Spurt og svarað

Um loftgæði og loftslagsmál

Umhverfisstofnun heldur utan um losunarbókhald Íslands. Losunarbókhaldið inniheldur tölur um losun loftmengunarefna annarsvegar og losun gróðurhúsalofttegunda hins vegar. Snúið getur verið að skilja hvernig haldið er utan um bókhaldið, hvernig útreikningar eru gerðir, o.s.frv. og höfum við því tekið saman algengar spurningar og svör við þeim hér að neðan bæði um loftgæði og loftslagsmál. Ef þið finnið ekki svör við þeim spurningum sem þið hafið hér að neðan má ávallt senda fyrirspurn á okkur í gegnum netfangið ust@ust.is.

Loftgæði

Loftgæði eru mælikvarði á hreinleika loftsins sem við öndum að okkur. Gæði loftsins geta spillst af ýmsum orsökum. Það getur verið af völdum mannlegra athafna eins og t.d. aksturs bifreiða eða iðnaðarstafssemi en einnig af náttúrlegum völdum eins og t.d. eldgosa eða jarðvegsfoks. Efnin sem hafa áhrif á loftgæðin eru ýmist sjáanleg eða ekki.
Svifryk (e. particulate matter, PM) er samheiti yfir ýmsar svífandi agnir í andrúmsloftinu. Dæmi um svifryksagnir eru sót, steinryk, málmryk og salt. Svifryksagnir eru oft flokkaðar eftir stærð. Til dæmis á PM10 við um allar agnir sem eru innan við 10 míkrómetrar í þvermál. Til samanburðar er mannshár um 60 míkrómetrar í þvermál. Við notum hugtakið svifryk yfir agnirnar óháð efnasamsetningu. Eiginleiki agnanna er mismunandi eftir uppruna þeirra en flestar þeirra geta haft neikvæð heilsufarsleg áhrif á fólk.
Sópun getur gert gagn og það er ákveðin forvörn í því að fjarlægja mesta óhreinindalagið úr götukantinum. Tíminn sem tekur að sópa allar helstu götur er þó langur (mældur í dögum eða vikum). Ef fjöldi bíla er á nagladekkjum byrjar ryk að myndast strax aftur eftir að sópað var.

Snjór, klaki og frost setja líka ákveðnar hömlur á það hvenær hægt er að sópa. Hins vegar er hægt að rykbinda allar helstu götur á parti úr degi. Rykbinding er því mjög áhrifarík leið til að minnka mestu svifrykstoppana. Besta leiðin til að takamarka gatnaslit er þó minnka bílaumferð og að þeir bílar sem aki um göturnar séu ekki á nagladekkjum.
Þyngri bílar slíta malbiki meira en léttari bílar, sérstaklega ef þeir eru á nagladekkjum. Það þarf þó ekki marga farþega í strætó til að hann verði betri kostur en ef sömu einstaklingar myndu aka einkabíl, sér í lagi með negldum dekkjum. Að auki má nefna að strætó innanbæjar á höfuðborgarsvæðinu ekur ekki á nagladekkjum.
Rafbílar eru gjarnan þyngri en sambærilegir bílar með sprengihreyfli. Þyngri bílar slíta götunum meira. Stóra breytan í yfirborðssliti gatna er þó fjöldi bíla á nöglum. Það hvort bíll er á nagladekkjum eða ekki ræður mestu um yfirborðsslit.

Með fjölgun rafbíla minnkar hættulegasti hluti svifryksins sem er sótið. Sótið kemur frá bílum með sprengihreyfilum en frá rafbílum kemur ekkert sót. Bílar með sprengihreyfla losa einnig lofttegundirnar nituroxíð (NOx) og kolmónoxíð (CO) en engin slík losun kemur frá rafbílum. Rafbílar hafa því mikla yfirburði þegar kemur að minni losun loftmengunarefna en til að draga sem mest úr loftmengun frá vegasamgöngum er best að takmarka eins og hægt er notkun bíla, óháð því hvaða orkugjafa þeir ganga fyrir.
Meiri umferðarhraði þyrlar upp meira ryki. Aukinn umferðarhraði eykur líka vegslit vegna nagladekkja. Bíll sem tvöfaldar hraða sinn eykur svifrykslosun frá götuyfirborði meira en tvöfalt. Ein leið til að draga úr svifryksmengun vegna umferðar væri því hægari umferð. Hægari umferð þýðir líka minni hávaðamengun.
Allir flugeldar eru óumhverfisvænir, m.a. vegna þess að þeir valda loftmengun. Sumir flugeldar eru þó ekki jafnslæmir fyrir umhverfið og aðrir. Það felst meðal annars í því hvaða efni eru notuð til að ná fram skærum litum. Þar hafa oft á tíðum þungmálmar verið notaðir sem hafa slæm umhverfis- og heilsufaráhrif í för með sér.

