Náttúra og jarðfræði

Jarðfræði

Berggrunnur Friðlands að Fjallabaki myndaðist á vestra rekbeltinu Ameríkuflekanum, fyrir 8-10 milljónum ára. Eldvirkni hófst að nýju á svæðinu fyrir u.þ.b. tveimur milljónum ára við færslu eystra rekbeltisins til suðurs. Orsök eldvirkninnar á svæðinu nú er sú, að heit basísk kvika frá rekbeltinu norðan þess þrengir sér suður, bræðir upp jarðskorpuna og blandast henni í ýmsum hlutföllum.  Blandberg af þessu tagi er m.a. að finna í Laugahrauni, Námshrauni, Dómadalshrauni og Hrafntinnuhrauni.

Eldvirkni á svæðinu var mikil á síðasta kuldaskeiði Ísaldar, en þá mynduðust m.a. móbergsfjöllin Löðmundur og Mógilshöfðar, svo og líparítfjöllin Bláhnúkur, Brennisteinsalda og Kirkjufell.  Líparíthraun frá síðast hlýskeiði ísaldar má m.a. finna undir Norður Barmi og í Brandsgiljum. Á nútíma (síðustu 10 þús. árum) hefur eldvirknin öll verið á belti sem liggur SV - NA yfir friðlandið frá Laufafelli til Veiðivatna.   

Torfajökulssvæðið

Friðland að Fjallabaki nær yfir hluta Torfajökulssvæðisins sem er stærsta líparítsvæði landsins. Líparítkvika er seig og köld og myndar þykk hraun, lítil að flatarmáli. Við snögga kólnun myndar kvikan svart og gljáandi gler, svokallaða hrafntinnu, en annars er líparít venjulega grátt, gult, bleikt eða grænt á lit.  Þessi litadýrð stafar fyrst og fremst af jarðhitaummyndun, en Torfajökulssvæðið er eitt mesta jarðhitasvæði landsins eins og hinar fjölmörgu laugar og hverir bera vitni um.

Torfajökulssvæðið er virk megineldstöð og einkennist Torfajökulseldstöðin af stórri sporöskjulaga öskju eða sigkatli. Öskjubarmurinn liggur  um Háöldu, Suðurnám, Norður Barm, Torfajökul, Kaldaklofsjökul og Ljósártungur. Á Torfajökulssvæðinu finnast merkar minjar á heimsvísu s.s. líparítstapar og fágæt jarðhitafyrirbæri á yfirborði. Eldvirkni og virk roföfl, s.s. jöklar og jökulár, hafa mótað svæðið og einkennist landslagið af gígum, hraunum, skorningum og ljósum áreyrum. 

Snemma á síðasta jökulskeiði, fyrir um 57.000 árum, varð mikil goshrina sem myndaði fjölda líparítfjalla á jöðrum öskjunnar. Flest hæstu líparítfjöll á svæðinu tilheyra þessari hrinu, þar á meðal Laufafell, Kirkjufell og Rauðufossafjöll sem eru líparítstapar myndaðir við gos undir jökli og eru einstakir bæði á lansvísu og heimsvísu. 

Eftir síðustu ísöld hefur gosið allt að 11 sinnum á Torfajökulssævðinu og haf öll gosin orðið á vestur og norðvestur svæðinu. Að minsta kosti sex sinnum hefu gosið samtímis í Bárðabungukerfinu og Torfajökli, þar af tvisvar eftir landnám. Það eru Vatnaöldugosið 871 sem myndaði auðþekkjanlegt og útbreytt öskulag (Landnámslagið) og Veiðivatnagosið 1477. 

Jarðhiti

Jarðhitasvæði Torfajökulssvæðisins er mjög stórt, um 15 km langt frá vestri til austurs og um 12 km breitt þar sem það er breiðast. Jarðhitinn á yfirborði er afar fjölbreyttur og þar er að finna fágæt jarðhitafyrirbæri. Helstu sérkenni jarðhitans á svæðinu eru svokallaðar soðpönnur sem eru grunnir hverir með næstum tæru vatni þar sem bullsýður í ótal smáaugum á botninum. Auk þeirra eru leirhverir, leirugir vatnshverir, gufuhverir, brennisteinsþúfur, og ummyndunarbreiður algengar. Kolsýruhverir og laugar eru við jaðar háhitasvæðisins á afrennslissvæðum. 

