Goðdalur í Bjarnarfirði

Mynd: Ásrún Elmarsdóttir

Kynningarfundur

Kynningarfundur um tillögu að framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár fyrir landeigendur í Goðdal fór fram þann 4. janúar 2024. Fundurinn var stafrænn.

Horfa á upptöku frá fundinum

Skoða glærur frá fundinum

Um svæðið

Sveitarfélag: Kaldrananeshreppur.

Möguleg stærð: 0.23 km2

Svæðið liggur í afskekktum dal inn af Bjarnarfirði og rennur Goðdalsá eftir dalnum. Mýrlent er og flatlendi með aflíðandi hlíðum. Jarðhitalækir seytla um grýttar hlíðar og um flata upp af Goðdalsá. Mýrahveravist einkennir jarðhitagróðurinn en þar sem er þurrara er móahveravist einkennandi vistgerð.

Þar sem jarðhitinn er vex æðplöntutegundin naðurtunga, sem einungis þrífst við jarðhita hér á landi, auk þess sem laugadepla, sem er válistategund í nokkurri hættu, hefur fundist í heitum uppsprettum. Naðurtunga, er válistategund í nokkurri hættu. Naðurtunga og laugadepla eru friðaðar skv. auglýsingu nr. 1385/2021.

Staðreyndarsíða Náttúrufræðistofnunar Íslands um Goðdal

Tillaga að svæði á framkvæmdaáætlun

Mögulegar verndarráðstafanir

 1.   Vegna líffræðilegs fjölbreytileika og sérstöðu svæðisins er möguleg friðlýsing svæðisins sem náttúruvættis skv. 48. gr. náttúrverndarlaga eða friðlands skv. 49. gr. sömu laga.

Með friðlýsingu svæðisins sem náttúruvætti er verið að vernda lífræn fyrirbæri sem eru einstök og skera sig úr umhverfinu. Friðlýsingin skal jafnframt ná til svæðis kringum náttúrumyndanirnar svo sem nauðsynlegt er til þess að þær fái notið sín.

Með friðlýsingu sem friðlands er áhersla á vernd lífríkis og tegund lífvera sem eru sjaldgæfar eða í hættu samkvæmt útgefnum válistum eða til að vernda lífríki sem er sérstaklega fjölbreytt eða sérstætt. Í auglýsingum um friðlýsingu, sem eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda, er m.a. kveðið á um markmið friðlýsingar, umsjón, umferð og umgengni, tilhögun verndar, landnotkun og mannvirkjagerð ofl.

2.  Önnur verndarráðstöfun fyrir svæðið er friðun vistgerðanna skv. 56. gr. náttúruverndarlaga.

Friðun vistgerða felur m.a. í sér sérstaka aðgæsluskyldu, forðast rask, framkvæmdaleyfisskyldu og mótvægisaðgerðir vegna mögulegs rasks. Í auglýsingu um friðun, sem er birt í B-deild Stjórnartíðinda, er kveðið á um umfang friðunar og þær takmarkanir sem af henni leiðir. Sambærileg friðun er til fyrir æðplöntur, mosa og fléttur frá árinu 2021.

Mögulegar takmarkanir/innviðir

Þar sem svæðið er mjög viðkvæmt en flokkast ekki sem ferðamannastaður gæti þurft að setja hóflega stýringu um svæðið s.s. með fræðsluskilti til að fyrirbyggja traðk. Svæðið fellur undir ákvæði 61. gr. náttúruverndarlaga um sérstaka vernd vistkerfa og jarðminja en undir hana falla hverir og aðrar heitar uppsprettur ásamt lífríki sem tengist þeim og virkri ummyndun og útfellingum, þar á meðal hrúðri og hrúðurbreiðum.

Tilnefnt af Náttúrufræðistofnun Íslands vegna:

  • Móahveravistar
  • Mýrahveravistar
  • Jarðhitalækja

Móahveravist

Verndarstaða: Ekki ákjósanleg – ófullnægjandi

Verndargildi vistgerðar: Mjög hátt. Vistgerðin er á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar

Heit og þurr jörð, einkum á hæðum og bungum við gufu- og leirhveri. Þar sem gufu leggur yfir ber hún með sér raka sem getur skapað skilyrði fyrir rakakærar tegundir. Mikilla hitaáhrifa gætir í jarðvegi og þar sem þau eru mest eru mosar ráðandi í þekju. Gróðurþekja er þar yfirleitt sundurslitin og ljósleit leirflög áberandi. Við lægri hita er þekja gróðurs samfelldari og hlutdeild æðplantna meiri. 

Fjöldi tegunda er allmikill í vistgerðinni. Blóðberg er ríkjandi og mjög einkennandi. Jarðvegur er oft ummyndaður næst hverum og þar sem jarðvegshiti er hæstur. Raki í jarðvegi er lítill og undirlag getur verið gropin hraun, skriður eða vikur.

Upplýsingar um móahveravist á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands 

Mýrahveravist

Verndarstaða: Ekki ákjósanleg – ófullnægjandi

Verndargildi vistgerðar: Mjög hátt

Gróskumikið deig- og mýrlendi við heitar uppsprettur, volgrur, laugar og vatnshveri. Þurrari bletti er einnig að finna inn á milli. Land er flatt eða lítið eitt hallandi. Tegundasamsetning getur verið nokkuð breytileg. Æðplöntur eru mest áberandi í þekju en mosar þar sem jarðvegshiti er einna hæstur. 

Fjöldi tegunda er allmikill í vistgerðinni. Jarðvegur er oftast lífrænn og þykkur en áfoksjarðvegur finnst einnig. Ummyndun jarðvegs vegna hita er víða sýnileg. Á vetrum eru þar að finna urtönd, stokkönd, hrossagauk og músarrindil.

Upplýsingar um mýrahveravist á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands

Jarðhitalækir

Verndarstaða: Ekki ákjósanleg – slæm – hætta á eyðingu

Verndagildi vistgerðar: Hátt

Heitir og volgir lækir á jarðhitasvæðum, annars vegar náttúrulegt afrennsli háhitasvæða og hins vegar afrennsli hvera, lauga og volgra á lághitasvæðum. Vatnshiti og rafleiðni er hærri en í köldum lækjum á Íslandi. Iðustreymi er ríkjandi. Vatnagróður er lítt þekktur á landsvísu.

Æðplöntur eru engar næst uppsprettunum þar sem vatn er heitast, en í heitum lækjum hefur fundist fergin, laugabrúða, smánykra, ármosi og kransþörungar. Þörungagróður er aftur á móti mikill og mynda grænþörungar, kísilþörungar og blágrænubakteríur slýdræsur eða skánir á botni og við bakka. Botngerðin er fjölbreytt, grýttur botn, sandur og leir. Botn lækja, einkum á háhitasvæðum, getur verið þakinn kísilútfellingum.

Sums staðar er töluvert fuglalíf á láglendi, einkum að vetrum s.s. hrossagaukur, stokkönd, urtönd og keldusvín áður fyrr.

Upplýsingar um jarðhitalæki á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands