Umhverfistofnun - Logo

Skotvopnanámskeið

Umhverfisstofnun annast framkvæmd skotvopnanámskeiða og prófa samkvæmt samningi við Ríkislögreglustjóra. Hafa skal í huga að enginn má eignast eða nota skotvopn nema að fengnu skotvopnaleyfi. Jafnframt má enginn fara á veiðar nema hafa gilt skotvopnaleyfi og hafa meðferðis gilt veiðikort.

Neðst á þessari síðu er hlekkur inn á umsóknir um námskeiðið
 Skilyrði fyrir veitingu skotvopnaleyfis eru:

 1. Að hafa náð 20 ára aldri og hafa ekki verið sviptur sjálfræði.
 2. Að hafa ekki gerst brotlegur við ákvæði almennra hegningarlaga, áfengislaga, laga um ávana- og fíkniefni, vopnalaga eða laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.
 3. Að hafa nægilega kunnáttu til þess að fara með skotvopn, vera andlega heilbrigður og vera að öðru leyti hæfur til þess að fara með og eiga skotvopn.

Ef lögreglustjóri telur, eftir að hafa kannað umsókn og fylgigögn og önnur þau atriði sem hann telur nauðsynleg, að til greina komi að veita umbeðið leyfi skal umsækjandi sækja námskeið í notkun og meðferð skotvopna og standast próf að námskeiði loknu. Ef upp koma vafamál er tengast skilyrðum eða fylgigögnum þarf viðkomandi að hafa samband við lögregluna.

Það sem þarf að gera minnst tveimur vikum fyrir auglýst námskeið:

 1. Skrá sig á ákveðið námskeið. Sjá link hér fyrir neðan.
 2. Millifæra námskeiðsgjöldin strax við skráningu. Sjá nánar undir „Námskeiðsgjöld“.
 3. Sækja um læknisvottorð.
 4. Sækja um sakavottorð til viðkomandi sýslumanns.
 5. Skila gögnum inn til lögreglu þar sem lögheimilið er. Íbúar á höfuðborgarsvæðinu eiga að skila gögnum inn til Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, Krókhálsi 5B. II hæð, 110 Reykjavík. Muna eftir eyðublaðinu með undirskrift tveggja meðmælenda. Þeir þurfa ekki endilega að hafa sjálfir skotvopnaleyfi, en þurfa að vera orðnir tvítugir. Lögreglunemum ber að skila inn þessu eyðublaði. Ef viðkomandi umsækjenda er hafnað af lögreglu er hægt að óska eftir endurgreiðslu á námskeiðsgjöldum.
 6. (Lesa bókina Veiðar á villtum fuglum og spendýrum e. Einar Guðmann fyrir veiðikortanámskeiðið)
 7. Lesa Skotvopnabókina e. Einar Guðmann fyrir skotvopnanámskeiðið.
 8. Hvatt er til þess að taka æfingatíma á viðurkenndum skotvelli með leiðsögn frá aðila viðkomandi skotfélags.
 9. Standast próf að námskeiði loknu.

Verði skráningar á námskeið fleiri en sætafjöldi ganga þeir fyrir sem ganga fyrstir frá greiðslu námskeiðsgjalda og skila gögnum til lögreglu. 

Námskeiðsgjöld:
 Millifæra þarf námskeiðsgjöld á reikning Umhverfisstofnunar við skráningu á námskeið

Reikningsupplýsingar: 0565-26-3838, kt. 701002-2880.
 Fyrir veiðikortanámskeið:    14.900 kr    
 Fyrir skotvopnanámskeið:    27.000 kr
 Fyrir bæði námskeiðin:         41.900 kr

Ef greiðandi er annar en sá sem er að fara á námskeiðið þarf að senda kvittun á veidistjorn@ust.is og setja kennitölu þess sem er að fara á námskeið í skýringu. Ekki þarf að senda kvittun ef millifært er af reikningi þess sem er að fara á námskeiðið.

 Sé námskeiðsgjald ekki greitt minnst viku áður en námskeið hefst er ekki hægt að tryggja að umsækjandi fái aðgang að námskeiðinu. Aðgangur að skotvopnanámskeiðum er ennfremur háður samþykki lögreglu innan sama tímaramma.
 
Fyrirkomulag skotvopnanámskeiða

 Umhverfisstofnun heldur skotvopnanámskeið sem að jafnaði standa yfir 3 daga. Bókleg kennsla fer fram fyrstu tvo dagana en verkleg þjálfun haldin á þriðja degi.

Fyrsti dagur: 

 • Skotvopn og skotfæri 
 • Öryggi og meðhöndlun
 • Skotfimi og eiginleikar skotfæra 

Annar dagur: 

 • Vopnalöggjöfin 
 • Landréttur
 • Próf 
 •  

Þriðji dagur:

 • Verkleg undirstöðuþjálfun á skotsvæði. Nánari upplýsingar um framkvæmd verklegrar þjálfunar verða veittar á námskeiðinu, en að jafnaði fer verkleg þjálfun fram í framhaldi af bóklega hlutanum eða daginn eftir. Framkvæmd verklega hlutans er á ábyrgið tilgreinds skotfélags.

Verkleg þjálfun
 Umhverfisstofnun á samstarf við skotfélög á landinu um framkvæmd verklega hluta skotvopnanámskeiðanna. Í verklega hlutanum fellst kennsla í undirstöðuatriðum þess að meðhöndla skotvopn og notkun þeirra fer fram á viðurkenndu skotsvæði og skiptist niður í eftirfarandi:

 1. Umgengnisreglur um skotsvæði
 2. Örugg meðferð skotvopna á skotsvæði
 3. Leiðbeiningar við að skjóta 25 skotum með haglabyssu á leirdúfuvelli
 4. Leiðbeiningar við að skjóta a.m.k. 10 skotum af 22 LR kalibera riffli á riffilvelli
 5. Leiðbeiningar við að skjóta a.m.k. 5 skotum af riffli sem er stærra kaliber en 22 LR

Áður en námskeið hefst er ráðlegt fyrir þá sem aldrei hafa umgengist skotvelli eða skotvopn að leita til skotfélaga og fá kynningu eða leiðsögn.
ATH. Mjög mismunandi er hvort þessi þjónusta er í boði hjá skotfélögum. Leitið því upplýsinga áður en haldið er á völlinn.

Próf er tekið í lok fyrirlestra bóklega hlutans. Fullnægjandi árangur á prófinu er 75% rétt svör. Mælt er með að nemendur lesi ,,Skotvopnabókina“ áður en námskeiðið hefst. Bókin fæst í bókabúðum.

Sjá lista yfir næstu námskeið hér.

Smelltu hér  til að komast inn á umsóknarvefinn fyrir námskeiðið