Er varan sæfivara?

Hvernig veistu hvort varan þín er sæfivara?

Sæfivörur er samheiti yfir vörur sem notaðar eru í því skyni að vernda fólk, dýr, vatn, yfirborð, efni og vörur fyrir skaðvöldum, t.d. meindýrum, bakteríum, sveppum eða öðrum óæskilegum lífverum. Sæfivara drepur, fælir frá eða laðar að sér lifandi skaðvalda vegna þess að hún inniheldur tiltekin virk efni, sem hafa þessi áhrif. Sæfivörur eru notaðar til ýmissa daglegra þarfa, bæði á heimilum og í atvinnulífinu, s.s. iðnaði og þjónustu. 

Það er líklegt að varan þín flokkist sem sæfivara ef hún er notuð:

  • til sótthreinsunar fyrir menn, dýr og yfirborð,
  • til að rotverja og lengja líftíma vöru,
  • til að koma í veg fyrir vonda lykt,
  • til að takmarka útbreiðslu baktería,
  • til útrýmingar meindýra,
  • sem gróðurhindrandi efni.

Sæfivörur skiptast í 22 vöruflokka og sjá má yfirlit yfir þá hér.

Löggjöfin um sæfivörur snertir stöðugt fleiri vörur vegna þess hvernig fyrirkomulagið við framkvæmd er. Það felst annars vegar í því að dreifa áhættumati á virkum efnum á mörg ár og hins vegar að ekki má setja sæfivöru á markað án þess að búið sé að veita henni markaðsleyfi, ef áhættumati á virku efnunum sem hún inniheldur er lokið. Inn í þetta spilar líka að hluti af þessum vörum féll ekki undir neinar reglur áður. Núgildandi löggjöf hefur því í för með sér að mun fleiri atvinnugreinar en áður þurfa að sjá til þess að vörurnar sem verið er að nota eða bjóða til sölu uppfylli kröfur reglugerðar 528/2012 um sæfivörur.

Vörur sem falla undir sæfivörureglugerðina

Sæfivörureglugerðin fjallar um sæfivörur, virk efni og meðhöndlaðar vörur.

Sæfivara

Vara, sem flokkast sem sæfivara, hefur það sem aðalmarkmið að vernda fólk, dýr, vatn, yfirborð, efni og vörur fyrir skaðvöldum. Sæfivara inniheldur tiltekin virk efni sem drepa, fæla frá eða laða að sér lifandi skaðvalda eins og bakteríur, þörunga, sveppi eða meindýr.
Þetta eru t.d. vörur sem við notum til sótthreinsunar á allskyns efnum og búnaði, til að rotverja allskonar efni og vörur, til að útrýma bæði smærri og stærri meindýrum, ellegar fæla þau frá eða laða að, sem viðarvörn, til að hindra að gróður setjist á ýmiskonar yfirborð og til uppstoppunar eða líksmurningar.

Sjá nánar í yfirliti yfir 22 vöruflokka sæfivara.

Virk efni

Virkt efni er það innihald sem framleiðendur nota í sæfivöru eða meðhöndlaða vöru. Virkt efni í sæfivörum hefur sæfandi eiginleika, sem virkar gegn lifandi skaðvöldum og kemur í veg fyrir tjón af völdum þeirra.
Dæmi um virk efni í sæfivörum eru joð, etanól, klór, permetrín, brómadíolón og kopar.

Vörur meðhöndlaðar með sæfivöru

Við tölum um meðhöndlaðar vörur þegar í þær hefur annaðhvort verið bætt virkum efnum með sæfandi eiginleika eða þær meðhöndlaðar með sæfivörum, í þeim tilgangi að verja þær fyrir lykt, rotnun eða öðru tjóni af völdum baktería, þörunga, myglu (sveppa), skordýra eða annarra meindýra.
Meðhöndlaðar vörur geta t.d. verið málning, lökk, fatnaður, skór, gólfteppi eða sturtuhengi, svo eitthvað sé nefnt.

Vörur sem ekki heyra undir sæfivörureglugerðina

Nokkrar vörur sem í fljótu bragði gætu virst vera sæfivörur, vegna þess að þær innihalda virk efni með sæfandi eiginleikum, falla ekki undir sæfivörureglugerðina og helgast það af notkunarsviði þeirra. Þetta á t.d. við um:
Rotvarnarefni sem notuð eru í snyrtivörum.
Rotvarnarefni í matvælum og fóðri.
Sæfandi efni sem notuð eru til sótthreinsunar lækningatækja.
Lyf sem notuð eru til að meðhöndla sjúkdóma hjá fólki og dýrum.
Sæfivörulöggjöfin nær heldur ekki yfir vörur, sem notaðar eru til að koma í veg fyrir eða hemja skaðvalda með hindrunum eða vélrænum hætti og án þess að nota efni.

 

Upplýsingar um hvaða löggjöf gildir um þessar vörur er að finna hjá viðeigandi stjórnvöldum.
Ef þú ert framleiðandi, innflutningsaðili eða seljandi vöru sem inniheldur efni, getur þú fundið viðeigandi löggjöf undir málaflokknum „Efni“ hér á síðunni.

Sjá nánar um mismunandi vöruflokka í bransaleiðbeiningum:

Þurfa sæfivörur markaðsleyfi ?

Ef þú vilt flytja inn, framleiða, selja eða nota sæfivöru á Íslandi þarftu markaðsleyfi frá Umhverfisstofnun í samræmi við ákvæði í efnalögum og viðeigandi reglugerða sem undir þau heyra. Mikilvægur þáttur við leyfisveitinguna er að ganga úr skugga um að nægjanleg þekking sé fyrir hendi um áhættuna af vörunni þannig að hægt sé að dæma um hvort hún teljist örugg í venjulegri notkun, sé hún notuð rétt og gripið til viðeigandi varúðarráðstafana eftir því sem við á. Við leyfisveitinguna er virkni vörunnar einnig skoðuð.
Sjá einnig :