Um náttúruvættið

Skógafoss er í alfaraleið og er einn allra fjölsóttasti áfangastaður ferðamanna á leið um suðurströndina. Aðdráttarafl svæðisins er hin stórbrotni Skógafoss sem er um 60m hár og 25m breiður. Jarðlagið sem foss fellur fram af er kallað fossberi og fossberi Skógafoss er fyrrum sjávarhamar. Fýll er með búsetu og verpir víðsvegar í hömrunum sitt hvorum megin við Skógafoss. Fýllinn er einn af ábyrgðartegundum Íslands og friðaður fugl, hann er einnig skráður sem tegund í hættu á evrópska válistanum.

Mikil uppbygging hefur orðið á innviðum á svæðinu undanfarin ár, t.d. með gerð útsýnispalls við fossbrúnina og tröppur upp meðfram honum. Um tíma lá Skógaheiði undir miklum skemmdum og var sett á rauðan lista við gerð ástandsmats árið 2018. Nú hefur nýr göngustígur verið lagður á hluta leiðar um Skógaheiði með tilfallandi stýringu gesta um svæðið og endurheimt svæða sem urðu fyrir miklum gróðurskemmdum. Með bættri aðgangsstýringu og takmörkunum á umferð hefur tekist að ná betri stjórn á umferð gesta á svæðinu og í dag er Skógaheiði komin af rauðum lista.  

Neðan við Skógafoss hafa gróin svæði verið afgirt til að sporna við átroðningi, auk þess sem sjálfboðaliðar hafa lagt mikla vinnu í að græða upp lokaða slóða í brekkunni við fossinn sem og annars staðar. Nýr uppbyggður göngustígur liggur í gegnum tjaldsvæðið. Uppbyggingin mun halda áfram á næstu árum og nýtt deiliskipulag fyrir svæðið gerir ráð fyrir að bílastæðið verði fært fjær fossinum auk þess sem tjaldsvæðið verður fært í skógarlundinn sem áin Kverna rennur í gegnum. Þá er gert ráð fyrir að tröppurnar við fossinn verði endurnýjaðar og færðar fjær fossinum. 

Á Skógum eru veitingahús og matarvagn, auk þess sem Skógasafn er opið allt árið.  Á svæðinu er einnig farfuglaheimili og hótel.
Flestir sem ganga yfir Fimmvörðuháls hefja leið sína við Skógafoss. Í upphafi er gengið upp meðfram Skógaá á hinum nýja göngustíg, en síðar taka við merktir gönguslóðar. Um 24 km ganga er yfir Fimmvörðuháls frá Skógum yfir í Þórsmörk. Gott er að ráðfæra sig við landvörð á staðnum eða Safetravel varðandi færð og þjónustu á Fimmvörðuhálsi.