Dynjandi í Arnarfirði

Af hverju friðlýsing?

Dynjandi og aðrir fossar í Dynjandisá ásamt umhverfi þeirra var friðlýst sem náttúruvætti árið 1981. Markmið friðlýsingarinnar er að vernda fossastigann í ánni sem hefur orðið til vegna lagskiptingar bergsins í hraunlög og lausari millilög. Einnig að auðvelda almenningi umgengni og kynni af náttúru svæðisins.

Tengt efni

Staðsetning

Dynjandi er í botni Arnarfjarðar innan landamerkja Ísafjarðabæjar.  Mörk Náttúruvættisins eru frá odda Meðalness upp í fjallseggjar og með fjallsbrúnum umhverfis voginn og Dynjandisdal allt að mörkum jarðarinnar Dynjanda í Urðarhlíð og með þeim til sjávar.
Stærð náttúruvættisins er 644,9 ha.

Hvað er áhugavert?

Náttúruminjar

Jarðfræði

Vestfjarðakjálkinn varð til í mörgum hraungosum á tertíertíma (fyrir um 14 – 16 milljónum ára). Goslög af blágrýti og hraungjalli hlóðust hvert ofan á annað og mynduðu hásléttu. Ísöld lauk fyrir um 10.000 árum og hafði framskrið jökulsins þá grópað djúpa firði í hásléttuna og sorfið niður mishörð millilögin. Eftir stóðu hörð blágrýtislög sem bera uppi fossastiga Dynjanda. Hálendi Glámu og Dynjandisheiðar var hulið jökli þar til fyrir rúmlega 100 árum og þaðan fellur nú vatn úr Eyjavatni til sjávar um Dynjandisá. 

Fossar

Dynjandi og Hæstahjallafoss.Óvíða er vatnanriður meiri en við Dynjanda. Berast drunurnar langar leiðir og ber fossinn nafn með rentu. Einnig hefur fossinn verið kallaður Fjallfoss sem er rangnefni. Í sóknarlýsingu Rafnseyrarkirkjusóknar 1839 er sagt að bærinn Dynjandi taki „nafn af stórum fjallfossi árinnar, sem rennur hjá bænum“. Er þá eflaust átt við að hann steypist ofan af fjallsbrún. Sérstaða Dynjanda er hversu formfagur fossinn er þar sem hann fellur fram af fjallsbrún eftir hörðu blágrýtislagi, 99 m hár, efstur um 30 m breiður en 60 m neðst. Áin liðast svo áfram niður 7 fossa sem eru hverjum öðrum fegurri og endar í sjó í Dynjandisvog. Neðan við Dynjanda eru; Hæstahjallafoss (Úðafoss), Strompugljúfrafoss (Strompur), Göngumannafoss, Hrísvaðsfoss, Kvíslarfoss, en neðstir eru Hundafoss og Bæjarfoss (Sjóvarfoss).

Gróður

Gróðurfar á svæðinu einkennist af lyngbrekkum og graslendi. Mest af flatlendinu er gamalt tún og graslendi, en brekkurnar grónar grasi og lyngi neðst en mosa og lyngi ofar í bland við fjalldrapa (Betula nana) og birki (Betula pubescens). Austan árina er birki mest áberandi og Reyniviður (Sorbus aucuparia) stendur upp úr kjarrinu á stöku stað. Á svæðinu finnast einnig sjaldgæfar tegundir á landsvísu eins og sóldögg (Drosera rotundifolia) og þríhyrnuburkni (Phegopteris connectilis). 

Dýralíf

Fjölbreytt fuglalíf er í Dynjandisvogi, en skráðar hafa verið 35 tegundir fugla. Mestur fjöldi er á vorin þegar farfulgar koma til landsins og síðsumars þegar þeir hópa sig saman áður en lagt er í langferð á vetrarstöðvar. Algengur fargestur vor og haust er rauðbrystingur (Calidris canutus) , en hann hefur vetursetu í Vestur- Evrópu og verpir á Grænlandi og í Kanada. Algengt er að sjá straumönd (Histrionicus histrionicus) við ósinn á Dynjandisá og þegar líða tekur á sumarið sést hún á sundi upp með ánni. Landselir (Phoca vitulina) sjást oft baða sig í sólinni við ós Svínár á útfiri. Landselur er einnig stundum kallaður vorselur, en það er vegna þess að urtan kæpir á vorin.

Menningaminjar

Jörðin Dynjandi er í botni Dynjandisvogar í Arnarfirði. Fyrstu heimildir um Dynjanda eru frá miðöldum en á 15. 16. og 17. öld er jörðin mest í eigu ríkismanna sem búsettir voru utan Arnarfjarðar. Dynjandi var að fornu mati 18 hundraða jörð og árið 1847 er jörðin enn 18 hundruð og þá með talin eyðijörðin Búðavík. Búðavík var hjáleiga frá Dynjanda og er talið að hún hafi verið farin í eyði fyrir 1650. Á jörðinni var gott beitarland sumar sem vetur og var skógurinn notaður til beitar, hrís- og eldiviðartöku ásamt kolabrennslu. Á fimmtándu öld var jörðin í eigu Guðmundar Arasonar hins ríka á Reykhólum er átti 140 jarðir á Vestfjörðum. 

Bærinn Dynjandi stóð á miðju svokölluðu Bæjarhól. Dý var fyrir neðan hólinn, nefnt Skolladý, sennilega til að hræða börn frá því. Víða í hlíðinni voru útihús sem sjást ummerki um. 

