Hvað er til ráða?

Á vinnustöðum er reynt að draga úr hávaða véla og tækja með ýmsum ráðum og starfsfólki útvegaðar heyrnahlífar þar sem jafngildishávaði er > 85 dB. Reynt er að draga úr hávaða frá umferð með byggingu hljóðmana og bættu skipulagi. Á undanförnum árum hefur verið unnið að því að framleiða hljóðlátari bíla, flugvélar og ýmis önnur tæki, en fjölgun þeirra dregur úr gagnsemi þessara aðgerða.

Mikilvægt er að gætt sé að hljóðvist húsnæðis strax á hönnunarstigi og  því síðan fylgt eftir að rétt sé staðið að málum, því erfitt og kostnaðarsamt er að bæta úr göllum eftir á. Til er hljóðflokkunar staðall fyrir húsnæði, sem eðlilegt er að nota við hönnun húsnæðis. Í eldra húsnæði er hægt að bæta hljóðvist m.a. með því að setja hljóðeinangrandi efni í loft og niður á veggi, nota frekar mjúk gólfefni en hörð og að nota millilag þar sem hörð gólfefni eru notuð. Í skólum og leikskólum má, auk þessa, huga að fækkun barna í kennslustofum, breyttri dagskrá, skipta bekkjum upp í minni hópa, nýta allt húsnæðið, nota mottur þar sem leikið er með hávær og hörð leikföng, setja tappa undir borð- og stólfætur o.s.frv. Þá er mikilvægt að velja vel hönnuð húsgögn, sem ekki valda miklum hávaða.