Ilmefni

Hvað getum við gert?

  • Veljum vörur án ilmefna, einkum snyrtivörur sem við skiljum eftir á húðinni.
  • Gott er að spreyja ilmvatninu eða rakspíranum á fötin frekar en beint á húðina til að lágmarka líkur á snertiofnæmi.
  • Forðumst vörur með ilmefnum þegar við erum ólétt.
  • Forðumst vörur með ilmefnum fyrir börn, einkum ungabörn.
  • Minnkum notkun ilmefna á heimilinu.
  • Ef við viljum ilma vel þá er gott ráð að velja eina snyrtivöru/hreinlætisvöru með ilm og hafa hinar ilmefnalausar.
  • Sýnum tillitsemi við fólkið í kringum okkur þegar við erum í þröngum rýmum eins og t.d. búningsklefum. Spreyjum ilmvatninu, rakspíranum og öðrum vörum sem innihalda ilmefni í spreyformi frekar þegar við erum komin út. Mögulega er einstaklingur í rýminu sem er með viðkvæm öndunarfæri.

Almenn umfjöllun

Meira en 2500 þekkt ilmefni eru notuð í vörur sem við notum í okkar daglega lífi t.a.m. snyrtivörur, hreinlætisvörur, þvotta- og hreinsiefni, mýkingarefni, hárliti, ilmkerti og aðrar heimilisvörur. Ilmefni geta verið manngerð eða náttúruleg en efni úr báðum flokkum geta haft óæskileg áhrif á okkur. Yfirleitt er ilmefnum bætt út í til að gefa vörum góðan eða ferskan ilm en þeim er líka bætt við vörur til að fela vonda lykt hráefna sem notuð eru við framleiðslu þeirra.

Snertiofnæmi

Algengasta orsök snertiofnæmis eru ilmefni en meiri áhætta er á að þróa snertiofnæmi af vörum sem við skiljum eftir á húðinni svo sem krem og svitalyktaeyða heldur en í vörum sem við skolum af t.a.m. sturtusápum og sjampó. Sumir geta notað vörur með ilmefnum án vandræða en aðrir geta þróað með sér snertiofnæmi, því miður er ekki hægt að segja til um hverjir eru líklegri til að þróa með sér ofnæmi. Mikilvægt er að sýna varkárni á að setja vörur með ilm á ungabörn þar sem húð þeirra er almennt þynnri en fullorðinna.

Kláði, bólgur og öndunaróþægindi

Vandamál vegna ilmefna eru ekki einungis vegna möguleika á að þróa snertiofnæmi heldur geta sum ilmefni ert augu og húð. Að auki geta þau ert öndunarfæri viðkvæmra einstaklinga eins og þeirra sem eru með astma eða frjókornaofnæmi. Mikilvægt er að vera meðvitaður um að bæði náttúruleg ilmefni og manngerð ilmefni geta ollið óæskilegum áhrifum og því gott að setja þau undir sama hatt við val á vörum.

Merkingar ilmefna í vörum 

Alls eru 26 ilmefni sem krafist er að séu merkt á innan EES með nafni ilmefnisins á innihaldslýsingu snyrtivara og þvotta- og hreinsiefna. Listi þessara 26 efna má finna í skýrslu Vísindanefndar um öryggi neytenda (e. SCCS) um álit þeirra á ilmefnum í snyrtivörum sem valda ofnæmi og í III. viðauka við reglugerð (EB) nr. 1223/2009 um snyrtivörur. Efnin linalool, limonene, citronellol og cinnamal eru öll á þessum lista en algengt er að finna þau í snyrtivörum og þvotta- og hreinsiefnum. Fleiri ilmefni eru grunuð um að valda ofnæmi og öðrum óæskilegum áhrifum. Erfitt getur reynst að finna út hvaða ilmefni eru til staðar í vörum eins og snyrtivörum þar sem leyfilegt er að nota hugtakið ilmefni eða á ensku „perfum“ og „aroma“ í stað nafna ilmefnanna. Þetta er einkum gert þar sem blanda af ilmefnum er notað í eina vöru og það auðveldar að hafa eitt innihaldsefni í lýsingunni heldur en mörg við merkingu umbúða.

Viltu vita meira?

Skýrsla Vísindanefndar um öryggi neytenda (e. SCCS) á ensku um álit þeirra á ilmefnum í snyrtivörum sem valda ofnæmi

Almennt um ilmefni á sænsku á heimasíðu Karolinska Institutet

Ráðleggingar vegna ilmefna á dönsku á heimasíðu Miljøstyrelsen