Staða fráveitumála

Nýjasta stöðuskýrsla um fráveitumál

Stöðuskýrsla um fráveitumál á Íslandi fyrir árið 2022 hefur verið gefin út. Skoða skýrsluna.

Skýrslan byggir á gögnum frá heilbrigðiseftirlitum, Umhverfisstofnun og rekstraraðilum um allt land. Gögnum er safnað saman frá þéttbýlum sem losa meira en 2.000 persónueiningar sem eru 29 talsins og ná yfir 89% íbúa landsins. 

Helstu breytingar milli ára:

 • Tvö þéttbýli uppfylla ákvæði um hreinsun í samræmi við reglugerð nr. 798/1999 um fráveitur og skólp. Þéttbýlin losa minna en 10.000 pe. í sjó sem gerir það að verkum að hreinsikröfur eru ákveðnar miðað við aðstæður og samþykktar af heilbrigðisnefnd. Í báðum tilfellum er um grófhreinsun að ræða (Borgarnes og Dalvík).
 • Fleiri þéttbýli vinna nú að því að skilgreina viðtaka síður viðkvæman þar sem það á við. Endurmat á að fara fram á fjögurra ára fresti en skortur hefur verið á að sveitarfélög sækist eftir slíkri samþykkt. Níu þéttbýli eiga þess kost að beita eins þreps hreinsun í stað tveggja þrepa og sjö þeirra hafa þegar fengið viðtaka skilgreindan sem síður viðkvæman eða eru í ferli við slíka vinnu. 
 • Til að auðvelda innleiðingu og eftirfylgni ákvæða laga og reglugerða hefur Umhverfisstofnun gefið út ýmiskonar leiðbeiningar í samstarfi við ýmsa aðila s.s. heilbrigðiseftirlit, sveitarfélög, fráveitur og fleiri.
  • Leiðbeiningar um útreikninga á magni skólps frá þéttbýlum ásamt útreikniskjali.
  • Leiðbeiningar um skilgreiningu fyrir síður viðkvæma viðtaka.
  • Leiðbeiningar um eftirlitsmælingar í hreinsistöðvum og vöktun í viðtaka.
  • Leiðbeiningar um minni fráveitur (lítillegar uppfærðar leiðbeiningar koma út árið 2024).
  • Samræmd starfsleyfisskilyrði fyrir fráveitur (eins þreps hreinsistöðvar, tveggja þrepa hreinsistöðvar, ítarleg hreinsun og viðeigandi hreinsun).
  • Leiðbeiningar fyrir losunarstaði ferðasalerna.
  • Kortasjá fráveitu er í þróun, hægt er að sjá staðsetningar útrása, hreinsistöðva og ferðasalerna á korti. Unnið verður áfram með kortasjána til að tryggja sem besta upplýsingagjöf.
  • Leiðbeiningar um olíuskiljur munu koma út á fyrri hluta ársins 2024.
 

Eldri stöðuskýrslur um fráveitumál

Stöðuskýrsla á tveggja ára fresti

Á tveggja ára fresti tekur Umhverfisstofnun saman upplýsingar um stöðu skólpmála á Íslandi, í samstarfi við heilbrigðiseftirlit, sveitarfélög og rekstraraðila fráveitna. Heilbrigðisnefndir um allt land taka saman upplýsingar hvert frá sínu svæði og skila þeim til Umhverfisstofnunar. 

Skoða leiðbeiningar um skil upplýsinga  í rafræna gagnagátt Umhverfisstofnunar.

Upplýsingunum er síðan skilað til Umhverfisstofnunar Evrópu (EEA).

Hlutverk sveitarfélaga og heilbrigðisnefnda

Sveitarfélög bera ábyrgð á uppbyggingu fráveitna og skulu koma á fót og reka sameiginlega fráveitu í þéttbýli, sbr. lög nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna. 

Eigendur fráveitna eru ábyrgir fyrir því að losun frá þeim sé í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 798/1999 um fráveitur og skólp með síðari breytingum og skilyrði sem sett hafa verið í starfsleyfi viðkomandi fráveitu. 

Heilbrigðisnefndir sveitarfélaga eru starfsleyfisveitendur fyrir fráveitur, útrásardælustöðvar og skólphreinsistöðvar, sbr. reglugerð nr. 550/2008 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit. Heilbrigðisnefndir hafa eftirlit með fráveitum og skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að skólp verði hreinsað í samræmi við reglugerð um fráveitur og skólp. 

Heilbrigðisnefndir skulu annast eftirlit með fráveituvatni og losun frá skólphreinsistöðvum fyrir þéttbýli nema þær feli rekstraraðila það í starfsleyfi (innra eftirlit). Nefndirnar geta beitt þvingunarúrræðum til að knýja fram ráðstafanir samkvæmt reglugerðinni í samræmi við ákvæði laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.