Miðlun

Til að ná auknu söfnunarhlutfalli í rafhlöðum og rafgeymum þá er mikilvægt að öllum notendum (fyrirtækjum og einstaklingum) sé kunnugt um hvernig þeim ber að skila af sér þessum vörum þegar þær verða úrgangur.

Síðan 2012 hefur heildarsöfnun rafhlaða og rafgeyma lækkað úr 90% í 58% árið 2016. Árið 2017 var heildarsöfnun komin í 62% en mikilvægt er að söfnunin haldi áfram að aukast. Hér má sjá frekari greiningu á tölfræði þessara flokka.

Möguleg innihaldsefni í rafhlöðum og rafgeymum geta verið skaðleg heilsu og umhverfi og því er mikilvægt að fá þessa úrgangsflokka aftur til baka til endurvinnslu og endurnýtingar. Með því getum við komið í veg fyrir að efni úr þeim mengi umhverfið okkar og við minnkum sóun á hráefnum eins og nikkel, blý og lithium en mikið af rafhlöðum og rafgeymum eru nú endurunnar og endurnýttar.

Hér fyrir neðan eru dæmi um upplýsingar (texta) sem framleiðendur og innflytjendur eiga að koma á framfæri við viðskiptavini sína en hægt væri að gera það t.d. með því að hengja upp skjal með textanum, við afgreiðslukassa, við hillu þar sem rafhlöður og rafgeymar eru, á kassastrimil eða á vefsíðu fyrirtækisins. Þessi skylda á einnig við sölu- og dreifingaraðila ef hann flytur inn og framleiðir rafhlöður eða rafgeyma (sjá grein 7. í reglugerð nr. 1020/2011um rafhlöður og rafgeyma).

Það er undir aðilum á markaði hvernig þeir kjósa að setja þessar upplýsingar fram en Umhverfisstofnun gefur fyrirtækjum hér dæmi um spjöld með texta sem þau geta nýtt sér.

Rafgeymar - rafhlöður - raftæki (pdf)
Rafhlöður - raftæki (pdf)