Hvað er þjóðgarður?

Þjóðgarðar eru friðlýst svæði sem talin eru njóta ákveðinnar sérstöðu úrfrá náttúru eða menningu. Fyrst friðlýsta svæði Íslands var þjóðgarðurinn Þingvellir, en auk hans eru tveir aðrir þjóðgarðar í landinu, Vatnajökulsþjóðgarður og Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull. Í náttúruverndarlögum eru þjóðgarðar einn af friðlýsingarflokkunum. Þjóðgarðar eru oftast stór náttúrusvæði sem eru lítt snortin og hafa að geyma sérstætt eða dæmigert lífríki, jarðminjar og/eða landslag. Þegar þjóðgarður er stofnaður er einnig litið til mikilvægis svæðisins í menningarlegu eða sögulegu tilliti. Af öllum friðlýsingarflokkum má áætla að þjóðgarðar séu þekktasti flokkurinn á meðal almennings. Þá má finna um allan heim og þeir eru að jafnaði fjölsóttari en aðrar tegundir friðlýstra svæða því í þjóðgarði er öruggt að þar er að finna vissa náttúrufegurð, upplifun og merki um sögu og stolt þjóðar. Eitt af markmiðum þjóðgarða er að tryggja almenningi aðgang að svæðinu til útivistar og til þess að kynnast náttúru og sögu svæðisins. Þegar landsvæði er gert að þjóðgarði tryggir það að framtíðarkynslóðir hafi tækifæri til að njóta náttúru- og menningarminja sem vert er að varðveita.

Þjóðgarðar og reglurnar sem gilda innan þeirra eru mismunandi. Þegar svokallaðir friðlýsingarskilmálar eru samdir þá er það gert í náinni samvinnu við samstarfshóp verkefnisins. Í hópnum eru m.a. fulltrúar sveitarfélaga, landeigenda og fleiri hagsmunaaðila. Friðlýsingarskilmálar eru sérsniðnir fyrir hverja friðlýsingu fyrir sig og þegar þeir eru gerðir er horft til þess hvernig má best má viðhalda verndargildi svæðisins í sátt við samfélögin í kring og þeirra þarfir. Það er gott að hafa í huga að ekkert er fyrir fram ákveðið þegar hafist er handa við gerð friðlýsingarskilmála og það sem gæti verið regla á einu friðlýstu svæði mun ekki endilega eiga við á öðru.