Umhverfistofnun - Logo

Ströndin við Stapa og Hellna

Sjá þrívíddarkort af svæðinu hér.

Ströndin við Stapa og Hellna var friðlýst árið 1979. Margar fagrar og sérkennilegar bergmyndanir er að finna við sjó á þessum slóðum.  Þar hafa sérkennilegar klettamyndanir mótast af briminu. Hellnahraun er komið upp úr gíg nærri Jökulhálsi sem nú er hulinn jökli. Á svæðinu er t.a.m. að finna sérkennilegar gjár sem ágangur sjávar hefur grópað í bergið. Fuglalíf er ríkulegt á þessum slóðum. Ströndin var fyrrum mikil verstöð enda gott lægi fyrir báta. Talið er að hraunið sé 3900 ára.

Friðlandið er 134,4 ha.

Hvar er ströndin?

Staðhættir

Af sunnanverðu Snæfellsnesi blasir við til suðurs fjallahringurinn utan frá Reykjanesi og inn til jökla upp af Borgarfirði. Til austurs og nær er Snæfellsnes-fjallgarðurinn en við rætur hans liggur iðgræn Staðarsveitin með gulum skeljasandsfjörum. Fram af hamrabeltinu í hlíðarbrúninni upp af Búðum fellur Bjarnarfoss en í honum stendur fjallkona og falla úðaslæðurnar um herðar henni og barm. Hún sést best frá veginum, þaðan sem beygt er niður að Búðum, og ofan af Fróðárheiði.

Beint norður af Búðum er Mælifell, einkennilegt en formfagurt fjall sem líklega er myndað við gos undir jökli. Norðan við Búðahraun er Axlarhyrna. Norðan við Arnarstapa er Stapafell en það er 526 m hátt móbergsfjall. Auðveld ganga er áleiðis upp norðurhrygg Stapafells en brattinn eykst eftir því sem ofar dregur. Fellskrossinn efst á fjallinu er illkleifur. Höfuðprýðin er í vestri, Snæfellsjökull sjálfur, en hann geymir mikla leyndardóma. Jökullinn er talinn vera ein af sjö helstu orkustöðvum jarðar. Í honum býr Bárður Snæfellsás, verndari svæðisins, og hugsanlega leynist þar leiðin að miðju jarðar. Jökullinn er frekar þægilegur uppgöngu, hvergi verulega brattur nema Miðþúfan efst. Allir vel búnir ferðamenn ættu því að geta gengið á Snæfellsjökul, veðrið og jökulsprungur eru það helsta sem hyggja þarf að.

Eldstöðvakerfið sem kennt er við Snæfellsjökul er sterk landslagsheild og sýnir menjar eftir einstæð eldsumbrot, bæði frá síðasta jökulskeiði og eftir að ísöld lauk. Kerfið er u.þ.b. 30 km langt og nær frá Mælifelli í austri að Öndverðarnesi í vestri og jafnvel lengra. A.m.k. 20 hraun tilheyra kerfinu. Lífæð eldstöðvakerfisins er kvikuþró sem liggur á nokkurra kílómetra dýpi undir jöklinum sjálfum. Snæfellsjökull er gömul eldkeila þar sem skipst hafa á sprengigos og hraungos. Víða sjást hrauntaumar sem hafa runnið niður hlíðar fjallsins og ná sumir í sjó fram. Gígskálin í toppi jökulsins er um 200 m djúp. Á barmi hennar eru þrír tindar og er miðtindurinn hæstur en hann nær í um 1446 metra hæð.

Þótt friðsælt sé hér um að litast á góðviðrisdögum fær svæðið annan svip þegar stormur geisar og úthafsöldurnar skella á ströndinni. Suma daga grúfir þokan yfir og hylur öll

Áhugavert

Dýralíf

Í efstu lögum hafsins, þar sem nægt ljós er fyrir hendi, verður ljóstillífun. Svifið, sem oftast samanstendur af einfrumungum, hreyfist með straumi. Dýrasvif lifir á plöntusvifi og fiskar lifa á dýrasvifi. Fiskar eru étnir af öðrum fiskum, sjófugli, sjávarspendýrum og mönnum. Það er því óhætt að segja að lífið við friðlandið sé háð svifinu, sem er grundvöllur fæðukeðjunnar í hafinu.

Fjölbreytt fuglalíf er í friðlandinu. Af máfum er rita algengust. Egg ritunnar eru tvö og hreiðrið límir hún með munnsafa og driti á snasir og mjóar syllur sjávarklettanna. Svartbakur heldur sig gjarnan við varplönd en sækir mest í fjörudýr, uppsjávarfiska og fiskúrgang. Töluvert er af öðrum máfategundum og fýl. Kría er tignarlegur fugl og dugleg að vernda unga sína. Til þess að njóta bjartra sumarnátta hefur hún komið sér upp sérstakri flugtækni og getur langflug hennar numið allt að 20.000 km á ári. Toppskarfur verpur í þyrpingum á lágum klettum og hólmum. Á varptímanum hafa fullvöxnu fuglarnir fjaðurtopp á höfðinu. Toppskarfur er fimur kafari.