Loftslagsmál

Loftslagsmál snúast um baráttuna við loftslagsbreytingar af mannavöldum og áhrif þeirra á náttúru og samfélag manna. Loftslagsmál hverfast þannig um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem valda hlýnun jarðar og aðlagast þeim afleiðingum sem eru nú þegar óhjákvæmilegar, svo sem auknir veðuröfgar og hækkun sjávarmáls. Loftslagsmál tengjast svo til öllu sem við gerum í daglegu lífi, m.a. hvernig við framleiðum orku, ferðumst á milli staða og framleiðum varning, byggingar og matvæli.
Losun gróðurhúsalofttegunda kemur frá fjölbreyttum uppsprettum sem tengjast okkar lifnaðarháttum, hvernig við framleiðum matvæli, hluti og orku og ferðumst milli staða. Þessi losun er talin fram í losunarbókhaldi Íslands sem Umhverfisstofnun heldur utan um í samvinnu við aðrar stofnanir.

Yfirleitt er losuninni skipt niður í þrjá meginflokka sem markast af skuldbindingum Íslands gagnvart Rammasamningi Sþ. um loftslagsbreytingar (UNFCCC) og Evrópusambandinu (ESB). Þessir þrír flokkar eru: 1) Losun á beinni ábyrgð Íslands (e. ESR) 2) losun vegna landnotkunnar og skógræktar (e. LULUCF) 3) losun sem fellur undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (e. ETS).

Freakri upplýsingar um umfang og flokkun losunar er að finna í nýjustu samantekt Landsskýrslu Íslands um losun gróðurhúsalofttegunda.
Ísland hefur skuldbundið sig með Evrópusambandsríkjunum og Noregi gagnvart Parísarsáttmálanum til að til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 55% árið 2030, miðað við losun ársins 1990, fyrir svæðið í heild. Til þess að 55% yfirmarkmiðið náist eru mismiklar kröfur settar á mismunandi uppsprettur losunar og einnig eru kröfurnar mismunandi eftir löndum.

Ísland þarf að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem flokkast sem samfélagslosun* um u.þ.b. 41%** árið 2030 m.v. losun árið 2005. Losun sem fellur undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir þarf að dragast saman um 62% árið 2030 m.v. losun árið 2005. Unnið er að því að skilgreina samdráttarmarkmið fyrir Ísland fyrir losun sem kemur frá landnotkun og skógrækt (LULUCF) í samræmi við yfirmarkmið ESB um samdrátt í losun. Hvað varðar Samfélagslosun Íslands hefur ríkisstjórnin sett sér sjálfstætt markmið um 55% samdrátt óháð úthlutun ESB. Freakri upplýsingar um skuldbindingar Íslands og flokkun losunar er að finna hér og í nýjustu samantekt Landsskýrslu Íslands um losun gróðurhúsalofttegunda.

* Áður var þessi losun kölluð „Losun á beinni ábyrgð Íslands“ en þessi losun fellur undir svokallaða beina ábyrgð ríkja samkvæmt reglugerð ESB 2018/842 um sameiginlega ábyrgð (e. Effort Sharing Regulation; ESR).

**Þessi tala hefur ekki verið staðfest heldur er hún áætluð út frá þeim reiknireglum sem ESB notaði við úthlutun samdráttarmarkmiða einstakra landa í fortíðinni þegar önnur heildarmarkmið voru gildandi fyrir svæðið í heild. Staðfest samdráttarmarkmið sem Ísland fær úthlutað frá ESB mun væntanlega liggja fyrir einhvern tíma á árinu 2024.
Samfélagslosun er losun frá vegasamgöngum, landbúnaði, sjávarútvegi, efnaiðnaði og úrgangi. Þessi flokkun er stundum kennd við ESR (Effort Sharing Regulation) skuldbindingaflokkinn sem byggir á sameiginlegum skuldbindingum ESB, Íslands og Noregs gagnvart Parísarsáttmálanum.

Sú losun sem fellur undir þennan skuldbindingarflokk á Íslandi var um 2767 þúsund tonn árið 2022. Einstaklingar, stjórnvöld og fyrirtæki geta öll lagt sitt af mörkum til að draga úr losun sem fellur undir þennan skuldbindingaflokk, t.d. með orkuskiptum í samgöngum, minni sóun og breyttum neysluvenjum.
ETS stendur fyrir EU emissions trading system sem er evrópskt viðskiptakerfi með losunarheimildir. Undir ETS fellur losun frá stóriðju og millilandaflugi innan Evrópusambandsríkja. Öll ríki ESB eru þátttakendur í kerfinu auk Íslands, Liechtenstein og Noregs.

ETS kerfið virkar þannig að losunarheimildum er úthlutað til fyrirtækja og síðan fækkar þessum heimildum milli ára. Þar með takmarkar kerfið losun frá stóriðju, raforkuverum og flugi með hverju árinu. Takist fyrirtækjum ekki að draga úr losun sem nemur lækkuninni þurfa þau að kaupa sér losunarheimildir á frjálsum markaði. Kerfið virkar í raun sem hvatning fyrir flugfélög og stóriðju, t.d. álver, að draga úr losun á hagkvæman hátt. Losun sem fellur undir ETS kerfið var um 2,4 milljónir tonna koldíoxíðsígilda árið 2022.

