Skrautsteinar og steingervingar í náttúru landsins

Í íslensku bergi má finna mikinn fjölda tegunda af fallegum steindum og sætir ekki furðu að ásókn í þær sé talsverð og hafi verið lengi. Í langflestum tilfellum eru steindir í náttúrunni agnarsmáar og veita bergi kannski sérstakan lit og glitrandi blæ, en víða um landið má finna steindir sem vaxið hafa upp í nokkra sentimetra að lengd, jafnvel tugi sentimetra. Slíkar steindir mynduðust og uxu í holum eða sprungum djúpt í jörðu þar sem frumefnin, sem mynda steindirnar, féllu út úr heitu grunnvatni sem áður lék um bergið. Með rofi veðra og vinda flettist ofan af slíkum holum og koma því steindirnar í ljós á yfirborðinu, jafnframt því sem þær hætta að vaxa. Á Íslandi er algengast að finna svokallaða geislasteina/zeolíta.

Fjölmargir fundarstaðir skrautsteina eru þekktir um nær allt land, þó helst á Austfjörðum. Það er einmitt þar sem finna má tvo þekktustu fundarstaði steinda á landinu: Teigarhorn í Berufirði og Helgustaðanámu í Reyðarfirði. Teigarhorn er einn frægasti fundarstaður geislasteina á heimsvísu á meðan silfurberg var numið úr Helgustaðanámu, en þar finnst einstaklega tært silfurberg. Silfurbergið var fyrst notað til ljósbrotstilrauna á 17. öld og í kjölfarið varð hið kristaltæra silfurberg úr Helgustaðanámu það frægt að jafnan er heiti steindarinnar kennt við Ísland á erlendum tungumálum (t.d. Iceland Spar og Spath d‘Islande). Á Teigarhorni og í Helgustaðanámu er um ræða afar takmarkaðar og óendurnýjanlegar auðlindir og eru báðir staðirnir friðlýstir sem náttúruvætti. Stranglega bannað er að hrófla við og nema á brott þær jarðmyndanir sem þar finnast, samkvæmt þeim reglum sem gilda innan hinna friðlýstu svæða.

Það eru þó ekki bara fallegar steindir sem eru eftirsóttir til skrauts. Hrafntinna (e. obsidian), sem er sérstakt afbrigði ríólíthrauns, er einnig nokkuð eftirsótt. Finna má hrafntinnu í nálægð við ákveðnar eldstöðvar, en þó líklega hvergi í jafn miklu mæli eins og innan Friðlandsins að Fjallabaki. Ólíkt silfurbergi og öðrum steindum, þá nýtur hrafntinna ekki sérstakrar verndar á landsvísu samkvæmt lögum. Innan Friðlands að Fjallabaki og Vatnajökulsþjóðgarðar er með öllu óheimilt að nema á brott hrafntinnu.  

Steingervingar finnast á vissum stöðum á landinu og er yfirleitt um að ræða afsteypur af plöntuleifum eða skeljum. Surtarbrandsgil við Brjánslæk er eini staðurinn á landinu sem er friðlýstur til verndar steingervinga og einungis má ganga í gilið í fylgd landvarðar. Samkvæmt reglum sem gilda á svæðinu er einnig óheimilt að raska eða fjarlægja steingervinga sem þar finnast. Í raun gilda þær reglur þó á landsvísu, þar sem náttúruverndarlög kveða á um að óheimilt sé að losa og nema á brott steingervinga af fundarstað  án leyfis Umhverfisstofnunar (60. gr. laga nr. 60/2013). Ná lögin yfir forn skeljabrot í jarðlögum sem finnast víðsvegar um landið, t.d. á Tjörnesi.  

Hverir á jarðhitasvæðum og þeirra nánasta umhverfi, hverahrúður og hrúðurbreiðar, njóta einnig sérstakrar verndar samkvæmt 61. gr. náttúruverndalaga.    

En þó að ákveðnar steindir eða bergtegundir njóti ekki sérstakrar verndar á landsvísu samkvæmt lögum, þá ber að minna á almenna aðgæsluskyldu sem getið er á um í náttúruverndarlögum (6. gr. laga nr. 60/2013). Samkvæmt henni er öllum skylt að ganga vel um náttúru landsins og sýna ítrustu varúð til að spilla henni ekki. Að auki er óheimilt að flytja úr landi gripi úr náttúru landsins (t.d. steingervinga, hrafntinnu, silfurberg og aðra skrautsteina) án leyfis Náttúrufræðistofnunar Íslands (15. gr. laga nr. 60/1992).  

Verðir þú var við að verið sé að flytja slíka gripi úr landi er hægt að hafa samband við Umhverfisstofnun eða tilkynna beint til lögreglu.