Rannsóknir

Surtsey hefur hingað til verið sem náttúruleg rannsóknastöð í jarðfræði og líffræði og mun vera það áfram. Neðansjávargos eru ekki óalgeng í heimshöfunum og að meðaltali myndast tvær nýjar eldfjallaeyjur á hverri öld, sem oftast hverfa fljótt af sjávarborði. Sérstaða Surtseyjar, í samanburði við aðrar eldfjallaeyjar, felst í því að hún stendur af sér ágang sjávar og þróast eftir lögmálum náttúrunnar án áhrifa eða afskipta mannsins. Surtsey er mest rannsakaða eldfjallaeyja heims þar sem hægt er að reka jarðsögu eyjarinnar frá upphafi, þ.e. myndun, mótun og þróun lífríkis.

Surtseyjarfélagið var stofnað árið 1965, en hlutverk þess er að samræma og leitast við að efla vísindarannsóknir í friðlandinu Surtsey. Surtseyjarfélagið hefur staðið fyrir byggingu rannsóknahússins Pálsbæ, þyrlupalli og gefið út skýrslur með niðurstöðum vísindarannsókna í Surtsey.

Surtseyjarfélagið - Rit og heimildir

Fjölmargir vísindamenn, bæði innlendir og erlendir, hafa stundað margvíslegar rannsóknir í Surtsey í gegnum árin. Vísindamenn Náttúrufræðistofnunar Íslands stunda rannsóknir og annast reglubundna vöktun á náttúrufari friðlandsins í samvinnu við Hafrannsóknastofnunina og Surtseyjarfélagið. 

Tveir hópar vísindamanna fara reglulega í rannsóknaleiðangra út í Surtsey.