Æðarfugl er algengasta andategundin við ströndina. Oft má sjá óðinshana á tjörnunum ofan við Pumpu. Fuglinn er þekktur fyrir að hringsnúast við ætisleit. Kvenfuglinn getur verið í tygjum við fleiri en einn karlfugl en þeir liggja á eggjunum og annast ungana. Úti fyrir landi synda landselir og af hvölum eru háhyrningur, hnísa og hrefna algengust. Á góðum dögum má sjá heilu laxatorfurnar af bryggjunni og hópa af stökkvandi höfrungum.

Menningarminjar

Örnefni í nágrenni Arnarstapa og Hellna eru samofin Bárðar sögu Snæfellsáss sem var hálfur maður og hálfur tröll. Bárður gekk á land í Djúpalóni og baðaði sig í Bárðarlaug. Skammt frá gerði hann sér bæ stóran sem hann nefndi Laugarbrekku og bjó þar meðan hann dvaldist meðal manna.
Þorkell, bróðir Bárðar, bjó á Arnarstapa. Hann átti tvo syni, Rauðfeld og Sölva. Dætur Bárðar ólust upp á Laugarbrekku, miklar og ásjálegar. Helga var þeirra elst. Þorkelssynir og Bárðardætur léku sér saman og eitt sinn þegar hafís lá við land hratt Rauðfeldur Helgu út á sjó á ísjaka. Helgu rak til Grænlands og sakaði hana ekki en Bárður varð ægilega reiður. Hann hrinti Rauðfeldi í Rauðfeldsgjá og Sölva fram af Sölvahamri. Eftir þetta hvarf Bárður í Jökulinn. Auðæfi hans eru sögð geymd í Bárðarkistu, kistulaga móbergsfjalli upp af Saxhólsdal. Margir trúa því að Bárður vaki yfir svæðinu undir Jökli. Hlaðin mynd af Bárði Snæfellsás eftir Ragnar Kjartansson stendur við ströndina á Arnarstapa.

Útræði var fyrr á öldum víða undir Jökli. Á mörgum stöðum er lending hættuleg og aðstaða erfið svo að þar hefur útgerð lagst af þrátt fyrir nálægð við góð fiskimið. Með vélbátaútgerð voru gerðar lendingarbætur á Arnarstapa um 1933 og á Hellnum 1964 en bryggjan á Hellnum skemmdist síðar í óveðri.

Arnarstapi

Mikil byggð var áður á Arnarstapa, t.d. bjuggu um 150 manns þar árið 1707 og þar var ein af höfnum einokunarverslunarinnar. Fáar fjölskyldur búa nú á Arnarstapa allt árið um kring en á sumrin fyllist staðurinn jafnt af fuglalífi sem mannlífi, með smábátaútgerð og sumarhúsabyggð. Höfnin á Arnarstapa er umlukin stuðlabergsstöpum, gjám og skútum. Þar er gott lægi fyrir smábáta. Upp af bryggjunni er Barnaþúfa og Barnaþúfubarð. Nokkru utar er stakur klettur úti í sjónum sem heitir Arnarklettur. Enn lengra er Kórsnef og þar fram af Pálsklettur. Milli Lendingarkletts og Arnarkletts er sérkennileg klettakví sem nefnist Kór. Vestur af Pálskletti skerst inn langur og þröngur vogur með malarfjöru. Hann nefnist Pumpa. Rétt vestan við vitann eru svonefndar Stapagjár. Þær eru miklir hellisskútar sem sjórinn hefur á löngum tíma brotið og sorfið í stuðlabergsklettana. Gjárnar eru þrjár og heita Eystrigjá, Miðgjá og Músargjá. Mikið er af fugli í gjánum, aðallega ritu.

Hellnar

Hellnar voru um aldir ein af stærstu verstöðvunum undir Jökli. Í byrjun 18. aldar bjuggu þar um 200 manns, ýmist á grasbýlum eða í þurrabúðum. Margar fornminjar vitna um liðna tíma. Fjaran er neðan undir Gróuhól þar sem bílastæðin eru. Austan við víkina teygist fram bergrani sem heitir Valasnös. Þar er Baðstofa, einhver sérkennilegasti hellir hér á landi. Í klettunum upp af fjörunni er Sauðahellir, gamall fjárhellir sem opinn er í báða enda.

