Búðahraun

Búðahraun var friðlýst árið 1977. Svæðið einkennist af úfnu hrauni og fjölbreyttum gróðri. Má þar finna 11 af 16 þekktum burknategundum á landinu. Um hraunið liggur forn gata. Gulir fjörusandar eins og nágrenni Búðarhrauns eru fátíðir í íslenskri náttúru.

Stærð friðlandsins er 1002,9 ha.

Hvað er áhugavert?

Búðahraun er eitt fegursta gróðurlendi Íslands. Eystri hluti þess var friðaður 1977. Búðir eru mjög góður sjóbaðsstaður en ætíð skal gæta fyllstu varúðar við sjóböð. Búðahraun er nefnt Klettshraun í fornum heimildum og eldstöðin í miðju hrauninu heitir Búðaklettur. Búðaklettur er þó ekki klettur heldur 88 m hár gígur og úr honum rann hraunið fyrir 5000-8000 árum. Austurhluti Búðahrauns er helluhraun og þar hafa fundist nokkrir hellar. Þekktastur þeirra er Búðahellir. Um hann eru til margar sögur, m.a. var talið að hann væri botnlaus og göng lægju úr honum undir Búðaklett og í sjó fram. Göngin áttu að liggja að Djúpaskeri en það er austur undan Búðahrauni. Hraunið stendur á sjávarbotni og leikur sjór um undirstöður þess. Sjór kemur jafnvel upp í dýpstu gjótum á stórstraumsflóði. Meðal jarðfræðinga er hraunið þekkt fyrir þrídílótt berg, gulgrænir dílar eru ólivín, hvítir plagíóklas og svartir dílar eru pýroxen. Nánast hreinn ólivínsandur finnst í fjörunni við Búðir.

Gróðurfar

Víða hafa skapast einkennilegir katlar í Búðahrauni og í þeim og öðrum dældum er eitt hið furðulegasta gróðurskrúð sem fyrirfinnst hér á landi. Í hrauninu hafa fundist rúmlega 130 tegundir plantna og þar á meðal er hinn friðlýsti ferlaufungur. Við fyrstu sýn vekja burknarnir oftast mesta athygli. Alls hafa fundist 16 tegundir burkna á Íslandi og af þeim vaxa 11 í Búðahrauni. Fjöllaufungur, dílaburkni og stóriburkni eru mest áberandi enda stærstir en tófugras er algengt og þrílaufungur og þríhyrnuburkni vaxa víða. Í Búðahrauni er líka að finna blómlendi og valllendisbolla, lyngfláka, mosaþembur og klettagróður, runna af birki og einstök reynitré. Af tegundum sem ná mikilli hæð í hrauninu má nefna mjaðurt, blágresi og sóleyjar. Í sandinum má m.a. finna túnvingul og melgresi, tágamuru, klóelftingu, brennisóley, holurt, blóðberg, hvítmöðru, lambagras og túnfífil.

Dýralíf

Í friðlandinu að Búðum lifa refir, minkar og hagamýs auk margra fugla- og skordýrategunda. Landselir flatmaga á ströndinni og úti fyrir landi má stundum sjá hvali.

Menningarminjar

Búðir geyma mikilvægan kafla úr atvinnusögu Íslands. Í Eyrbyggju er talað um Hraunhafnarós (Búðaós) sem verslunarhöfn strax á fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Allnokkurn spöl út með hraunjaðrinum, um þrjá kílómetra frá hótelinu, eru Frambúðir. Þaðan mun hafa verið útræði allt frá landnámsöld og áttu margar jarðir þar uppsátur fram eftir öldum. Þar voru hinar upphaflegu Búðir og nafnið er dregið af verbúðunum sem þar voru. Þar má enn sjá rústir verbúðanna auk fiskreita og grjótgarða, lýsis- og lifrargryfja og verslunarhúsa Brimakaupmanna. Verslunarhúsin voru seinna flutt austur fyrir ósinn og þar stóð verslunin um 130 ára skeið. Aðfaranótt 9. janúar 1799 gerði eitt hið ofsafengnasta veður sem sögur fara af. Hélst í hendur við rokið stórrigning, þrumur og eldingar, hafrót og sjávargangur. Í Staðarsveit gekk sjórinn 1500 faðma upp fyrir stórstraumsfjöru og tók nærri af Búðakaupstað. Aldamótaárið 1800 var verslunin því aftur flutt vestur fyrir ósinn.

Samkvæmt manntali 1703 hafa kringum 100 manns verið til heimilis á Búðum og um langt skeið stóðu Búðir í nánu og beinu sambandi við afkomu fjölmennra sveita. Frá Hvítá í Borgarfirði og vestan frá Öndverðarnesi sótti fólk verslun að Búðum.

Við rætur Axlarhyrnu er bærinn Öxl. Á þeim bæ, sem stóð til forna við gömlu þjóðleiðina Jaðargötu, bjó fjöldamorðinginn Axlar-Björn. Hann játaði á sig níu morð á ferðamönnum en sumir töldu hann þó hafa drepið 18 manns. Sagan segir að líkin hafi verið geymd í Iglutjörn sem liggur í hraunjaðrinum. Axlar-Björn var líflátinn árið 1596 og dysjaður í þrennu lagi á Laugarholtinu við Hellna. Þannig var komið í veg fyrir að hann gengi aftur.

Árið 1703 reisti Bent Lárusson kirkju að Búðum. Kirkjan var endurreist af Steinunni Sveinsdóttur árið 1848. Sagan segir að það hafi verið að bón Bents, sem hafi vitjað Steinunnar í draumi. Árið 1984 var kirkjan flutt í heilu lagi úr gamla kirkjugarðinum á núverandi grunn. Kirkjan var endurgerð í þeirri mynd sem hún var talin hafa verið 1848. Hún var endurvígð 1987 og er friðuð safnkirkja í eigu Þjóðminjasafns Íslands en er í vörslu sóknarnefndar.

Aðgengi

Gamla þjóðleiðin um Búðahraun heitir Klettsgata. Hún liggur að Búðakletti, fram hjá Búðahelli, og áfram gegnum hraunið. Þar sem gatan liggur um sléttar hraunhellur má sjá hvernig hófar löngu horfinna hesta hafa meitlað spor sín í klöppina. Klettsgatan er greinileg og skemmtileg gönguleið við allra hæfi. Áætlaður göngutími eru þrjár klukkustundir. Helstu gönguleiðir eru merktar.

Jaðargatan (Jaðragatan) liggur í hraunjaðrinum, að stórum kletti sunnan við Miðhúsatúnið. Þar rennur hún saman við Klettsgötuna. Gatan er víða ógreinileg. Áætlaður göngutími frá Búðum er tvær klukkustundir. Frá Axlarhólum er einungis um klukkustundargangur að Miðhúsum.

Skemmtileg gönguleið liggur að Frambúðum þar sem andi liðinna tíma svífur yfir vel grónum fornminjum. Frá kirkjunni tekur ganga að Frambúðum hálftíma.

Hægt er að ganga frá Búðafriðlandi yfir að ströndinni við Arnarstapa og Hellna. Rétt er að áætla 6-8 tíma fyrir þá göngu.