Eftirlit með merkingum og umbúðum stíflueyða

Inngangur

Verkefni þetta nær til stíflueyða sem eru á almennum markaði hér á landi og skylt er að merkja vegna þess að þeir innihalda hættuleg efni. Um merkingar á vörum sem innihalda hættuleg efni gildir reglugerð nr. 415/2014 um flokkun, merkingu og umbúðir efna og efnablanda, en hún innleiðir hér á landi reglugerð (EB) nr. 1272/2008 sama efnis. Gerð er krafa um að merkingar vara sem heyra undir reglugerðina séu á íslensku. Jafnframt er gerð krafa um barnheld öryggislok og áþreifanlega viðvörun á umbúðum þeirra vara þar sem hættuflokkun gefur tilefni til og eru ætlaðar til almennra nota. Slíkt gildir m.a. um efnavörur með húðætandi eiginleika einsog stíflueyða. Stíflueyðar geta líka innihaldið yfirborðsvirk efni eða sápur og í þeim tilfellum falla þeir jafnframt undir skilyrði reglugerðar nr. 300/2014 um þvotta- og hreinsiefni sem innleiðir reglugerð EB nr. 648/2004 sama heitis.

Tilgangur

  • Að athuga hvort fylgt sé ákvæðum reglugerða um merkingar og umbúðir stíflueyða sem eru á markaði hér á landi. 
  • Að upplýsa birgja og söluaðila um reglur sem gilda um merkingar á vörum sem innihalda hættuleg efni.
  • Að auka neytendavernd.


Framkvæmd

Farið var í eftirlit í nóvember 2018 til 14 birgja sem samkvæmt upplýsingum Umhverfisstofnunar eru að markaðssetja stíflueyða, eða á útsölustaði þar sem vörur þeirra voru til sölu. Í eftirlitinu var skoðaður 21 stíflueyðir sem settur er á markað í því skyni að athuga hvort fylgt væri ákvæðum ofangreindra reglugerða varðandi merkingar þeirra og umbúðir. 

Niðurstöður

Allar vörurnar sem skoðaðar voru reyndust vera með merkingar á íslensku og í öllum tilfellum voru barnheld öryggislok til staðar ef krafa var um slíkt. Alls voru 15 vörur (71%) með einhver frávik frá gildandi reglum en 6 vörur (29%) voru alveg frávikalausar. 

Til þess að fá mynd af alvarleika frávikana voru þau flokkuð í þrjú stig eins og sýnt er í 1. töflu, þar sem 1. stig er minnst alvarlegt og 3. stig mest alvarlegt. Ef frávik við merkingar telst vera á 1. stigi þarf að senda Umhverfissstofnun tillögu að fullnægjandi úrbótum en ekki þarf að endurmerkja vörur sem þegar eru komnar í sölu. Við frávik á 2. stigi þarf líka að senda Umhverfisstofnun tillögu að fullnægjandi úrbótum og auk þess að endurmerkja allar vörur sem þegar eru í sölu í samræmi við þær. Falli frávik undir 3. stig krefst Umhverfisstofnun tímabundinar stöðvunar á markaðssetningu vörunnar sem um ræðir, þar til úrbætur hafa átt sér stað. 
Í 2. töflu má sjá undir hvaða alvarleikastig vörur hjá hverjum og einum birgja lentu. Flestar vörurnar (67%) féllu undir að vera með 2. stigs frávik, hinar lentu í 1. stigi (33%) en engin vara reyndist vera með frávik  á 3. stigi.Í 3. töflu má sjá hvernig fjöldi frávika skiptist á mismundandi vörur hjá hverjum birgi. Af þeim vörum sem voru með frávik reyndust 7 vera með 1-2 frávik en 8 vörur með 3 frávik eða fleiri og telst það vera alvarlegt þegar um er að ræða vörur sem eru eins hættulegar og hér um ræðir.

Algengustu frávikin voru þessi: 

  • orðalag hættu- og varnaðarsetninga var ekki í samræmi við reglugerð
  • viðvörunarorð vantaði eða var rangt
  • áþreifanlega viðvörun fyrir blinda og sjónskerta vantaði.

Þeim birgjum sem báru ábyrgð á vörum með frávik var veittur þriggja vikna frestur til að verða við kröfum Umhverfisstofnunar um úrbætur. Brugðust þeir almennt við á fullnægjandi hátt innan frestsins en nokkrir fengu þó viðbótarfrest til þess að verða við kröfum.