Friðland við Fitjaá í Skorradal

Þann 26. maí 2021 undirritaði umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, auglýsingu um friðland við Fitjaá í Skorradal.

Friðlýsingin miðar að því að vernda víðlent, samfellt og lítið raskað votlendissvæði við Fitjaá þar sem skiptast á mýrar og flóar, vernda vistgerðir og búsvæði ásamt því að styrkja verndun lífvera sem eru sjaldgæfar eða í hættu. Markmið friðlýsingarinnar er jafnframt að vernda og viðhalda tegundafjölbreytni svæðisins og vistfræðilegum ferlum sem og stuðla að ákjósanlegri verndarstöðu tegunda og fræðslu um votlendissvæðið.

Friðlandið gegnir fjölbreyttu hlutverki í vistkerfum og er meðal annars mikilvægt búsvæði plöntu- og fuglategunda, það dregur úr áhrifum flóða og mengunar og eykur vatnsgæði straumvatna sem um það renna. Jarðvegur votlendisins er lífrænn og hefur hátt kolefnisinnihald og mikla vatnsgeymd. Ríkjandi æðplöntutegundir eru mýrarstör og gulstör og mynda þær eitt víðaáttumesta mýragróðursamfélagið á svæðinu en jafnframt er þar að finna fjölbreytt mýragróðursamfélög og vatnaplöntur. Starungsmýravist sem er helsta votlendisvistgerð svæðisins hefur mjög hátt verndargildi. Við ósa Fitjaár er jafnframt fjölbreytt fuglalíf. Lögð er áhersla á mikið verndargildi þess óspillta votlendissvæðis sem er við ósa Fitjaár.

Friðlandið er 0,88 km2 að stærð

Umhverfisstofnun hefur umsjón og eftirlit með friðlandinu en í því felst m.a. landvarsla og gerð fræðsluefnis fyrir svæðið.

Önnur tengd skjöl: