Hveravellir á Kili

Af hverju var svæðið friðlýst?

Hveravellir var friðlýst sem náttúruvætti 1960 og var friðlýsingin endurskoðuð árið 1975. Ástæður voru m.a. hversu einstakt hverasvæðið þótti vera og álitu margir að á Hveravöllum væri að finna fegurstu vatnshveri Íslands, jafnt vegna þess hversu tært og fagurlitað vatn þeirra er ásamt fagurlituðu mynstri sem er að finna við hverina.

Staðsetning Hveravalla

Hvar eru Hveravellir?

Kjölur nefnist hálendissvæðið milli Langjökuls og Hofsjökuls. Hveravellir eru í Austur-Húnavatnssýslu syðst á Auðkúluheiðarafrétti. Sauðfjárveikivarnargirðing liggur um þveran Kjöl, norðan Hveravalla.

Stærð náttúruvættisins er 534,1 ha.

Hvað er áhugavert?

Landslag á Kili er mjög mótað af jöklum ísaldar en henni lauk fyrir um 10000 árum. Öll fjöll á Kili eru eldfjöll að uppruna og ber mest á móbergsstöpum og dyngjum sem myndast hafa við langvarandi flæðigos. Móbergsstaparnir, t.d. Hrútfell, hafa orðið til við gos undir jökli. Nokkru eftir ísaldarlok varð til gosdyngjan Kjalhraun. Í kvos norðan undir henni er háhitasvæðið Hveravellir í 630 m.y.s. Til háhitasvæða eru talin jarðhitasvæði þar sem hitastig er hærra en 150°C á 1000 m dýpi. Grunnvatn stendur fremur hátt á Hveravöllum og því eru þar aðallega vatnshverir. Elsta lýsing af staðnum er frá árinu 1752, úr rannsóknarferð Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar. Þeir lýsa þar hverum, en mesta athygli þeirra vakti hver sem Eggert nefndi Öskurhól, sökum druna og blísturshljóða sem frá honum komu. Öskurhóll (Öskurhólshver) er nú löngu hættur að blístra.

Mikið magn uppleystra efna er í hveravatni, einkum á háhitasvæðum. Þegar hveravatnið stígur til yfirborðs kólnar það og efni falla út og mynda hverahrúður. Hverahrúður á Hveravöllum er einkum úr kísli og er hverahrúðursmyndun óvenjumikil og litfögur. Hveravellir eru í Austur-Húnavatnssýslu syðst á Auðkúluheiðarafrétti. Sauðfjárveikivarnargirðing liggur um þveran Kjöl, norðan Hveravalla.

Dýralíf

Dýralíf á svæðinu er ekki mjög fjölskrúðugt. Sauðkindin á þar, sumarhaga, og refurinn fastan bústað, rjúpa sést á haustin og gæs hefur fjölgað hin seinni ár. Mófuglalíf er svipað og annars staðar á hálendinu.

Gróðurfar

Gróður á Hveravöllum ber þess merki að þar er vaxtartími stuttur og eru snjódældategundir svo sem fjallasmári og grámulla algengar, auk ýmissa fleiri tegunda eins og ljónslappa. Mikið er af klófífu í votlendisræmu norðan hverasvæðisins, einnig mýrasauðlaukur. Á gamla hverasvæðinu sunnan við lækinn er jarðvegur volgur á nokkru svæði og hefur það sín áhrif á gróðurinn. Gróðursælli svæði eru norðar og vestar, þar eru víða gróskumikil fjallagrös. Sæluhús var byggt á Hveravöllum árið 1922 á fornum sæluhúsrústum. Það er úr torfi og grjóti, endurhlaðið 1994 og er ætlað að verða upplýsinga- og samverustaður ferðafólks. Ferðafélag Íslands reisti sæluhús (gistiskála) 1938 og annað 1980. Veðurathugunarstöð sem starfrækt er allt árið var reist á Breiðamel við Hveravelli 1965.

Menningarminjar

Frægasta útilegufólk sem uppi hefur verið á Íslandi eru Fjalla-Eyvindur og Halla. Munu þau hafa lagst út nokkru eftir 1760 og dvalið um 20 ár í óbyggðum. Þau höfðust við á Hveravöllum í tvígang snemma í útlegð sinni. Þar líkt og víðar um hálendið eru örnefni sem minna á búsetu þeirra. Á hryggnum vestan við hverasvæðið er byrgi Eyvindar sem talið er vera leifar þess hreysis sem þau bjuggu í. Skammt frá er Eyvindarhver, með fornri hleðslu sem talin er gerð til að auðvelda suðu á mat í hvernum.

Aðgengi

Umhverfisstofnun hefur umsjón með svæðisinu, en Ferðafélagi Íslands er heimilt að hafa þar gistiskála. Hveravellir eru fyrirtaks áningarstaður. Gistiskálar F.Í.rúma samtals 70 manns í gistingu. Þeir eru hitaðir upp með hveravatni. Rétt sunnan eldri skálans er lítil heit laug (laugargestum er ekki heimilt að hafa fataskipti í skálanum). Á staðnum er vatnssalerni og vaskar eru á tjaldsvæðinu.

Stysta leiðin milli Norður- og Suðurlands liggur yfir Kjöl. Á fyrstu öldum Íslandsbyggðar var Kjalvegur mikilvæg og fjölfarin samgönguleið. Í Landnámu segir að fyrstu könnunarferðir um Kjöl voru farnar um eða fyrir aldamótin 900 og þar eru Hveravellir nefndir Reykjavellir. Kjalvegur hinn forni er tvískiptur. Önnur leiðin liggur austan við Hveravelli, yfir Kjalhraun á milli Rjúpnafells og Kjalfells. Norðaustan Kjalfells er farið hjá Beinahóli, síðan niður með Svartá að Hvítá. Hin leiðin liggur í vestur frá Hveravöllum, með jaðarfjöllum Langjökuls, hjá vestanverðu Kjalhrauni að Hvítárvatni og koma leiðirnar saman við Hvítá. Þegar kom fram á 18. öld dró mjög úr ferðum um Kjalveg. Orsakir þess eru m.a. þær að þeim fór fækkandi sem sóttu Alþingi á Þingvöllum, en það var raunar lagt niður laust fyrir 1800 og áttu menn þá sjaldnar erindi um Kjöl. Einnig og ekki síður olli helför Reynistaðarbræðra óhug og ótta við leiðina. Daninn Daníel Bruun fór þar um undir lok 19. aldar, m.a. að frumkvæði hans var Kjalvegur varðaður. Allar ár á Kjalvegi eru brúaðar en akvegur er aðeins fær að sumarlagi.
Næturró á tjaldsvæðinu og í skálum skal vera kl. 23.00 - 07.00. Gætið varúðar við hverina, fylgið göngupöllunum. Vatnið er 70°- 100° heitt, gætið því barna vel, einnig við þá hveri sem ekki sjóða. Óheimilt er að vinna spjöll á náttúrunni, hlífið jarðmyndunum og gróðri, hlaðið ekki vörður. Brjótið ekki úr skálum hveranna eða af hverahrúðri né raskið útliti þeirra á nokkurn hátt. Hendið ekki í þá grjóti, torfi eða öðru, það stíflar þá. Aðeins má tjalda á tjaldsvæðinu. Akið ekki utan vega. Takið með allt rusl til byggða, eða setjið það í sorptunnur. Ekki má nota sápu í lauginni og takið aldrei með glerílát þangað.

Það færist í vöxt að ferðalangar sæki til Hveravalla yfir vetrarmánuðina. Veður eru válynd á hálendinu, farið því aldrei vanbúin af stað og látið ætíð vita af ferðum ykkar. Þegar snjóa leysir að vori er öll umferð bönnuð þar til fjallvegir opnast fyrir sumarumferð. Gefin eru út kort um opnun fjallvega á vorin.

Skálaverðir á vegur Hveravallafélagsins starfa á Hveravöllum frá því fjallvegir opnast undir mánaðamótin júní - júlí til ágústloka. Þeir taka á móti ferðafólki, gæta svæðis og skála, veita allar upplýsingar og sjá til þess að umgengisreglum sé fylgt. Veðurathugunarfólk sinnir skálavörslu yfir vetrartímann.

Gistingu í skálum er öruggast að panta fyrirfram á skrifstofu Hveravallafélagið ehf. www.hveravellir.is, hveravellir@hveravellir.is Sími 452 4200

Gönguleiðir

Áhugaverðir staðir (Sjá kort)

Athugið að um er að ræða áætlaðan göngutíma fram og til baka frá Hveravöllum eða öðrum þeim stað sem lagt er upp frá.

Hverasvæðið

Fylgt er göngupöllum er komið var fyrir til verndar hverasvæðinu og liggja frá eldri skála F.Í. Eftir hveraskoðun er hægt að líta á Eyvindartóft og koma í gamla sæluhúsið í jaðri hraunsins. 15-30 mín.

Eyvindarhellir og Eyvindarrétt

Gengið hjá gamla sæluhúsinu og fylgt stikum að litlu hellisopi í hraunhól, þar er Eyvindarhellir. Þaðan er farið að stórum hraunhól með gjá, sem hlaðið hefur verið fyrir og kallast Eyvindarrétt. 30-45 mín.

Strýtur

Strýtur eru hluti af barmi gígskálarinnar miklu efst í Kjalhrauni, í 840 m.y.s. Þangað er stikuð gönguleið frá Hveravöllum. 3-4 klst.

Dúfunesfell

730 m hátt fell norðaustan Hveravalla og er af því gott útsýni. Í Landnámu er frásögn af veðreið á Dúfunefsskeiði sem er sunnan fellsins. Af  Kjalvegi er um 30 mínútna ganga, en ef gengið er frá Hveravöllum þar lengri tíma, 3-4 klst.

Umhverfis Stélbratt - Þjófadalafjöll

Gengið meðfram kvíslum Þegjandi, norður fyrir Stélbratt og stefnt á Oddnýjarhnjúk í Þjófadalafjöllum, 1067 m.y.s.  Í fjöllunum eru mörg falleg gil.  Af Oddnýjarhnjúk er gott útsýni inn yfir Langjökul, 6-8 klst., en gönguna má stytta í 3-4 klst. með því að fara eingöngu umhverfis Stélbratt.

Þjófadalir - Rauðkollur

Á Þröskuld ofan við Þjófadali er jeppaslóði er opnast síðsumars.  Athugið að vegna gróðurverndar má alls ekki aka niður í dalina.  Margar skemmtilegar gönguleiðir liggja úr Þjófadölum, m.a. upp á brún Þverfells og á Rauðkoll 1075 m.y.s.  Af Rauðkolli er gengt norður og austur eftir fjallshryggnum til baka á þröskuld.

Rjúpnafell og Grettishellir

Gengið austur á Kjalveg hinn forna.  Við hann, um 2 km sunnan Rjúpnafells, er stór hraunhóll sem á eru margar vörður, í honum er hellir, opinn í báða enda, nefndur Grettishellir.  Af Rjúpnafelli er gott útsýni yfir Kjalarsvæðið, 5-7 klst.

Beinahöll

Alþekkt er slysasaga Reynistaðarbræðra og förunauta þeirra, en þeir urðu úti á Kjalvegi árið 1780.  Beinhóll er kenndur við beinaleifar af sauðfé og hestum  þeirra og á hólnum er minnisvarði um þá.  Látið beinaleifar liggja óhreyfðar.
Ekið er inn á merkta jeppaslóð skammt sunnan Fjórðungsöldu (Geirsöldu með hringsjánni) eins langt og komist verður og gengið síðasta spölinn.  Farin er sama leið til baka eða gengin varðaða leiðin norður með viðkomu í Grettishelli og sveigt af henni í átt til Hveravalla.  4-5 klst. með göngu til Hveravalla, annars um 2 klst.

Hvítárnes - Hveravellir

Gönguleiðin liggur á milli skála Ferðafélags Íslands, að mestu eftir Kjalvegi hinum forna.  Lagt er upp frá Hvítárnesskála, elsta sæluhúsi F.Í.  (30 gistipláss).  Fyrsti áfangi er að Þverbrekknamúla (20 gistipláss), 4-5 klst.  Annar áfangi er í Þjófadali (12 gistipláss), 4-5 klst., og lokaáfanginn er að Hveravöllum, 3-4 klst.