Menning og saga

Á fyrstu öldum Íslandsbyggðar var Kjalvegur mikilvæg og fjölfarin samgönguleið og var sennilega helsta samgönguleiðin milli Norður- og Suðurlands. Í Landnámu segir að fyrstu könnunarferðir um Kjöl voru farnar um eða fyrir aldamótin 900 og þar eru Hveravellir nefndir Reykjavellir. Kjalvegur hinn forni er tvískiptur. Önnur leiðin liggur austan við Hveravelli, yfir Kjalhraun á milli Rjúpnafells og Kjalfells. Norðaustan Kjalfells er farið hjá Beinahóli, síðan niður með Svartá að Hvítá. Hin leiðin liggur í vestur frá Hveravöllum, með jaðarfjöllum Langjökuls, hjá vestanverðu Kjalhrauni að Hvítárvatni og koma leiðirnar saman við Hvítá. Þegar kom fram á 18. öld dró mjög úr ferðum um Kjalveg. Orsakir þess eru m.a. þær að þeim fór fækkandi sem sóttu Alþingi á Þingvöllum, en það var raunar lagt niður laust fyrir 1800 og áttu menn þá sjaldnar erindi um Kjöl. Einnig og ekki síður olli helför Reynistaðarbræðra óhug og ótta við leiðina. Daninn Daníel Bruun fór þar um undir lok 19. aldar, m.a. að frumkvæði hans var Kjalvegur varðaður.

Frægasta útilegufólk Íslandssögunnar, Fjalla-Eyvindur og Halla, höfðust við á Hveravöllum í tvígang eftir að hafa lagst í útlegð 1760. Dvöldu þau í óbyggðum í um 20 ár, en dvölin á Hveravöllum var snemma í þeirri útlegð. Líkt og víða á hálendinu eru örnefni sem minna á búsetu þeirra. Á hryggnum vestan við hverasvæðið er byrgi Eyvindar sem talið er vera leifar þess hreysis sem þau bjuggu í. Skammt frá er Eyvindarhver, með fornri hleðslu sem talin er gerð til að auðvelda suðu á mat í hvernum.

Á Hveravöllum er gamalt sæluhús sem var reist árið 1922 á fornum sæluhúsrústum. Húsið er hlaðið úr torfi og grjóti og var endurhlaðið 1994. Ferðafélag Íslands reisti sæluhús 1938 og annað 1980. Á Breiðamel er veðurathugunarstöð sem var mönnuð, árið um kring frá 1965 og fram yfir aldamótin.