Breiðafjörður


Mynd: iSstock
Breiðafjörður

Annar stærsti flói landsins. Eyjar og sker sem sagðar eru óteljandi. Eyjarnar eru flestar grösugar og sumar skarta gróskumiklum hvannaskógum. Ríkulegur þörungagróður er í fjörum og grunnsævi.

Fjörðurinn er víða grunnur svo 5-6 m hæðarmunur er á sjávarstöðu flóðs og fjöru. Fjörur og leirur eru þessvegna óhemju víðlendar. Selur kæpir á skerjum og fuglalíf eyjanna er einstætt, bæði hvað varðar tegundaauðgi og stofnstærðir.

Áður fyrr var í eyjunum talsverð byggð. Fjölmennar verbúðir voru víða, t.d í Oddbjarnarskeri. Eyjabúskapur var um margt sérstakur en hefur nú að mestu lagst af. 

Íbúar eyjanna komust vel af og hafa eyjarnar verið nefndar matarkista. Enn eru þar hlunnindi af dún- og eggjatöku og ástæða er fyrir ferðamenn að gefa gaum að umgengnisreglum við æðarvarp

Sigling milli eyjanna getur verið hættuleg vegna strauma og skerja. Auk þess heyrir verndarsvæði Breiðafjarðar til Vesturlands og Vestfjarða, en svæðið er verndað með lögum nr. 54/1995 um vernd Breiðafjarðar. 

Sérstök nefnd, Breiðafjarðarnefnd, er umhverfisráðherra til ráðgjafar um vernd svæðisins.

Fleiri upplýsingar um svæðið er að finna á heimasíðu Breiðafjarðarnefndar.

Landvarsla við Breiðafjörð 2020 - skýrsla
Landvarsla við Breiðafjörð 2019 - skýrsla