Hellnakirkja var reist árið 1945 á fögru kirkjustæði en þar var fyrst reist kirkja árið 1883 

Aðgengi

Umhverfisstofnun hefur umsjón með friðlöndunum og skipuleggur þar landvörslu. Ferðafólk er velkomið og hvatt til að skoða sig um. Akstur utan vega skilur oft eftir opin sár og getur myndað slóða á svæðum sem ekki á að aka um. Því er akstur utan vega óheimill. Sérstök aðgát skal höfð í nánd við varplönd fugla. Verði þeir truflaðir og yfirgefi hreiðrin of lengi getur varp misfarist. Skerðið ekki gróður, truflið ekki dýralíf og skemmið ekki jarðmyndanir. Farið með rusl að næsta ruslagámi, þannig helst ströndin hrein.

Um landið liggja gamlar þjóðleiðir sem eru mikil menningarverðmæti. Það er sjálfsagt að nota þær og leyfa þeim þannig að lifa áfram sem umferðaræðar, auk þess sem þær tengja saman fornminjar og minna á atvinnusöguna. Þær falla vel að umhverfinu og ferðamenn komast þar í nána snertingu við náttúruna. Hestamenn mega fara um stíga og götur en rekstur lausra hesta er bannaður í friðlandinu. Þeim sem hyggjast fara ríðandi um Klettsgötu er bent á landvörð og þjónustuaðila á svæðinu til að fá frekari upplýsingar.

Mikilvægt er að við virðum öll þessar reglur og förum eftir þeim. Við eigum landið saman og skulum ganga þannig um að komandi kynslóðir geti einnig notið þess til fulls. Berum virðingu fyrir náttúrunni og öllum þeim fjölbreytileika lífs og landslags sem í henni er.

Margt hefur breyst til hins betra frá því að Axlar-Björn kom líkunum af þeim ferðamönnum sem hann myrti fyrir í Iglutjörn. Sumarhótel, sem að stofni til er gamla Sandholtshúsið frá árinu 1836, er rekið á Búðum. Þar eru einnig tjaldstæði og er fólki að gefnu tilefni bent á að sjávarfalla gætir við Búðaós. Lítil aðstaða er fyrir tjaldvagna en á einstaka stað eru náttúruleg útskot. Á Arnarstapa og Hellnum er hægt að fá innigistingu á nokkrum stöðum. Þar eru einnig tjaldstæði en bannað er að tjalda í friðlandinu sjálfu. Ýmis afþreying og þjónusta stendur ferðamönnum til boða. Landvörður starfar í friðlöndunum í Snæfellsbæ hluta úr hverju sumri.

Tilgangur friðlýsingar er að vernda náttúru landsins á þann hátt að fólki gefist kostur á að njóta hennar. Með friðlöndunum er tekið frá land fyrir eðlilega framvindu náttúrunnar, útivist og upplifun manna á náttúrunni. Aukin meðvitund almennings og virk þátttaka í náttúruvernd er grundvallaratriði til að ná fram þessum markmiðum. Góða skemmtun

Gönguleiðir

Gönguleiðir í friðlandinu og nágrenni

Helstu gönguleiðir í friðlandinu eru merktar og skipulagðar gönguferðir undir leiðsögn landvarðar eru farnar á sumrin.

Hægt er að ganga frá Búðafriðlandi yfir að ströndinni við Arnarstapa og Hellna. Rétt er að áætla 6-8 tíma fyrir þá göngu.

Eftir Sölvahamri liggur gamla þjóðleiðin undir Jökul. Þar eru Sölvahamarsrústir en þær eru friðlýstar og á fornleifaskrá. Ganga á Sölvahamar frá Arnarstapa tekur innan við klukkustund og svíkur engan.
Milli Arnarstapa og Hellna, allt frá sjó og upp að Jökli, er hraunfláki sem heitir Hellnahraun. Neðstagata liggur um hraunið með fram ströndinni. Þaðan má greinilega sjá hvernig náttúruöflin móta landslagið. Gangan milli Arnarstapa og Hellna tekur röskan hálftíma.

Rétt fyrir ofan Hellna er Bárðarlaug, sprengigígur frá lokum síðustu ísaldar. Hann var friðlýstur sem náttúruvætti árið 1980.

Austan Bárðarlaugar eru rústir fornu Laugarbrekku, fyrrum þingstaðar. Þar fæddist Guðríður Þorbjarnardóttir, ein víðförulasta kona sinnar tíðar.

Vestan við Hnausahraun skerst Rauðfeldsgjá inn í austanvert Botnsfjall. Eftir botni gjárinnar rennur Sleggjubeina og fellur á leið sinni í nokkrum fallegum fossum. Að gjánni er stuttur gangur frá veginum.