Hreint loft til framtíðar

Áhrif loftmengunar á heilsu manna hér á landi eru með þeim minnstu samanborið við önnur Evrópulönd og þrátt fyrir að heilsufarsleg áhrif loftmengunar á íbúa Íslands hafi ekki verið rannsökuð til hlítar metur Umhverfisstofnun Evrópu (EEA) að á Íslandi séu fæst ótímabær dauðsföll af völdum loftmengunar borið saman við önnur Evrópuríki. 

Samkvæmt árlegri loftgæðaskýrslu EEA metur stofnunin út frá styrk loftmengunarefna, lýðfræðilegum upplýsingum og niðurstöðum rannsókna á sambandi milli loftmengunar og heilsufarsbrests að á Íslandi megi rekja allt að 80 ótímabær dauðsföll til svifryks (PM2,5) í lofti á hverju ári og færri en fimm dauðsföll vegna NO2 og O3 (Umhverfisstofnun Evrópu, 2016). Nauðsynlegt er að halda þessum áhrifum sem lægstum til að almenningur á Íslandi hafi aðgang að hreinu og heilnæmu andrúmslofti og að áhrif loftmengunar á Íslandi verði áfram með þeim minnstu í heiminum. 

Mikilvægt er að koma í veg fyrir aukna loftmengun þrátt fyrir að áhrif hennar séu mögulega lítil hér á landi samanborið við önnur Evrópulönd. Einnig er mikilvægt að almenningur á Íslandi hafi góðan aðgang að upplýsingum um loftgæði. Loks er mikilvægt að ábyrgðarskipting stjórnvalda í málefnum tengdum loftgæðum sé skýr og að stjórnsýslan sé skilvirk. Með það að leiðarljósi að almenningur á Íslandi búi við hreint og heilnæmt andrúmsloft og að komandi kynslóðir megi njóta sömu eða betri loftgæða og þær sem nú byggja landið, þá er meginmarkmið umhverfis- og auðlindaráðuneytis í loftgæðamálum eftirfarandi:

Að stuðla að loftgæðum og heilnæmu umhverfi

Með þetta að leiðarljósi, gaf umhverfis- og auðlindaráðherra út áætlun um loftgæði í nóvember 2017, Hreint loft til framtíðar – áætlun um loftgæði á Íslandi 2018-2029. Í áætluninni eru þrjú megin markmið með röð aðgerða til að takmarka loftmengun í landinu en hana má nálgast hér að neðan.