Dettifoss og fossaröð


Dettifoss, Selfoss, Hafragilsfoss svo og næsta nágrenni þeirra austan Jökulsár á Fjöllum var friðlýst sem náttúruvætti árið 1996. Selfoss, Dettifoss, Hafragilsfoss og nágrenni var friðlýst til verndunar fossa Jökulsár á Fjöllum og næsta umhverfi þeirra.

Dettifoss, Selfoss og Hafragilsfoss mynda einstaka fossaröð í Jökulsá á Fjöllum. Norðan við Hafragilsfoss skera gljúfrin gígaröð sem heitir Randarhólar. Þar má sjá þverskurð af aðfærsluæð gosgígs.

Hvar eru Dettifoss, Selfoss og Hafragilsfoss

Náttúruvættið er innan Öxarfjarðarhrepps, Norður Þingeyjarsýslu. Stærð náttúruvættisins er 485,1 ha.

Hvað er áhugavert?

Náttúruminjar

Jökulsá á Fjöllum á upptök sín í Vatnajökli og rennur til sjávar í Öxarfjörð. Frá upptökum rennur Jökulsá fyrst um aflíðandi hásléttu, skreytta stökum móbergsfjöllum og eldbrunnum hraunum. Við hálendisbrúnina lækkar landið, straumurinn eykst og áin steypist í stórum fossum niður í gljúfrin sem eru við hana kennd. Jökulsárgljúfur eru stærstu og hrikalegustu árgljúfur á Íslandi. Þau eru um 25 km á lengd, 1/2 km á breidd og dýptin víða um eða yfir 100 m. Efri gljúfrin, frá Dettifossi að Syðra-Þórunnarfjalli, eru dýpst og hrikalegust, allt að 120 m djúp á kafla. Dettifoss er oft talinn voldugasti foss í Evrópu. Hann er 45 m hár og um 100 m breiður.

Nokkru neðar er Hafragilsfoss, 27 m hár, kenndur við Hafragil, sem gengur þar út úr gljúfrunum að vestan, en litlu ofar er Selfoss, aðeins um 10 m hár en mjög breiður. Fossar þessir mynda samstæðu, sem á fáa sína líka í veröldinni. Við Hafragil skera gljúfrin gígaröðina Randarhóla og kemur þar fram þverskurður af eldsprungunni í gljúfraveggnum. Sjónnípa heitir gígurinn á austurbarmi gljúfranna þar sem þverskurður aðfærsluæðar gosgígsins er. Sést það vel frá vesturbarmi gljúfranna. Margar lindir koma fram og mynda undurfagra fossa í Hafragilsundirlendi. Landið umhverfis fossana er gróðurlítið og einkennist af hraunum, stórgrýttum melum og gömlum farvegum. Þó eru gróðursælir hvammar við Dettifoss vestanverðan og niður í Hafragilsundirlendi beggja vegna ár. Það er algengt að sjá snjótittlinga og steindepla á svæðinu en þeir kjósa sér grýtt búsvæði. Einnig má sjá hrafna og stundum fálka og smyril.

Menningarminjar

Dettifoss hefur löngum verið vinsæll áningastaður ferðafólks. Fleiri koma að fossinum austanverðum enda hafa vegir að jafnaði verið betri að austan. Fossinn hefur heillað marga ferðamenn en einnig skáld sem hafa ort um hann ódauðleg kvæði. Kristján Jónsson Fjallaskáld, Einar Benediktsson og Þorsteinn Erlingsson eru meðal þeirra. Einar Benediktsson vildi virkja kraftinn í fossinum og kom því að í frægu kvæði um Dettifoss. Þorsteinn Erlingsson, hins vegar, var algjörlega andsnúinn þeirri hugmynd og orti kvæðið Við Fossinn sem var andsvar hans við hugmyndum Einars.

