Stök frétt

Föstudaginn 19. ágúst verður formlega tekinn í notkun nýr stigi upp úr Tófugjá í Ásbyrgi. Þessi framkvæmd bætir aðstöðu allra náttúruunnenda, innlendra sem erlendra, á vinsælli gönguleið milli Vesturdals og Ásbyrgis. Áður voru margir sem treystu sér ekki til að fara um Tófugjá og þurftu að fara um lengri veg í Ásbyrgi.

Umhverfisstofnun vill koma á framfæri þökkum til Pokasjóðs fyrir þeirra framlag en Þjóðgarðurinn Jökulsárgljúfrum hlaut 1,1 m kr. styrk til byggingar og uppsetningar stigans.

Á sama tíma verður opnuð ný og gjörbreytt snyrtiaðstaða fyrir ferðamenn við Dettifoss að austan. Um er að ræða vatnssalerni sem kemur í stað þurrsalernis sem hefur staðið ferðamönnum til boða í nokkur ár. Hér er um verulega framkvæmd að ræða þar sem bora þurfti sérstaklega fyrir vatni til að geta boðið gestum þjóðgarðsins upp á viðunandi hreinlætisaðstöðu á þessum vinsæla ferðamannastað.

Umhverfisstofnun vill koma á framfæri þökkum til ÁTVR fyrir þeirra framlag, en ÁTVR styrkti nýja snyrtiaðstöðu í gegnum Pokasjóð að upphæð 4,0 m kr.

Einnig vill Umhverfisstofnun koma á framfæri þökkum til Ferðamálaráðs Íslands fyrir þeirra framlag að upphæð 3,0 m kr.

Dagskrá vegna ofangreinds er eftirfarandi:

Kl. 10:30        Formleg opnun snyrtiaðstöðu við Dettifoss – Höskuldur Jónsson forstjóri ÁTVR.

Kl. 13:30        Gönguferð frá Vesturdal í Ásbyrgi og farið niður stigann í Tófugjá.

 

Umhverfisstofnun vill þakka Höskuldi Jónssyni fráfarandi forstjóra ÁTVR sérstaklega samstarfið á liðnum árum. Höskuldur hefur af mikilli elju beitt sér fyrir því að fjármunir hafa fengist til að bæta aðstöðu í þjóðgörðum og á friðlýstum svæðum og aðgengi almennings að þessum náttúruperlum.