Skriða féll oft á beitarlönd fjárins og eins gat Dynjandisá flætt yfir bakka sína og skemmt engjar og tún. Bændur á Dynjanda hlóðu því flóðvarnagarða og má sjá leifar hans á árbakkanum. 

Á hjallanum ofan við bæinn er hlaðin, þríhyrnd laug. Þorvaldur Thoroddsen mældi hitann í lauginni 26. júlí 1887 og mældist hann þá 26,5°C. Hinn 12. ágúst 1996 reyndist hitinn í lauginni vera 23,5°C. Ekki er vitað hvernig laugin var notuð en sumir segja að þar hafi þvottur verið þveginn og jafnvel að heimilisfólk hafi baðað sig í henni. 

 Kunnastur þeirra sem bjuggu á Dynjanda er Símon Sigurðsson er kom hingað norðan úr Eyjafirði í byrjun 19. aldar. Hann var mikill sjósóknari og þótti afburða skutlari við veiðar á sel og hvölum. Sagt var að Símon hefði eitt sinn verið staddur við messugjörð á Hrafnseyri. Stóð hann á hlaðinu við gamla bæinn og sá hvar maður gekk með háan kollhatt fyrir neðan kirkjugarðinn. Greip Símon þá að gamni sínu broddstaf sem þar var og skutlaði. Tók stafurinn hattinn af höfði mannsins, án þess að saka hann. Vegalengdin var 25-30 metrar. Á fyrrihluta 19. aldar sigldi Símon skipum til Danmerkur um nokkur ár og var brautryðjandi í þeim efnum. 

Markús Bjarnason frá Baulhúsum, fyrsti skólastjóri Stýrimannaskólans í Reykjavík, var sonarsonur Símonar, en margir afkomendur hans urðu afburða sjómenn og nafnkenndir skipstjórar. 

Jörðin Dynjandi var í ábúð til ársins 1951. Þá féll föst búseta niður og síðustu ábúendur Guðmundur Jóhannsson og Guðrún Sigríður Guðjónsdóttir fluttu til Bíldudals, en nytjuðu jörðina þaðan fram á sjöunda áratuginn.

Aðgengi

Náttúruvættið er í Arnarfirði við þjóðveg 60 um 30 km norðan friðlandsins í Vatnsfirði. Við Dynjanda er bílastæði, áningasvæði og salernisaðstaða. Göngustígur liggur frá bílastæði, meðfram Dynjandisá að fossinum Dynjanda og tekur gangan um 15 mínútur.

Jarðvegur er grunnur og laus í sér sem gerir það að verkum að gróðurinn er mjög viðkvæmur fyrir traðki. Öllum er heimil för um svæðið enda sé gengið á merktum gönguleiðum, gróðri hlíft og góðrar umgengni gætt.

Svæði í hættu

Svæðið er á appelsínugula listanum

Auglýsing nr. 348/1986 í Stjórnartíðindum B.

Styrkleikar

Svæðið dregur að sér mikið af ferðamönnum enda stærsti og tilkomumesti foss Vestfjarða. Sérfræðingur Umhverfisstofnunar á Patreksfirði fer með umsjón svæðisins. Auk þess er landvörður starfandi á sunnanverðum Vestfjörðum yfir sumartímann sem fer með eftirlit svæðisins. Sjálfboðaliðar Umhverfisstofnunar hafa unnið við göngustígagerð við Dynjanda öll sumur frá 2011 og að auki voru verktakar fengnir til þess verks. Bætt hefur verið við steintröppum, lögð ræsi og stígar breikkaðir á köflum. Einnig hefur villustígum verið lokað. Ferðamönnum er því mun betur stýrt um svæðið en áður var. Gróðurheimt hefur verið í gangi undanfarin sumur og farið er að bera á árangri og gróður farinn að taka við sér. Búið er að endurnýja upplýsinga- og fræðsluskilti og bæta við tveimur skiltum. Deiliskipulag fyrir svæðið var samþykkt 2014 og stjórnunar- og verndaráætlun undirrituð í júní 2015. Farið verður í umtalsverða innviðauppbyggingu sumarið 2016 þar sem m.a. verða stækkuð bílastæði og stæði fyrir rútur, settir upp útsýnispalla og uppbygging og viðhald á göngustígum. Sótt hefur verið um styrk til byggingar nýs salernishúss.

Veikleikar

Innviðir hafa verið styrktir en gríðaleg aukning gesta á svæðinu sl. tvö ár kallar á meiri stýringu og uppbyggingu innviða. Ágætis stýring hefur náðst á för fólks um svæðið, en lokun villustíga á einum stað hefur haft áhrif annarsstaðar þar sem nýjir villustígar hafa myndast. Bílastæði við Dynjanda bera ekki lengur þann fjölda ferðamana sem koma á svæðið yfir sumartímann. Vatnssalerni, sem eru í eigu og umsjón Ísafjarðarbæjar, anna ekki lengur þeim fjölda fólks sem nýta sér þau yfir sumarmánuðina. Landvarsla er ekki nægjanleg á svæðinu.

Ógnir 

  • Gróður á svæðinu er viðkvæmur
  •  Mikil aukning á fjölda ferðamanna
  •  Nýjir villustígar hafa myndast
  •  Göngustígar eru á köflum í slæmu ásigkomulagi

Tækifæri

  • Áframhaldandi viðhald og uppbygging innviða
  • Aukin stýring með frekari lokunum á villustígum
  • Aukin landvarsla
  • Endurnýjun friðlýsingarskilmála

Ljósmynd af Dynjanda úr fjarska