar náttúruverndarsvæða.

Pistill úr ársskýrslu Umhverfisstofnunar 2013

Til baka
Mynd sem fylgir - Rauði listinn

Rauði listinn

Veita þarf ákveðnum friðlýstum svæðum á Íslandi sérstaka athygli og aðhlynningu.
Meira