Umhverfistofnun - Logo

Þvotta- og hreinsiefni

Þvotta- og hreinsiefni eru efni eða efnablöndur sem innihalda sápur og/eða önnur yfirborðsvirk efni til þvotta og hreingerninga. Yfirborðsvirk efni gegna lykilhlutverki í þvottaefnum með því að minnka yfirborðsspennu vatns og gera það að verkum að óhreinindi losna betur úr því sem verið er að þvo. Til þvotta- og hreinsiefna teljast einnig hjálparefni til þvotta, mýkingarefni og hreingerningarefni.

Reglugerð um þvotta- og hreinsiefni, nr. 300/2014 innleiddi reglugerð Evrópusambandsins nr. 648/2004 og breytingar á henni. Markmið reglugerðarinnar er að koma á samræmingu í löggjöf á EES svæðinu um þvotta- og hreinsiefni og að vernda heilsu manna og umhverfi, lífríki í sjó og vatni.  

Eingöngu má framleiða eða flytja inn þvotta- og hreinsiefni ef fullkomið lífrænt niðurbrot yfirborðsvirkra efna þeirra er a.m.k. 60% á 28 dögum ákvarðað með tilvísunaraðferðum sem taldar eru upp í III. viðauka reglugerðar ESB. Þessi krafa gildir um anjónísk, katjónísk, ójónísk og amfóterísk efni.  

Frá og með 30. júní 2013 tóku gildi takmarkanir um heildarinnihald fosfórs (fosföt, fjölfosföt og fofónöt) í þvottavélaefnum sem seld eru almenningi. Heildarinnihaldið má ekki vera jafnt og eða meira en 0,5 gr í ráðlögðum skammti til notkunar í hörðu vatni miðað við staðalþvott* sbr. VII. viðauka reglugerðar (EB) nr. 648/2004. Takmarkanir um fosfór í uppþvottavélaefnum sem seld eru almenningi tóku svo gildi 1. janúar 2017 og má heildarinnihald fosfórs nú ekki vera jafnt og eða meira en 0,3 gr miðað við staðlaðan skammt sbr. VII. viðauka.  

* Staðalþvottur í þvottavél er 4,5 kg af þurrum þvotti þegar um er að ræða þvottaefni fyrir mjög óhreinan þvott og 2,5 kg af þurrum þvotti þegar um er að ræða þvottaefni fyrir lítið óhreinan þvott.  

Merkingar

Á merkingum umbúða þvotta- og hreinsiefna, skulu eftirfarandi upplýsingar koma fram á íslensku, ensku eða Norðurlandamáli öðru en finnsku (sjá nánar í VII. viðauka reglugerðar EB nr. 648/2004): 
 • Vöruheiti 
 • Fullt heimilisfang og símanúmer ábyrgðarðila markaðssetningar vöru. 
 • Heimilisfang, netfang og símanúmer þar sem hægt er að nálgast gagnablað um innihaldsefni. 
 • Innihaldsefni: 
  • Nota skal eftirfarandi þyngdarhlutföll til að tilgreina magn innihaldsefna talin upp í VII. viðauka
   ef þeim er bætt við í styrk yfir 0,2% miðað við þyngd: <5%, ≥5% - <15%, ≥15% - <30% og ≥30%. 
  • Skylda er að telja upp efni úr eftirfarandi flokkum ef þau er í þvottaefni þrátt fyrir að styrkurinn sé undir 0,2%: Ensím, sótthreinsiefni. ljósvirk bleikiefni, ilmefni og rotvarnarefni. 
  • Ef ofnæmisvalandi anganefnum er bætt við í styrk yfir 0,01 % miðað við þyngd skal tilgreina þau á umbúðum með INCI heitum
   (samkvæmt nafnakerfi í tilskipun 76/768/EBE). Sjá lista (sjá pdf skjal) ESB yfir 26 slík efni. 
  • Gefa skal upp vefsetur þar sem nálgast má gagnablað yfir innihaldsefni. 
 • Leiðbeiningar um notkun og sérstakar varúðarráðstafanir ef þörf krefur. 
 • Skammtastærðir:
  • Gefa skal upp hve stóran skammt í ml eða gr skal nota miðað við staðalþvott í þvottavél fyrir þrenns konar hörku vatns, mjúkt, meðalhart og hart, og eina eða tvær þvottalotur. Allt neysluvatn á Íslandi er mjúkt, þ.e.a.s. í lægsta hörkuflokki.
  • Gefa skal upp fjölda þvottaskammta í pakka miðað við meðalhart vatn fyrir mjög óhreinan þvott, miðlungs óhreinan og lítt óhreinan þvott. 
  • Rúmmál skammtamáls skal koma fram í ml eða gr, ef það fylgir með, og merkja skal við skammtinn sem hæfir staðalþvotti í þvottavél fyrir mjúkt, meðalhart og hart vatn.

Athuga ber jafnframt að ef þvotta- og hreinsiefni innihalda efni sem flokkast hættuleg samkvæmt reglugerð nr. 415/2014 (CLP) sem innleiðir reglugerð (EB) nr. 1272/2008 hér á landi, þá gilda jafnframt ákvæði hennar, þ.m.t. að hættumerkingar skuli vera á íslensku.

Upplýsingar sem framleiðendum ber að veita 

 • Upplýsingar úr prófunum er varða yfirborðsvirk efni í þvotta- eða hreinsiefnis sbr. III. viðauka. 
 • Gagnablað yfir innihaldsefni þvotta- eða hreinsiefnis sbr. VII. viðauka. 

Tengt efni