Þvotta- og hreinsiefni eru efni eða efnablöndur sem innihalda sápur og/eða önnur yfirborðsvirk efni til þvotta og hreingerninga. Yfirborðsvirk efni gegna lykilhlutverki í þvottaefnum með því að minnka yfirborðsspennu vatns og gera það að verkum að óhreinindi losna betur úr því sem verið er að þvo. Til þvotta- og hreinsiefna teljast einnig hjálparefni til þvotta, mýkingarefni og hreingerningarefni.
Reglugerð um þvotta- og hreinsiefni, nr. 300/2014 innleiddi reglugerð Evrópusambandsins nr. 648/2004 og breytingar á henni. Markmið reglugerðarinnar er að koma á samræmingu í löggjöf á EES svæðinu um þvotta- og hreinsiefni og að vernda heilsu manna og umhverfi, lífríki í sjó og vatni.