Kort af jarðmyndunum

Gróður og vistgerðir

Vegna hins kalda veðurfars í friðlandinu er vaxtartími plantna vart nema tveir mánuðir á ári og jarðvegsmyndum er ákaflega hæg.  Í jarðveginn vantar fullrotnuð og veðruð efni.  Hann er því grófur og sundurlaus og vindur og vatn bera hann auðveldlega úr stað.  Sandfok er mikið á svæðinu og í eldgosum kaffærast stórir hlutar þess í hrauni og ösku. Ef allir þessir þættir eru hafðir í huga og að Landmannaafréttur hefur verið beittur um langan aldur, kemur það engum á óvart hve friðlandið er gróðurlítið. Samfelldu gróðursvæðin eru frekar smá og þau stærstu og grösugustu í grennd við ár og vötn, t. d. Kýlingasvæðið sem er nær samfelldur flói með pollum og tjörnum og ýmsum votlendisplöntum. Hinn súri líparít-berggrunnur er gróðurlaus á stórum svæðum en móbergsfjöllin eru aftur á móti víða gróin fagurgrænum gamburmosa upp á eggjar.

Innan Torfajökulsöskjunnar er fjölbreytni háplantna þó mikil en hátt í tvöhundruð háplöntutegundir hafa fundist þar. Nokkrar sjaldgæfar tegundir æðplantna finnast á svæðinu og eru aðalega bundnar hverasvæðum. Mosar setja svip sinn á landið og sumstaðar eru samfeldar mosaþembur. 

Innan friðlandsins finnst vistgerðir sem hafa hátt verndargildi og einnig vistgerðir sem eru sjaldgæfar á landsvísu og þarf að huga sérstaklega að vernd þeirra. Þar má nefna vistgerðirnar mýtahveravist, starungsmýravist, víðikjarrvist, móhveravist, tegundarík kransþörungavötn, jarðhitalækir, hveraleirvist og fjallahveravist. 

Kort með vistgerðum

Líf í vötnum

Vötnin í Friðlandi að Fjallabaki eru köld fjallavötn.  Auk plantnanna lifa í þeim ýmis smádýr og silungar.  Urriði hefur gengið úr Tungnaá upp í Kýlinga og Kirkjufellsvatn.  Einnig hefur svo lengi sem menn muna verið urriði í Ljótapolli og Frostaðastaðvatni.  Upp úr 1970 var farið að sleppa bleikju í vötn á svæðinu og hefur henni fjölgað svo mjög að nú er í flestum vötnum friðlandsins aragrúi lítilla, ónýtanlegra silunga sem ekki ná að stækka vegna skorts á fæðu. Árið 1981 var hafin skipulögð netaveiði í vötnunum til að minnka silungsstofnana þannig að þeir yrðu í meira samræmi við frumframleiðni vatnanna.

Dýralíf

Fuglalíf er fáskrúðugt eins og víðar á hálendinu en þekktar eru 23 tegundir varpfugla í friðlandinu. Sólskríkjur eru algengastar, en á vötnum sjást himbrimar, lómur, álftir og óðinshanar. Straumönd sést stöku sinnum á Jökulgilskvísl og í Landmannalaugum, og vitað er til þess að hún hafi orpið á svæðinu.

Heimskautarefurinn er sjaldséður í friðlandinu. Minkur er að finna í friðlandinu og er talið að hann hafi fyrst komið þangað um 1950. 

Um 90 tegundir smádýra hafa verið skráðar í Landmannalaugum. Þar af eru þrjár þeirra háðar jarðhitanum, þ.e. laugakönguló, laugafluga og ónefnd tvívængja af húsfluguætt