En fossinn og áin eru enn óbeisluð og veita mörgum unaðs- og ánægjustundir sem að þeim koma. Í bókinni Ódáðahrauni, I bindi, segir að nöfnin Hafragil, Hafragilsfoss og Hafragilsundirlendi séu talin vera þannig til komin: Tröllkona ein úr Bláhvammi við Bláfjall rændi tveim höfrum norður í Öxarfirði. Þurfti hún að hafa hraðann á og batt hafrana saman á hornunum, slengdi þeim á öxl sér og stökk með þá þarna yfir Jökulsá.

Aðgengi

Svæðið er í einkaeigu en í umsjá Vatnajökulsþjóðgarðs og er eftirliti og annarri starfsemi sinnt af starfsfólki þjóðgarðsins. Sækja þarf um leyfi vegna framkvæmda til Umhverfisstofnunar. Í júní, júlí og ágúst er farið nánast daglega á svæðið til að aðstoða gesti, sjá um salerni, taka rusl og fylgjast með gönguleiðum. Sjálfboðaliðar Umhverifsstofnuanr hafa komið að viðhaldi og viðgerð göngustíga á svæðinu og hefur aðstaða gjörbreyst til hins betra á undanförnum árum.

Jökulsárgljúfur og umhverfi þeirra bíður upp á fjölbreytilega möguleika til útivistar og náttúruskoðunar. Helstu áningastaðir eru Ásbyrgi, Hljóðaklettar, Hólmatungur og Dettifoss. En alls staðar þar á milli eru áhugaverðir og fallegir staðir sem gaman er að heimsækja.
Áningastaðir eru við Hafragilsfoss og Dettifoss og þaðan liggja gönguleiðir meðfram ánni að fossunum þremur.

Skemmtilegar gönguleiðir liggja um þjóðgarðinn þveran og endilangan og þar geta allir fundið eitthvað við sitt hæfi.  Tjaldsvæði eru innan þjóðgarðsins en auk þess eru fjölbreyttir gistimöguleikar í nágrenni hans.  Ekkert tjaldsvæði er í náttúruvættinu.  Yfir sumarmánuðina er boðið upp á fasta dagskrá í þjóðgarðinum.  Þar er farið í stuttar og langar gönguferðir eða boðið upp á barnastundir og kvöldvökur svo eitthvað sé nefnt.
Við biðjum gesti að ganga vel um landið og virða þær reglur sem gilda í þjóðgarðinum og náttúruvættinu.  Með því leggjum við um leið grunninn að því að komandi kynslóðir geti notið svæðisins á sama hátt og við gerum í dag.

Merkt gönguleið liggur frá bílastæði að útsýnispalli við Dettifoss. Þaðan er gott útsýni yfir fossinn. Hægt er að komast nær fossinum en fara þarf varlega þegar nær dregur. Það er áhrifamikið að ganga suður að Dettifossi, drunurnar hækka og jörðin skelfur og titrar. Sumum þykir fossinn enn kraftmeiri að austanverðu en sjónarhornið er ólíkt að vestan og austan.

Merkt gönguleið heldur áfram frá Dettifossi og suður að Selfossi. Það er skemmtilegt að skoða þennan foss sem virðist svo lítill í samanburði við stóra bróður hans. Þessi foss var áður nefndur Williardsfoss eftir Íslandsvininum Williard Fiske.

Gönguferðin tekur tæpa klst. fram og til baka. Hafragilsfoss Frá bílastæðinu við Hafragilsfoss liggur örstutt gönguleið að Sjónnípu, gígnum þar sem sjá má þverskurð af aðfærsluæð. Þaðan og frá bílastæðinu er frábært útsýni yfir fossinn sem og yfir gljúfrin við Hafragil. Þarna eru Jökulsárgljúfur dýpst og hrikalegust, um og yfir 100 m há. Ekki er ráðlagt að fara ofan í undirlendið við fossinn. Merkt gönguleið liggur meðfram gljúfrunum frá Hafragilsfossi og að bílastæði við Dettifoss. Mjög skemmtilegt útsýni er yfir gljúfrin frá bílastæðinu við Dettifoss.