Notkun sæfivöru

Sæfivörur eru notaðar af starfsmönnum og fagfólki á vinnustöðum og af almenningi á heimilum.

Sæfivörur eru notaðar til að verjast hættulegum eða óæskilegum lífverum á mjög víðu sviði og mikilvægt er að sjá til þess að þær séu notaðar á öruggan hátt, án þess að valda tjóni á heilsu eða umhverfi.

Hver sá sem notar sæfivöru er ábyrgur fyrir því að nota hana rétt og á áhrifaríkan hátt.

Hvernig verjumst við án þess að nota sæfivörur

Það eru til margar leiðir til að hafa stjórn á skaðlegum lífverum án þess að sæfivörur komi við sögu, allt eftir því hvaða vanda er verið að glíma við. Hér eru nokkur dæmi:
  • Nota gildrur til að veiða meindýr í stað útrýmingarefna.
  • Koma í veg fyrir að lífverurnar komist inn í hús með því að loka aðkomuleiðum.
  • Sjá til þess að viðhald sé gott og svæðum sé haldið hreinum og þurrum.
  • Nota hita til að verjast óæskilegum lífverum, t.d. gufu til sótthreinsunar eða frystingu til að farga veggjalús.

Almenningur sem notandi

Sæfivörur til notkunar af almenning inni á heimilum eru leyfðar sérstaklega til þess, sem þýðir að sá sem notar slíkar vörur þarf enga sérstaka þjálfun. Þetta felur þó í sér að fylgja þarf upplýsingum og leiðbeiningum á merkingum vörunnar til þess að hún sé notuð á öruggan og áhrifaríkan hátt. Þú verður alltaf að lesa leiðbeiningarnar á miðanum og ganga úr skugga um að þú hafir skilið þær og fylgt til hins ítrasta við notkun vörunnar.

Margar sæfivörur eru eingöngu ætlaðar fyrir fagmenn til að nota í iðnaði og þá þarf viðkomandi að hafa fengið þjálfun og fræðslu til að nota vöruna. Fyrir sumar vörur eins og t.d. í vöruflokknum varnir gegn meindýrum þarf viðkomandi fagmaður að hafa sótt sérstök námskeið og fengið útgefið leyfi til að kaupa og nota sæfivörurnar. Almenningur á aldrei að nota sæfivörur sem eingöngu eru leyfðar fyrir notkun fagmanna.

Notkun í atvinnuskyni og fagmenn

Fagmenn eða þeir sem eru notendur í atvinnuskyni, eru þeir sem nota sæfivörur í starfi sínu og hafa fengið sérstaka þjálfun og fræðslu í notkun þeirra.

Fræðslan þarf m.a. að ná til atriða eins og löggjafar sem gildir um sæfivörur, réttrar notkunar og hvernig eigi að meta áhættu við notkun þeirra. Sá sem notar sæfivöru í atvinnuskyni ber skylda til að skipuleggja notkunina,  leggja mat á áhættu samfara notkuninni og hvort hægt sé að leysa vandamálið með aðferðum sem ekki byggjast á notkun efna.

Einstaklingar sem nota varnarefni í atvinnuskyni vegna starfa sinna við eyðingu meindýra þurfa notendaleyfi fyrir útrýmingarefnum frá Umhverfisstofnun. Skilyrði fyrir útgáfu notendaleyfis er m.a. að viðkomandi hafi lokið námi eða námskeiði þar sem fjallað er um meðferð útrýmingarefna og staðist próf sem sýnir fram á þekkingu hans. Dreifingaraðili sem markaðssetur útrýmingarefni til notkunar í atvinnuskyni skal tilgreina ábyrgðaraðila innan fyrirtækisins, sem skal vera til taks þegar sala fer fram og veita viðskiptavinum fullnægjandi upplýsingar um notkun efnanna og áhættu fyrir heilbrigði og umhverfið. Nafngreindur ábyrgðaraðili skal hafa lokið námi eða námskeiði sem Umhverfisstofnun metur gilt.

Ýmsir ráðgjafar og þjónustuaðilar í fræðslustarfsemi eru til þess bærir að bjóða upp á námskeið og fræðslu fyrir fagmenn. 

