Skógafoss

Um friðlýsinguna

Skógafoss var friðlýstur sem náttúruvætti árið 1987. Svipmikill 60 m hár foss, sá neðsti í fagurri fossaröð Skógaár. Í helli bakvið fossinn er skv. þjóðsögunni að finna gullkistu landnámsmannsins Þrasa frá Skógum.

Stærð náttúrvættisins er 165,2 ha.

Svæði í hættu

Svæðið er á rauða listanum

Auglýsing nr. 477/1987 í Stjórnartíðindum B.

Styrkleikar

Skógafoss er svipmikill 60 metra hár foss. Fossinn, ásamt fossaröð í Skógaá, var friðlýstur árið 1987. Svæðið er fjölsóttur ferðamannastaður enda er Skógafoss í alfaraleið. Töluvert hefur verið lagt í að bæta innviði svæðisins, t.d. með gerð útsýnispalls og stiga upp að fossinum.

Veikleikar

Svæðið er fjölsóttur ferðamannastaður og er aðgengi að Skógafossi mjög gott allan ársins hring. Það gerir það að verkum að svæðið er undir miklu álagi. Sér í lagi eru grasi vaxnar brekkur og árbakkar viðkvæmir fyrir traðki gesta. 

Nokkrir villustígar hafa myndast við Skógafoss og meðfram Skógá og hefur nokkrum þeirra verið lokað en talsverð vinna er eftir enn. Nýtt deiliskipulag hefur verið staðfest. Unnið hefur verið að úrbótum á stígum.

Ógnir

  • Ágangur ferðamanna og mikil ásókn. 
  • Stýringu skortir við aðkomu að svæðinu.
  • Gera þarf úrbætur á bílastæði.
  • Talsvert er um að rusli sé hent á svæðinu. 

Tækifæri 

  • Gerð verndaráætlunar. 
  • Áframhaldandi vinna við að loka gönguleiðum og græða upp rof. 
  • Stika eina gönguleið meðfram Skógaá. 
  • Gönguleið upp að fossbrún í einni skýrri braut. 
  • Endurnýja má upplýsingaskilti. 
  • Tryggja með hindrunum að ekki sé ekið utan vega við bílastæðið.