Meðhöndlaðar vörur

Það hefur færst í vöxt á undanförnum árum að framleiðendur láti bæta efnum í vörur til að gefa þeim ákveðna eiginleika, svo sem til að lengja líftíma þeirra, koma í veg fyrir að af þeim stafi vond lykt, draga úr niðurbroti eða takmarka bakteríuvöxt. 

Ef fullyrt er að vara hafi verið meðhöndluð til þess að ná fram ofangreindum áhrifum má gera ráð fyrir að bætt hafi verið í hana efnum með sæfandi eiginleikum. Með sæfandi eiginleikum er átt við að efnið sem um ræðir drepi, eyði, fæli frá sér eða laði að sér lifandi skaðvalda eins og bakteríur, þörunga, sveppi eða meindýr en vörur sem innihalda slík efni eru kallaðar sæfivörur. 

Meðhöndlaðar vörur eru t.d. íþróttaskór og fatnaður sem er meðhöndlaður með bakteríudrepandi efni til að koma í veg fyrir vonda lykt og hreingerningarklútar og sturtuhengi sem eru meðhöndluð með bakteríudrepandi efni eða rotvarnarefni til að verjast árás baktería og myglu.

Önnur dæmi um meðhöndlaðar vörur eru skurðarbretti, dýnur og púðar, ryksugupokar, kæliskápar og frystar.

Einnig eru húsgögn oft meðhöndluð með skordýraeitri eða rotvarnarefni til að koma í veg fyrir að skordýr, mygla eða sveppur nái að komast í þau við flutning.

Líklegt er að varan þín sé meðhöndluð vara ef eitthvert af eftirfarandi hugtökum kemur fram á merkingum hennar:

  • bakteríudrepandi (antibacterial)
  • bakteríuhemjandi (bacteriostatic)
  • myglueyðandi (anti-mould)
  • mygluhemjandi (mould-repellent)
  • lyktarlaus (odourless)
  • vinnur gegn ólykt (anti-odour)

Ekki er allt sem sýnist

Fyrir neytandann gæti virst ákjósanlegt að kaupa meðhöndlaðar vörur til að vera laus við bakteríur, myglu og óæskilega lykt en ekki er allt sem sýnist. Þessar vörur geta valdið ofnæmi og verið skaðlegar heilsu fólks og umhverfinu en rannsóknir hafa sýnt að virku efnin í meðhöndluðum vörum losna úr þeim með tímanum og skolast út í umhverfið. Því er ástæða fyrir neytendur að hugsa sig tvisvar um áður en hlutir eins og bakteríufrí skurðarbretti eru sett í innkaupakörfuna. Ekki nóg með það þá getur of mikil notkun þessara vara leitt til þess að bakteríur verði ónæmar fyrir virku efnunum í vörunum.

Einnig er umdeilanlegt hvort að virku efnin hafi í öllum tilvikum þau áhrif sem fullyrt er á vörunni. Markaðssetning meðhöndlaðra vara er ekki háð sérstöku leyfi frá yfirvöldum svo það er ekki víst að áhrif viðbættu efnanna hafi verið rannsökuð almennilega. Í flestum tilvikum má forðast bakteríur og ólykt með því að þvo föt og sturtuhengi, þrífa eldhúsáhöld með sjóðandi vatni og sápu og halda heimilinu hreinu og snyrtilegu.

Þess vegna er mikilvægt að þú sem neytandi vandir valið við kaup á vörum og hafir í huga hvort að vandamálið geti verið leyst án þess að nota meðhöndlaðar vörur. Vertu vakandi fyrir hugtökunum hér að ofan og veldu vörur sem eru merktar með áreiðanlegu umhverfismerki, t.d. Svansmerkinu eða Evrópublóminu, þegar það er í boði.