Góð ráð um efnavörur

Ert þú í góðu sambandi við birginn þinn? Geturðu tryggt að vörunar þína uppfylli skilyrði laga og reglugerða? Hvernig ferðu að því að setja þig inn í gildandi reglur varðandi efni og efnablöndur?

Á hverju ári rekst Umhverfisstofnun í eftirliti sínu á efnavörur sem ekki standast kröfur laga og reglugerða. Algengt er merkingar séu ekki í lagi, innihaldslýsing vörunnar sé ófullnægjandi eða varan hreinlega ólögleg á markaði.

Reynslan sýnir meginástæða fyrir því að ólöglegar efnavörur fara á markað er skortur á þekkingu á gildandi reglum eða þeim leiðum, sem hægt er að nýta sér til þess að geta sjálfur fylgst með því hvor vörurnar sem um ræðir uppfylli kröfurnar.

Það er mikil áskorun fyrir þá sem reka lítil fyritæki að viðhalda þekkingu sinni á þeim reglum sem gilda um efni og efnablöndur. Með því að fylgja ráðunum hér að neðan geturðu auðveldað þér það og jafnvel komið auga á leiðir til að koma þér upp einföldu innra eftirliti.

Kynntu þér lög og reglur

Efnalöggjöfin er mikil að vöxtum og nauðsynlegt að kynna sér hana vel. Hvað segir í lögum og reglum um þær vörur sem þú setur á markað og berð ábyrgð á? Þú getur fundið upplýsingar um helstu lög og reglur um efni hér.

Gerðu kröfur til birgis

Gættu að því að vörurnar sem þú kaupir uppfylli skilyrði í lögum og reglum. Það felur til dæmis í sér:

  • Að í samningi við birgi komi fram að vörur frá honum skuli ætíð standast kröfur laga og reglna,
  • Að birgir staðfesti með fyrirliggjandi gögnum, m.a. efnagreiningarniðurstöðum, að vörur uppfylli skilyrði,
  • Að upplýsingar um lotu- eða raðnúmer vöru liggi fyrir svo hægt sé að rekja uppruna hennar,
  • Að alltaf sé hægt að hafa samband við birgi með skömmum fyrirvara.

Gakktu úr skugga um að merkingar séu í lagi

Reglur um merkingar á efnum og efnablöndum eru mismunandi eftir því um hvers konar vörur er að ræða. Sumar þurfa að vera með hættumerki, fyrir aðrar þarf að gefa upp innihaldslýsingu o.s.fr.  Farðu í gegnum eftirfarandi atriði:

  • Kynntu þér reglur um flokkun og merkingar  til að sjá hvernig varan á að vera merkt,
  • Fáðu upplýsingar frá birginum um efnainnihald svo að þú getir gengið úr skugga um það hvort varan flokkist sem hættuleg og eigi að bera hættumerki,
  • Ef varan á að bera hættumerki skal það koma fram á merkmiða, sem er límdur  eða prentaður á umbúðirnar og fylgir reglum um uppsetningu, stærð, liti o.fl.,
  • Merkimiðinn á að vera á íslensku og auk hættumerkisins eiga þar að koma fram ýmsar skyldubundnar upplýsingar um vöruna s.s. vörukenni, innihaldslýsing, hættu- og varnaðarsetningar og hvaða aðili setur hana markað.

Ekki taka áhættu

Ef ólöglegt efni finnst í vöru bera bæði birgirinn og þú sem setur vöruna á markað ábyrgð á skaða sem það getur valdið viðskiptavinum eða umhverfinu.  Af þeim sökum er mikilvægt að tryggja að ætíð séu fyrir hendi fullnægjandi upplýsingar um efnainnihald vöru. Ef grunur vaknar um að vara innihaldi ólögleg efni ætti strax að ganga úr skugga um það með efnagreiningu.

Leitaðu þér upplýsinga og ráðgjafar

Í dag gefast fjölmörg tækifæri til að leita sér upplýsinga ef maður þarf á þeim að halda. Hér að neðan eru nokkrir gagnlegir tenglar sem hægt er að nýta í því skyni.

Hafirðu frekari spurningar varðandi markaðssetningu á efnum og efnablöndum er þér velkomið að leita til sérfræðinga Umhverfisstofnunar. Hafðu samband í síma 591 2000 eða sendu tölvuskeyti á ust@ust.is .