Ef losun vegna flugs er ekki talin með þá hefur losun sem fellur undir ETS á Íslandi aukist um tæplega 120% milli 2005 (853 kt. CO2-íg.) og 2022 (1875 kt. CO2-íg.).
LULUCF er skammstöfun á skuldbindingaflokknum Land use, land-use change and forestry þar sem losun og bindingu frá landnotkun og skógrækt fellur undir. Losun frá landnýtingu á Íslandi nemur um 9 milljónum tonna á ári. Þessi losun kemur frá ýmsum uppsprettum, t.d. framræstu votlendi, og á binding sér einnig stað, sérstaklega í trjám.
Draga þarf úr losun gróðurhúsalofttegunda frá öllum uppsprettum, þ.m.t. frá landnotkun og skógrækt. Í aðgerðaráætlun íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum er gert ráð fyrir samdrætti í losun vegna landnotkunnar og aukinni bindingu kolefnis. Það er m.a. gert með endurheimt votlendis og skógrækt. Til mikils er að vinna í þessum efnum því losun vegna landnotkunar er stærsti hluti heildarlosunar Íslands.
Já, neikvæð áhrif slæmra loftgæða og loftslagsbreytinga er unnt að meta með ýmsum aðferðum. Mikill kostnaður fellur á samfélagið ef ekkert er gert, til dæmis beinn kostnaður við skemmdir á innviðum eða kostnaður í heilbrigðiskerfinu vegna afleiðinga verri loftgæða. Einnig er óbeinn kostnaður vegna verri heilsu fólks ásamt annara þátta. Í loftslagsmálum er unnt að meta kostnað af aðgerðaleysi með tilheyrandi breytingum á vistkerfum jarðar.

Allar aðgerðir sem draga úr loftmengun eða loftslagsbreytingum hafa ávinning í för með sér. Mikilvægt er þó að bera saman kostnað aðgerða við þann ávinning sem hlýst. Þannig getum við forgangsraðað áherslum og fengið mestan ávinning út úr þeim aðgerðum sem farið er í.
Mengun vegna bíla er margskonar og er gott að skoða hana út frá lífsferli þeirra. Við framleiðslu bíla eru notaðir alls konar málmar og önnur efni sem geta valdið mengun vatns, jarðvegs og lofts. Við notkun bíla eyðast dekk þeirra og losna plastagnir því út í náttúruna. Þeir bílar sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti losa gróðurhúsalofttegundir og alls kyns loftmengunarefni.

Þegar bílum er fargað við enda líftíma þeirra er einnig hætta á að ákveðin mengun eigi sér stað en þó fer það eftir því hvernig þeir eru meðhöndlaðir. Stundum er þeim urðað og þá er hætta á að ýmiss konar efni leki úr þeim og berist í grunnvatn eða út í sjó en stundum eru þeir endurunnir að hluta og þá getur verið að endurvinnsluferlið valdi einhvers konar loftmengun.

Ein skilvirkasta lausnin til að draga úr mengun vegna bíla er að nýta aðrar vistvænni samgöngur svo sem almenningssamgöngur, virka ferðamáta (ganga, hjóla, o.s.frv.) og örflæði (s.s. rafskútur). Einnig geta deilibílakerfi dregið úr heildarmengun vegna bíla. Ítarlegra svar við þessari spurningu má finna hér.
Umhverfisstofnun og Hagstofa Íslands halda hvor um sig bókhald um losun gróðurhúsalofttegunda. Umhverfisstofnun tekur saman losun innan landamæra Íslands en Hagstofan frá hagkerfi Íslands. Bókhald Umhverfisstofnunar um losun frá landsvæði er skrásett út frá landfræðilegu tilliti og einskorðast ekki við Íslendinga. Bókhald Hagstofunnar um losun frá hagkerfi Íslands snýr að losun frá íslenskum fyrirtækjum og einstaklingum, hvar sem þeir eru í heiminum. Tilgangur þess er því að meta losun út frá atvinnugreinum í hlutfalli við fjölda starfsfólks, veltu og skattagreiðslur atvinnugreinanna. Ítarlegra svar við þessari spurningu má finna hér.
Við útreikninga í losunarbókhaldi Íslands fylgir Umhverfisstofnun tilmælum Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðana um loftslagsbreytingar (IPCC) um hvernig losun gróðurhúsalofttegunda frá mismunandi uppsprettum skal skipt í flokka. Flokkunin á losun frá framræstu ræktarlandi er aðeins öðruvísi en í flestum tilvikum þar sem mismunandi lofttegundir falla undir mismuanndi flokka, en framræst ræktarland losar bæði koldíoxíð (CO2) og hláturgas (N2O).

Losun CO2 frá framræstu ræktarlandi er talin fram undir LULUCF flokknum en losun N2O er hins vegar talin fram undir landbúnaðarflokkinn sem fellur undir skuldbindingar á beinni ábyrgð ríkja. Ef umfang losunar þessara tveggja lofttegunda frá framræstu ræktarlandi árið 2022 er borið saman í CO2-ígildum sést að koldíoxíð losunin (1637 tonn CO2) er mun meiri en hláturgas losunin (68 CO2-ígildi).