Bestu starfsvenjur

Áður en þú kaupir sæfivörur ættir þú alltaf að velta þessum atriðum fyrir þér:
  • Er vandamálið þess eðlis að ég þurfi að bregðast við?
  • Get ég leyst vandamálið án þess að nota efni?
  • Á ég nú þegar til einhverja sæfivöru sem ég get notað og sloppið þannig við að kaupa nýja?
  • Ef ég þarf að kaupa nýja vöru, þá á ég ekki að kaupa meira en ég þarf að nota.

Er varan leyfð?

Það er mikilvægt að skoða hvort vara hafi verið leyfð áður en hún er notuð. Upplýsingar um leyfðar vörur er að finna á heimasíðu Umhverfisstofnunar. 

Hvaða upplýsingar finnur þú á merkimiðanum?

Miðinn inniheldur upplýsingar og leiðbeiningar sem þarf að fylgja þannig að hægt sé að nota sæfivöruna á öruggan og áhrifaríkan hátt. Þú verður alltaf að lesa á miðann og ganga úr skugga um að þú hafir skilið leiðbeiningarnar áður en notkun hefst og fylgja þeim svo vandlega.

Miðinn á að innihalda eftirfarandi upplýsingar:

  • Leyfisnúmer, sem lögbært yfirvald eða framkvæmdastjórnin úthlutar fyrir sæfivöruna (IS-XXXXXXX-ZZZZ). Þú ættir að skrá hjá þér leyfisnúmerið og heiti virku efnanna í vörunni og hafa tiltækt til að geta fengið sem besta aðstoð ef slys verður eða eitthvað ber útaf við notkunina.
  • Fyrir hvaða notkun sæfivaran er leyfð, t.d. eingöngu ætlað til notkunar sem viðarvörn. Sæfivöru má aldrei nota í öðrum tilgangi en þeim sem hún hefur verið leyfð fyrir.
  • Upplýsingar um fyrir hvaða notendur varan er leyfð, t.d.
            o Varan er leyfð fyrir notkun almennings.
            o Varan er ætluð til notkunar fagmanna. Þá er átt við að notkun sé eingöngu í höndum fagmanna sem noti vöruna í starfi sínu og sem hafa fengið til þess viðeigandi þjálfun og fræðslu svo varan sé notuð á öruggan hátt.
  • Hvort möguleg hætta geti stafað af vörunni eða notkun hennar.
  • Upplýsingar um hvort nota þurfi persónuhlífar eða sérstök tæki eða tól við notkun hennar.
  • Hvernig nota eigi vöruna þannig að hún valdi ekki þér sem notanda, öðru fólki, dýrum eða umhverfinu tjóni.
  • Hvort takmarka þurfi aðgengi að því svæði þar sem varan hefur verið notuð.
  • Hvernig nota eigi sæfivöruna þannig að notkun hennar beri tilætlaðan árangur.
  • Hvernig farga eigi vörunni og umbúðum hennar.

Sé leiðbeiningum á vörunni fylgt, ætti ekki að stafa hætta af henni. Ef þér líður illa eftir að hafa notað sæfivöru ættirðu að leita til læknis eða Eitrunarmiðstöðvar LSH.

Geymsla

Sæfivörur á alltaf að geyma í upprunalegum ílátum, ekki bara vegna þess að það sé öruggara heldur líka vegna þess að þannig eru kröfur regluverksins uppfylltar.
Þegar þú hefur lokið notkun sæfivöru þarftu að ganga úr skugga um að pakkningum sé lokað vandlega þannig að ekki leki úr þeim. Sæfivörur á að geyma á öruggum stað þar sem börn og gæludýr ná ekki til. Vörur sem ætlaðar eru til útrýmingar meindýra og eingöngu leyfðar til notkunar í atvinnuskyni, á að geyma í læstum hirslum eða rými sem eru greinilega auðkennd með viðeigandi varnaðarorðum eins og „Varúð“, „Eitur“.

Förgun

Ef þú notar sæfivörur berð þú ábyrgð á að umbúðum og leifum af þeim sé fargað á viðeigandi hátt. Skoðaðu merkimiðann varðandi ráð um förgun vörunnar og umbúða hennar. Ef þú ert ekki viss um hvernig á að farga sæfivöruúrgangi, getur þú fengið ráð hjá endurvinnslu eða móttökustöð í þínu sveitarfélagi.
Fagmenn þurfa að kynna sér hjá viðkomandi móttökuaðilum hvernig farga á leifum af sæfivörum og tómum ílátum.
Sjá einnig :